Landbúnaður og matvælaframleiðsla

Miðflokkurinn vill efla innlenda matvælaframleiðslu og bregðast þegar í stað við þeim ógnunum sem steðja að greininni.

Stuðningur við íslenskan landbúnað er ekki síður stuðningur við neytendur sem þannig er tryggður aðgangur að heilnæmum matvælum. Allar nágrannaþjóðir okkar og flestar þjóðir heims styðja sinn landbúnað og vernda meðal annars með innflutningstollum. Núgildandi tollasamningar hafa skapað mikið ójafnvægi á markaði þar sem innlend framleiðsla þarf að keppa við innflutning á vörum sem ekki eru gerðar sömu kröfur til. Auka þarf þegar í stað tollvernd innlendrar framleiðslu með uppsögn og endurskoðun tollasamninga. Mikilvægt er að endurskoða samninginn, forsendur hafi breyst og ójafnvægi ríki á milli samningsaðila. Koma þarf í veg fyrir óheftan innflutning á ófrosnu kjöti sem er um leið afar mikilvægt lýðheilsumál fyrir þjóðina.

Íslendingar verða því að standa vörð um eigin framleiðslu með sama hætti eigi hún að standast samkeppni. Þörfin hefur því aldrei verið brýnni en nú að svara ákalli bænda um fyrirsjáanlegt rekstraröryggi og bætta afkomu greinarinnar. Stutt verði við nýsköpun, uppbyggingu og markaðsstarf sem mætir þörfum samtímans.

Grípa þarf strax til aðgerða til að leiðrétta rekstrarumhverfi bænda og matvælaframleiðslu áður en illa fer. Fæðuöryggi þjóðarinnar er þjóðaröryggismál.

Landsþingið hvetur til þess að starfsumhverfi minni og meðalstórra búa sé tryggt þar sem leynt og ljóst er grafið undan því kerfi sem bændur hafa búið við m.a. breytingum á greiðslum til bænda.

Miðflokkurinn telur rétt að ráðuneyti landbúnaðarmála beri heiti málaflokksins. Skapa þarf möguleika á stóraukinni ræktun grænmetis sem byggir á hagkvæmri orku og hreinleika íslenskrar náttúru.

Settar verði skýrar kröfur um upprunamerkingu matvæla þar sem fram komi einnig upplýsingar um notkun hormóna og sýklalyfja við framleiðsluna ásamt kolefnisspori sem hlýst af flutningi vörunnar. Um leið þarf að koma í veg fyrir að hingað til lands séu fluttar kjötvörur frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun er útbreidd. Skoða þarf að merkja vörur bænda þannig að fram komi hlutur bóndans í verðlagningunni.

Blóðmerahald er atvinnugrein sem margir bændur treysta á fyrir sinn rekstur. Langflestir í greininni vinna af fagmennsku, undir eftirliti sérfræðinga enda ekki hagur þeirra að illa sé staðið aðbúnaði dýranna.

Landsþingið bendir á nýjar greiningar sem sýna að kolefnisbinding er meiri í beitarlandi en losun. Tryggja þarf að í t.d. umræðum, setningu laga og reglna sé horft til staðreynda og íslensks veruleika en ekki erlenda staðla t.d. frá Evrópusambandinu.

Áfram þarf að styðja við kornrækt á Íslandi. Frekari rannsóknarvinna þarf að liggja á bak við ræktina m.a. til að koma á stöðugleika og finna hvaða tegundir korns hentar íslenskri veðráttu best.

Ísland getur náð miklum árangri í skógrækt með góðu skipulagi og samstarfi einka- og opinberra aðila. Landsþingið varar þó við að óheft skógrækt í þágu vafasamra loftslagsaðgerða verði helsti vaxtarbroddur skógræktar í landinu. Bændur sem plantað hafa skógi árum saman sitji við sama borð og þeir sem planta nýjum skóg þegar kemur að möguleikum til kolefnisjöfnunar.

Hafin er endurskoðun búvörusamninga og ríkisstjórnin hefur nú þegar sagt landbúnaðinum stríð á hendur rétt eins og fleiri atvinnugreinum. Mikilvægt er að engar breytingar séu gerðar á starfsumhverfi bænda án samráðs við þá. Í nýjum samningum þarf að tryggja hag bænda, hagsmuni neytenda og öryggi og stöðugleika innlendrar matvælaframleiðslu til langrar framtíðar. Stuðningur við landbúnað verði aukinn í takt við aukna eftirspurn og framleiðslu og fyrirkomulag hans einfaldað. Stutt verði við nýliðun í greininni svo sem með virkri nýtingu heimilda Byggðastofnunar og skattaívilnunum við flutning bújarða milli kynslóða.

Tryggja þarf að eftirlit með landbúnaðarstarfsemi og matvælaframleiðslu sé samræmt á landsvísu og að þak sé sett á eftirlitskostnað.

Aðgengi að þjónustu dýralækna sé tryggð um land allt.


Tengt efni

Þingsályktun Miðflokksins – 31. október 2024

Tillaga til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.