- Miðflokkurinn styður séreignarstefnu í húsnæðismálum en leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður þannig að fjölskyldur geti valið sér það búsetuform sem best hentar.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja þessa þörf.
- Miðflokkurinn telur að of mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði hafi leitt til síhækkandi húsnæðisverðs.
- Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auka framboð lóða og auðvelda byggingaframkvæmdir.
Stefnumið:
Það þarf að ráðast í aðgerðir svo allir geti eignast þak yfir höfuðið.
Ástandið nú stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþörfum kröfum hins opinbera sem endurspeglast í óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og óþjálum byggingareglugerðum.
Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda ýti undir framboð hentugra byggingarlóða af hendi sveitarfélaga og vinni gegn þeim alvarlega lóðaskorti sem hér hefur ríkt.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á að ungt fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum, með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs.
Heimatilbúinn vandi stjórnvalda er nú að ýta almenningi til baka í verðtryggð lán, eftir að mikil aukning hefur orðið um árabil á vinsældum óverðtryggðra lána. Stjórnvöld þurfa með ábyrgum aðgerðum að sigla samfélaginu aftur í átt til lágra vaxta og stöðugleika í efnahagslífinu.
Aðgerðir:
- Einföldun regluverks, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og einfaldara og skilvirkara leyfisveitingakerfi er frumforsenda fyrir því að árangur náist hvað varðar framboð á hagkvæmu húsnæði.
- Há verðbólga og háir vextir eru helsta vandamál þeirra sem hafa nýlega fest kaup á fasteign eða stækkað við sig. Ábyrgðarleysi stjórnlausra ríkisútgjalda hefur, með öðru, kallað fram hærri stýrivexti Seðlabanka Íslands en annars hefði verið þörf á.
- Til skemmri tíma þarf að ná utan um þá hópa sem standa höllum fæti vegna þróunar vaxta og verðbólgu undanfarin misseri, meðal annars með því að tryggja að heimili ráði við afborganir.
- Skoðað verði að auka heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til greiðslu inn á lán, hagkvæm breyting á lánaformum, samstarf banka og stjórnvalda hvað lausnir varðar og það sem skiptir mestu máli, að ná niður verðbólguvæntingum.
Útfærslur:
- Til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingakostnaður er hærri en markaðsverð skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%.
- Almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði 60%.
- Breytt útfærsla hlutdeildarlána kemur til greina í til að tryggja fólki innkomu inn á húsnæðismarkaðinn.
- Samstarf ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til að ýta undir framleiðslu íbúða, bæði hvað varðar framboð lóða og tímasetningu kostnaðar vegna grunninnviða tengdum nýbyggingum. Hár fjármögnunarkostnaður og mikill upphafskostnaður vegna lóða- og gatnagerðargjalda er verktökum fjötur um fót þegar kemur að því að halda samfellu í verkefnum sínum, sem dregur úr hagkvæmni.
- Á höfuðborgarsvæðinu er nærtækt að nefnda hið mikla byggingarland sem mun opnast með lagningu Sundabrautar.
- Útvíkka þarf vaxtamörk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
- Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð gagnvart viðskiptum einstaklinga og lækkuðu um helming hvað lögaðila varðar.