Miðflokkurinn á ferð í kjördæmaviku!

Þingmenn Miðflokksins þeystu um landið í nýliðinni kjördæmaviku og heimsóttu fólk, fyrirtæki og stofnanir í öllum kjördæmum. Opnir fundir, fjöldinn allur af símtölum og heimsóknum nestaði þingmennina vel inn í þingstörfin framundan.

Skilaboðin voru skýr; styðja þarf betur við verðmætasköpun, framleiða meiri orku og huga betur að innviðum samfélagsins. Miðflokkurinn mun ráðast af festu í þessi mál og önnur sem stuðla að hag íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

„Þetta hafa verið sérlega ánægjulegir dagar og þær góðu viðtökur sem fulltrúar flokksins hafa fengið fylla mig bjartsýni fyrir komandi tíma. Við finnum strax að Miðflokkurinn skiptir máli í stjórnarandstöðunni og að ný ríkisstjórn er komin í bullandi vörn, þótt hún sé bara nýtekin við. Við sækjum orku og ráð til fólks um land allt og þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að nýta kjördæmavikuna vel,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, eftir kjördæmavikuna.

„Við erum ákveðin í að vera vel sýnileg um allt land allt kjörtímabilið og ég hvet Miðflokksfólk um land allt til að hafa samband við okkur ef eitthvað er. Sömuleiðis vil ég hvetja aðra til að ganga til liðs við flokkinn, þar er vel tekið á móti nýju fólki og mikið framundan. Það er enda bæði stutt í sveitarstjórnarkosningar, þar sem við ætlum að gera góða hluti og stórfjölga kjörnum fulltrúum, en einnig geta aðstæður breyst í landsmálunum með skömmum fyrirvara. Eins og allir vita, sem fylgjast með, eru þetta áhugaverðir tímar.“

Hárnet, gervigreind og röflað um Reykjavík

Þingmenn Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis, þau Bergþór Ólason, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Sigríður Andersen og Snorri Másson, gerðu víðreist í sínum kjördæmum. Símtöl, samtöl, heimsóknir í lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt röfli um Reykjavík einkenndu vikuna.

Hópurinn heimsótti m.a. Brim, fyrirtæki í sjávarútvegi í Reykjavík, en þar tók Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim, á móti þeim og ræddi stöðu sjávarútvegsins á meðan þau gengu um fiskvinnsluna.

Þar kom líka á daginn að hárnet fara öllum vel, alltaf.

Þá mættu þingmenn Miðflokksins á opinn fund í Reykjavík með bændum og framleiðendum landbúnaðarafurða þar sem Snorri Másson fann orð kjördæmavikunnar.

Þá tók Fjölsmiðjan, verkþjálfun og fræðslusetur fyrir ungt fólk, á móti hópnum.

Útlendingamálunum voru gerð góð skil í heimsókn til Útlendingastofnunar í vikunni og menntamálin rædd í þaula í Fellaskóla og Menntaskólanum í Reykjavík. Gervigreindarfyrirtækið Evolv og fjöldi fyrirtækja í Suðvesturkjördæmi tóku einnig á móti þingmönnum.

Ungir miðflokksmenn létu sitt ekki eftir liggja í vikunni og efndu til viðburðarins Röflað um Reykjavík með þingmönnunum Sigríði Andersen og Bergþóri Ólasyni. Einar Jóhannes Guðnason, stjórnarmaður í Freyfaxa, hélt utan um viðburðinn og var margt um manninn.

Fæðuöryggi, þjóðararfurinn og orkumál

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, fór vítt og breitt um kjördæmið í vikunni og heimsótti fjöldann allan af fólki. Eins og hún lýsir því sjálf á fésbókarsíðu sinni:

„Samgöngumál og alvarlegt ástand vega í kjördæminu er það mál sem þyngst hefur vegið í samtölum og er brýnt að forgangur og fjármunir fáist í aðgerðir. Einnig eru það orkumálin, landbúnaður, matvælaframleiðsla og fæðuöryggið ásamt atvinnu- og verðmætasköpun sem vega þungt í samtölum vikunnar. Menningarmál og þjóðararfur vega einnig þungt í héraði Snorra Sturlusonar. Þá vildu margir ræða utanríkis- öryggis- og varnarmál.

