Byggðastefna – Ísland allt
Miðflokkurinn mun áfram fylgja fast eftir stefnunni sem fyrst var kynnt fyrir kosningar 2017 undir nafninu „Ísland allt“.
Miðflokkurinn leggur áherslu á heildstæða stefnu á öllum sviðum samfélagsins með það að markmiði að nýta kosti landsins alls og renna traustum stoðum undir byggðirnar hringinn í kringum landið. Þar skipta m.a. samgöngumálin gríðarlega miklu máli eins og vegir, brýr, jarðgöng, hafnir og flugvellir auk öflugra fjarskipta um land allt.
Tímabært er að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öllum nauðsynlegum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls. Stórátak þarf í uppbyggingu samgönguinnviða en betri vegir, öruggir flugvellir og öflugar hafnir eru forsenda þess að verðmætasköpun geti aukist.
Miðflokkurinn lagði til í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að gerðir yrðu sérstakir samgöngusáttmálar fyrir hvern landshluta. Er sú tillaga ítrekuð í stefnu þessari. Lausnir sem miða að því að jafna aðstöðumun fólks verða að vera í stöðugri endurskoðun, hvatar þurfa að vera jákvæðir og útfærslur þannig að lausnirnar séu aðgengilegar og einfaldar. Aukin skattheimta ríkisstjórnarinnar á ökutækjaeigendur vinnur gegn markmiðum um jafna stöðu byggða landsins.
Áfram skal standa vörð um Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er og þrýsta á nauðsynlegar úrbætur sem og aðra flugvelli landsins og tryggja greiðar flugsamgöngur landsmanna og það verði skilgreint sem almenningssamgöngur. Standa þarf vörð um skipulagsvald sveitarfélaga og landbúnaðarland. Varað er við þeirri þróun að landskipulag taki fram fyrir hendur sveitarfélaganna í skipulagsmálum. Undantekning frá þessu er æðsta stofnun landsins, Alþingi. Vill flokkurinn að Alþingi fari með skipulagsmál á Alþingisreitnum sem æðsta stofnun þjóðarinnar.
Miðflokkurinn leggst gegn lagafrumvarpi innviðaráðherra um að hann geti með valdboði sameinað sveitarfélög.
Sveitarfélögum verði endurgreidd að fullu þau gjöld og skattar sem þeim er ætlað að greiða til ríkisins af mannvirkjum vegna lögbundinnar þjónustu.
Efla heilbrigðisþjónustu um allt land og sjúkrahús á landsbyggðinni. Þá verði gerð hagkvæmniúttekt á því að staðsetja þyrlu Landhelgisgæslunnar á landsbyggðinni. Íslenska verði lögbundið tungumál stjórnsýslunnar og sé því í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og samfélagið taki saman höndum um eflingu tungumálsins meðal fólks í framlínustörfum.
Standa þarf vörð um tjáningarfrelsið sem er hornsteinn lýðræðisins.
Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að koma þegar í stað í veg fyrir stórtæk uppkaup á jörðum í landinu. Á sama tíma verður að viðurkenna að jarðir bænda eru oft þeirra aðal eign, þeirra lífeyrissjóður. Því verður að finna leið til að tryggja að þessi lífeyrir bænda rýrni ekki með stöðvun uppkaupa jarða. Horfa má til ríkja líkt og Noregs sem glímt hefur við sömu þróun. Þá hvetur þingið til þess að ríkið selji jarðir í þess eigu, ekki síst þær sem nýst geta til ábúðar.