

Litið yfir árið hjá þingflokknum
Það er búið að vera mikið um að vera þingflokki Miðflokksins á liðnu ári.
Þingmennirnir okkar hafa skrifað mikið af greinum það sem af er ári og birst í viðtölum og hlaðvarpsþáttum.
Þingmennirnir voru einnig duglegir að heimsækja kjördæmin sín og halda opna fundi og stefna á fleiri opna fundi eftir áramót.
Þingflokkurinn tók á móti gestum í þinghúsið, þ.á.m. ungum Miðflokksmönnum og hópi kvenna, ræddi við þau um stöðuna í pólitíkinni og sýndi þeim þinghúsið.
Þingflokksformannaskipti voru í október þar sem Sigríður Á. Andersen tók við af Bergþóri Ólasyni.
Kjördæmavika var í febrúar þar sem þingflokkurinn var á ferð og flugi, þingmennirnir héldu opna fundi í kjördæmum sínum og fóru í heimsóknir, sjá hér.
Í byrjun árs þegar þing var sett var stefnuræða forsætisráðherra um umræður um hana þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason voru ræðumenn Miðflokksins. Umræðuna má sjá hér.
Um miðjan júní voru svo eldhúsdagsumræður, Sigríður Á. Andersen og Ingibjörg Davíðsdóttur voru ræðumenn Miðflokksins. Umræðuna má sjá hér.
Við þingsetningu í september var svo stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir voru ræðumenn Miðflokksins. Umræðuna má sjá hér.
Þingið var fremur óvenjulegt í sumar þar sem að þingi lauk ekki fyrr en seinni hluta júlí, í fyrsta skipti í sögunni var þingfundur á sunnudegi og forseti þingsins beitti 71. gr. þingsakaparlaga í óþökk stjórnarminnihlutans þar sem ekki gafst færi á að klára veiðigjaldaumræðuna.
Miklar skattahækkanir á almenning voru svo samþykktar í fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir jól en nú um áramótin munu skatta- og gjaldskrárhækkanir eiga sér stað sem þingmenn Miðflokksins gagnrýndu harðlega.
Alþingisstörfin
Þingmennirnir okkar tóku þátt í umræðum á Alþingi, lögðu fram mikið af þingmálum þar sem þau gátu mælt fyrir stórum hluta þess, spurðu ráðherra í fyrirspurnum, voru með nefndarálit með breytingartillögum og heimsóttu fyrirtæki þegar tími gafst á milli þingstarfa.
Þingmenn lögðu fram fjölmargar fyrirspurnir og þingmál og tóku virkan þátt í umræðum,
Meðal þingmála sem þingmenn lögðu fram voru um leit á olíu og gasi, dreifingu fréttaefnis á Ríkisútvarpinu, fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum, sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi, öryggis- og varnarmál, notkun þjóðfánans, gildistíma ökuskírteinis, endurmenntun atvinnubílstjóra o.fl.
Varaþingmennirnir okkar voru einnig öflugir á þessu ári, en í ár komu 8 varaþingmenn inn, það eru þau: Anton Sveinn McKee, Ágústa Ágústsdóttir, Einar Jóhannes Guðnason, Eiríkur S. Svavarsson, Jakob Frímann Magnússon, Lárus Guðmundsson, Lóa Jóhannsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.
Þau stóðu sig öll með prýði, lögðu fram fjölda fyrirspurna, sátu nefndarfundi og tóku þátt í þingstörfunum í þingsal.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með þingmönnunum á samfélagsmiðlum þeirra á Facebook, Instagram, X-inu og TikTok.
Þingflokkurinn þakkar fyrir frábært ár.

