Mikið er gefandi og skemmtilegt að hitta fólkið í kjördæminu, fá brýningu, hvatningu og góð innlegg í vinnuna framundan“

Leið hennar lá meðal annars til svæðisstjóra Vestursvæðis Vegagerðarinnar, sveitarstjóra Borgarbyggðar, bæjarstjóra Akraness, verkalýðsleiðtoga Akraness, starfsfólks Snorrastofu Reykholti, garðyrkjubænda Laugalandi, KAPP á Skaganum, framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda og Beint frá býli, sveitarstjórnarfólks, bænda o.fl.

Barátta fyrir landsbyggðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Þorgrímur Sigmundsson, þingmaður Miðflokksins, fóru víða í Norðausturkjördæmi. Frábær samtöl og góðar stundir með öflugu fólki á Egilsstöðum, Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Neskaupsstað, Húsavík, Grenivík, Eyjafjarðarsveit og Akureyri.

Benedikt Warén og Birnir Ármann slógust með í för á Borgarfjörð Eystri og Seyðisfjörð þar sem þeir hittu fyrir fólk og fræddust um samfélagið.

Á Akureyri fundaði Þorgrímur með bæjarfulltrúunum Hlyni Jóhannssyni og Ingu Dís Sigurðardóttur. Því næst lá leiðin inn á Hrafnagil þar sem Ragnar og Berglind tóku á móti honum á fundi ásamt góðu fólki.

Þorgrímur gerði upp vikuna með þessum orðum á fésbókarsíðu sinni:

„Mæting á fundi og móttökur á vinnustöðum sem og öll samtölin á förnum vegi eru okkur hvatning til baráttu fyrir landsbyggðina. Takk öllsömul.“

Einn í Eyjum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, ræddi við fjölda fólks í sínu kjördæmi og heimsótti bæði fyrirtæki og stofnanir. Hann var til dæmis eini þingmaður kjördæmisins sem fór til Vestmannaeyja eins og Eyjafréttir gerðu góð skil í vikunni. Karl Gauti átti gott spjall við blaðamann og sagði hann samgöngumál efst á baugi:

„Landeyjahöfn og dýpkun hennar. Þá þarf áætlunarflugið bæði að ná yfir lengra tímabil vetrarins að fenginni reynslu og með fleiri ferðum í viku. Eins og venjulega leit ég einnig við hjá kunningjum á kaffistofum bæjarins og þar bar einnig margt á góma, eins og sameining sýslumannsembættanna, jarðlagarannsóknir vegna gangnagerðar, heilbrigðisþjónustan og sjúkraflugið. Að sjálfsögðu var einnig komið inn á ástand og endurnýjun vatnsleiðslunnar.“

Sagði hann þannig úr ýmsu að moða en hann muni á næstunni leggja fram frumvarp sitt um þjóðferjuna, nú í fimmta sinn. Karl Gauti heimsótti meðal annars bæjarstjórann í Vestmannaeyjum, bæjarfulltrúa, lögreglustöðina, Vinnslustöðina, Flugkaffið, Olískaffið, Skýlið, Klett, fasteignasala og fleiri.

Karl Gauti átti einnig góðan fund með Grindvíkingunum Hermanni Waldorff og Benný Ósk Harðardóttir í Alþingishúsinu.

Áfram Ísland!

Þingmenn Miðflokksins hlakka til áframhaldandi samtals við fólkið í landinu hér eftir sem hingað til.

Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavík, komst vel að orði á fésbókarsíðu sinni þegar hann gerði upp sína fyrstu kjördæmaviku sem þingmaður:

„Það er pepp í fólki – við erum rétt að byrja. Eftir frábæra viku á ferð og flugi eru hughrifin að nokkru marki í anda góðrar lýsingar Einars Arnórssonar ráðherra frá 1930:

Þjóðin er í önnum, og alt ber þess vitni, hvert sem litið er. Alt er hjer eins og hálfgert, líkt og um miðjan bjargræðistíma — framfarirnar í miðju kafi eins og hálfsögð saga. En einmitt vegna þess, hefir sú kynslóð, sem nú er uppi, bjargfasta trú á landinu — að hjer sje enn ófundin margskonar auðæfi, að hjer sje nóg orka til þess að vinna þau verk, er hafið geti hina fámennu þjóð til vegs og gengis á komandi öldum.“

Okkur ber skylda til að vera bjartsýn! Eins og við eigum að vera vakandi yfir hagsmunum okkar á alþjóðasviðinu, virðist vera að við þurfum að temja okkur yfirvegun og langlundargeð. Það eru sviptingar að verða en við höfum upp á slíka landkosti að bjóða, að menn munu alltaf hafa hag af góðum samskiptum við Íslendinga. Gleymum því ekki.“

Það munar um Miðflokkinn.