Utanríkis- og varnarmál

Fullveldi íslensku þjóðarinnar er grunnur þess að Ísland er frjálst ríki sem byggir efnahagslegt sjálfstæði sitt á frjálsum viðskiptum, sjálfbærri nýtingu auðlinda, friði og jafnrétti allra þegna landsins. Miðflokkurinn leggur áherslu á að alþjóðalög, reglur og sáttmálar sem tryggja íslenskri þjóð fullveldisrétt, séu virtir.

Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) tryggja öryggi og varnir landsins. Miðflokkurinn telur mikilvægt að fram fari reglulegar viðræður við Bandaríkin og aðrar vestrænar samstarfsþjóðir um þarfir og framkvæmd varna landsins.

Utanríkisstefna Íslands á að hafa að leiðarljósi að Ísland er og hefur alltaf verið herlaus og friðarsinnuð þjóð.

Aðgangur að mörkuðum er ein af grundvallarstoðum efnahagslegs sjálfstæðis landsins. Heimurinn er allur undir og því er fátt mikilvægara en að tryggja viðskiptahagsmuni landsins með þátttöku í alþjóðaviðskiptum með hagfelldum fríverslunar- og viðskiptasamningum.

Rúm 30 ár eru síðan EES samningurinn tók gildi. Fram fari óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu, sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum. Full ástæða er til þess að vekja athygli á svokallaðri gullhúðun en það er þegar íþyngjandi regluverk frá Evrópusambandinu er innleitt meira íþyngjandi hérlendis, oft með alvarlegum afleiðingum.

Miðflokkurinn hafnar afdráttarlaust innleiðingu Bókunar 35 sem skerða mun fullveldi þjóðarinnar.

Miðflokkurinn hafnar alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið.