Atvinnu- og ferðaþjónustumál
Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og einföldun regluverks og skapa atvinnuvegum landsins stöðugt rekstrarumhverfi með fyrirsjáanleika. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi, svo sem útflutning hátæknivara, frumkvöðlastarfsemi og upplifunar iðnað svo fátt eitt sé nefnt. Miðflokkurinn vill standa vörð um grunn atvinnuvegi þjóðarinnar.
Hraða skal uppbyggingu flutningskerfis raforku, fjölga hagkvæmum virkjunarkostum og tryggja næga orku þannig að búseta og atvinnulíf geti þróast með eðlilegum hætti í öllum landshlutum. Varlega skal fara í uppbyggingu vindorku.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar þróist með farsælum hætti fyrir atvinnugreinina um leið og horft er til hagsmuna umhverfisins. Ferðaþjónustan hefur reynst stærsti sprotinn í eflingu margra byggða um allt land og leggur flokkurinn áherslu á menntun og gæði ásamt öflugri gagnaöflun sem styrkir stöðu greinarinnar.
Endurskoða þarf afnám tollfrelsis og innviðagjald skemmtiferðaskipa í hringsiglingum sem þegar er farið að fækka komum með tilheyrandi neikvæðum efnahagslegum áhrifum. Sérstaklega skal horfa til minni hafna þar sem minni tekjur hafa mikil áhrif á atvinnulíf og sveitarsjóði. Fyrirsjáanleika þarf í gjaldtöku ferðamanna og tryggja að skyndiskattar kollvarpi ekki greininni.
Leggja þarf áherslu á að alþjóðaflugvellir á landsbyggðinni séu í stöðu til að sinna þjónustu við alþjóðaflug um leið og þeir geta sinnt varaflugvallahlutverki sínu með tryggari hætti en nú er. Til að efla alþjóðaflug verði Flugþróunarsjóður efldur. Mikilvægt er að miða stuðningsaðgerðir að því að jafna dreifingu ferðamanna, sem ýtir undir jafnari nýtingu innviða landsins.
Miðflokkurinn krefst tafarlausra inngripa stjórnvalda vegna stöðu PCC Bakki þar sem atvinnulegar hamfarir blasa við íbúum svæðisins. Þar geta stjórnvöld ekki setið aðgerðalaus hjá. Geta stjórnvöld t.d. gripið til sérstakra verndartolla vegna félagslegra undirboða sem nokkur ríki Asíu virðast stunda.