
Vond væntingastjórnun gagnvart fötluðum
Ég hitti vinkonu mína í heita pottinum í vikunni. Hún spurði mig hvers vegna við í þingflokki Miðflokksins hefðum setið hjá við afgreiðslu laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ég spurði hana á mót hvort hún teldi okkur hafa horn í síðu fatlaðra. Hún hélt nú ekki, vissi að við værum þar allra þingflokka traustastir.
Efnislega svaraði ég henni svona:
Afstaða okkar skýrist af því að málið var ekki tilbúið til afgreiðslu. Bæði var ekki ljóst hvort áform væru um að ný efnisleg réttindi fyrir fatlað fólk fylgdu lögfestingunni og svo var verið að fara í fullkomna óvissuferð varðandi fjárhagslegan þátt málsins.
Þann 10.nóvember sendu Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) bænaskjal til Alþingis þar sem óskað var eftir að kostnaðarmat yrði framkvæmt, til samræmis við sveitarstjórnarlög, en um 90% af þjónustu við fatlað fólk á landsvísu er veitt af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Mat sem unnið var fyrir SSH dregur fram að árlegur viðbótarkostnaður vegina innleiðingarinnar verði um 14 milljarðar. 14 þúsund milljónir, á ári!
Í ljósi þessa óskuðu sveitarfélögin eftir því að samtal færi fram á milli ríkis og þeirra sjálfra um það hvernig staðið verður að fjármögnun málaflokksins. Sérstaklega var óskað eftir að samtalið ætti sér stað áður en til lögfestingar samningsins kæmir. Af því varð auðvitað ekki.
Tveimur dögum síðar, þann 12.nóvember, var frumvarpið samþykkt og gert að lögum, með öllum greiddum atkvæðum utan atkvæða þingmanna Miðflokksins, sem sátu hjá, enda blasti við að málið væri ekki tækt til afgreiðslu.
Sem fyrr segir var það ekki bara spurningin um fjármögnun sem var ósvarað. Sömuleiðis var óljóst hvort ný efnisleg réttindi fyrir fatlaða yrðu byggð á lögunum.
Þeir sem skrifuðu frumvarpið fullyrtu að engin ný réttindi yrðu byggð á því. Kostnaður af málinu því enginn. Þetta kom skýrt fram í frumvarpstextanum og meðfylgjandi greinargerð.
En svo mætti ráðherrann, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og sagði þetta einhverja mestu réttindabót sem fötluðum hefði hlotnast. Við fötluðum blasti hlaðborð nýrra réttinda sem áttu ekki að kosta neinn neitt. Allt var þetta með miklum ólíkindum.
Meirihluti velferðarnefndar bætti svo um betur í upplýsingaóreiðunni með stuttu framhaldsnefndaráliti sem enginn skilur í raun.
Það að klára afgreiðslu þessa máls án þess að leiða þessi tvö mikilvægu atriði til lykta var fráleitt og snertir í engu hug þingflokka til hagsmuna fatlaðs fólks.
Nú sjáum við hvernig málum vindur fram. En ég er hræddur um að það hafi verð sett nýtt héraðsmet í vondri væntingastjórnun og að það séu þeir sem síst skyldi sem beri hallan af.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember, 2025.


