Samgöngumál – Sundabraut og Borgarlína
Miðflokkurinn leggur áherslu á að hraða lagningu Sundabrautar. Nóg er komið af innistæðulausum viljayfirlýsingum, blaðamannafundum og tafaleikjum borgaryfirvalda.
Þá skiptir ekki síður máli að tryggja örugga flóttaleið frá höfuðborgarsvæðinu sem Sundabraut sannarlega gerir.
Landsþingið leggur áherslu á að samgönguinnviðir landsins tryggi öryggi landsmanna og mikilvægt að stöðugt sé unnið að því að auka það ekki síst með fjölgun jarðgangna. Jarðgangnastefna ætti að vera skýr þannig að stöðugt sé unnið að nýjum göngum meðan þörf er á.
Endurskoða þarf frá grunni vegalög enda lögin frá 2007 og orðin barn síns tíma. Ný lög þurfa að endurspegla nútímann, nýja staðla, aukna umferð o.fl. Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um Borgarlínu eins og þær liggja fyrir. Þær eru með öllu óraunhæfar og kostnaður mjög vanáætlaður eins og sést vel á niðurstöðum útboðs um brú yfir Fossvog.
Miðflokkurinn leggur hins vegar áherslu á að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði bættar en það verður að gerast með skynsamlegum hætti. Horfa þarf til framtíðar og gera ráð fyrir því að sjálfkeyrandi bílar komi til með að vera framtíðarsamgöngumáti.
Ekki má þrengja að einkabílnum meira en orðið er og vinda ber ofan af ýmsum framkvæmdum sem beinlínis hefur verið ætlað að auka umferðartafir. Mislæg gatnamót verði nýtt sem lausnir á stofnbrautum.
Horfa verður til lausna sem bæta flæði umferðar bæði með framkvæmdum á stofnbrautakerfinu og bættri ljósastýringu.
Endurskipuleggja þarf vetrarþjónustu Vegagerðarinnar til að tryggja að takmarkaðir fjármunir hennar nýtist betur og dreifist jafnar m.a. til byggðarlaga sem búa við fjallvegi og þar sem atvinnustarfsemi krefst stöðugra samgangna. Vetrarþjónustu smærri landsbyggðarflugvalla verði efld.
Ráðast þarf þegar í stað í að eyða einbreiðum brúm. Með ólíkindum er að enn skuli t.d. á Suðurfjarðavegi þung tæki þurfi að fara yfir á vaði við þjóðveginn. Vegagerð, viðhald og þjónusta vega á landsbyggðinni, jafnt inn til dala og við þjóðveginn, verða að taka mið af verðmætasköpun, öryggi o.fl. til að jafna aðstöðumun fyrirtækja og einstaklinga.
Við gerð samgönguáætlana og sáttmála ásamt útfærslu þeirra þarf að leggja áherslu almannaöryggi s.s. flóttaleiðir.
Gera þarf úttekt á starfsemi Samgöngustofu.
Eldsneytisverði á flugvöllum landsins verði það sama og í Keflavík.
Miðflokkurinn hafnar framkomnu frumvarpi um kílómetragjald. Ljóst er að það ásamt hækkun á bifreiðagjöldum felur í sér gríðarlegar skattahækkanir. Skattar af ökutækjum eru nú þegar háir og skila sér illa til framkvæmda við vegakerfið.
Tryggja þarf að öruggri þjónustu leigubifreiðaaksturs sé haldið uppi með sýnileik og aðgengi fyrir almenning og eftirlitsaðila. Að leigubifreiðar séu sérmerkt samgöngulausn sem tengja annan samgöngumáta og að atvinnugrein leigubifreiðastjóra sé tekin alvarlega svo þeir geti lifað af sinni atvinnu.