Húsnæðismál og staða á lánamarkaði
Miðflokkurinn styður aðgerðir til þess að auka framboð íbúarhúsnæðis.
Miðflokkurinn styður séreignarstefnuna sem sé í samræmi við eindreginn vilja yfirgnæfandi hluta landsmanna sem og annað eignarform s.s. húsnæðis- og byggingarsamvinnufélög. Flokkurinn leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður svo fjölskyldur hafi val um það búsetuform sem best henti.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja að þeim þörfum sé mætt.
Miðflokkurinn telur að þéttingar- og skortstefna Reykjavíkurborgar leiði af sér misræmi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði sem sé ein helsta orsök síhækkandi húsnæðisverðs.
Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auki lóðaframboð og auðveldi byggingaframkvæmdir. Núverandi ástand stafi af lóðaskorti og óþarfa kröfum hins opinbera sem endurspeglist í óskilvirkri afgreiðslu leyfa og íþyngjandi byggingarreglugerðum sem nauðsynlegt sé að færa til nútímahorfs. Flokkurinn vill tryggja að stofnanir og stjórnsýsla vinni með og greiði götu framkvæmdaaðila af skilvirkni í stað þess að stuðla að óþarfa töfum og kostnaði.
Sérstaka áherslu skal leggja á að fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs. Þá megi stuðla að sanngjarnara greiðslumati með tilliti til leigugreiðslna enda sé fráleitt að fólk teljist ekki geta staðið undir mánaðarlegum afborgunum af húsnæðisláni séu þær lægri en leigugreiðslur.
Fram fari heildarendurskoðun á hlutdeildarlánakerfinu og tryggja að leiðin þjóni markmiðum sínum.
Til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingarkostnaður er hærri en markaðsverð skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%.
Almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði hækkuð í 100%. Afnema þarf vaxtamörk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og neitunarvald einstakra sveitarfélaga.
Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð gagnvart viðskiptum einstaklinga og lækkuð um helming hvað lögaðila varðar.