Sjávarútvegsstefna

Miðflokkurinn styður beitingu aflamarkskerfis við stjórn fiskveiða á Íslandi með sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og stöðugleika að leiðarljósi. Miðflokkurinn telur mikilvægt að kveðið sé á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá, þar með talið sjávarauðlindinni.

Miðflokkurinn vill að komið sé í veg fyrir fákeppni í sjávarútvegi með lögum. Litið verði þar til hámarksaflahlutdeildar einstakra útgerða og tengdra aðila í því samhengi.

Miðflokkurinn vill að veiðigjöld verði réttlát, gagnsæ og einföld. Ráðstafa skal stórum hluta af hækkuðu veiðigjaldi til sveitarfélaga eða stofnanna í sveitarfélögum.

Miðflokkurinn vill efla hafrannsóknir við Ísland og telur að aukin þekking á stærð fiskistofna, ástandi sjávar og lífríkis muni hámarka mögulega nýtingu þeirra. Þannig nyti þjóðarbúið aukinna tekna af sjálfbærri nýtingu fiskistofna. Sjálfstæðum rannsakendum öðrum en Hafrannsóknastofnun verði auðveldað að framkvæma sínar rannsóknir byggðar á gögnum Hafrannsóknastofnunar.

Miðflokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Mikilvægt er að regluverk vaxandi atvinnugreinar tryggi að umhverfið beri ekki skaða af. Miðflokkurinn vill að þjónustuhöfnum fiskeldisfyrirtækja verði tryggðar tekjur í samræmi við umsvif fyrirtækjanna og að nærsamfélagið njóti góðs af.

Miðflokkurinn áréttar mikilvægi strandveiða fyrir byggðir landsins og að kerfið sé í stöðugri endurskoðun meðal annars til að tryggja sanngirni milli svæða og nýliðun í greininni.

Auka þarf viðveru björgunarþyrla víðar um landið til að tryggja öryggi sjófarenda.

Miðflokkurinn styður áframhaldandi hvalveiðar byggðar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Miðflokkurinn áréttar mikilvægi yfirráða Íslands yfir auðlindum lands og sjávar og geldur varhug við hverskyns samstarfs og viljayfirlýsingum núverandi stjórnvalda við Evrópusambandið sem kunna að skerða yfirráð og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar í auðlindamálum.