
Uppsprettan á Austurlandi en sóað í Reykjavík
Benedikt V. Warén
Nú stendur fyrir dyrum að Landsvirkjun byggi stórhýsi yfir stjórnstöðvar sínar í bæjarfélagi þar sem engin raforkuframleiðsla er á vegum fyrirtækisins. Það þætti nokkuð galin forgangsröðun ef Landsbanki Íslands hefði valið að flytja höfuðstöðvar sínar í bæjarfélag og vera ekki með neina aðra starfsemi á staðnum.
Samkvæmt fréttum RÚV eru lóðirnar þrjár sem Landsvirkjun er að helga sér við Bústaðaveg á um 1,3 milljarða króna og þá á eftir að byggja húsið. Alltaf ber röksemdafærsluna að sama brunni þegar fjármunir eru annars vegar, ekkert er hægt að skilja eftir á upprunastað en milljörðum sóað í glæsihallir á dýrasta stað landsins. Á Fljótsdalshéraði er um helmingur allrar orku Íslands framleiddur og orkuna fær Landsvirkjun á spottprís.
Á sama tíma er verið að „gelda“ Austurland stjórnsýslulega séð og engin opinber stofnun verður þar starfandi. Það rímar hins vegar ótrúlega illa við fögur fyrirheit stjórnvalda síðustu ára um að færa opinber störf á landsbyggðina. Ekki það að nokkur hrökkvi við það lengur en fúslega skal viðurkennt að undan svíður.
Eitt verkefni er uppfyllt svikalaust af stjórnvöldum. Það er að soga allt fjármagn úr fjórðungnum og síðan þarf að sækja með betlistaf í lífsnauðsynleg bjargráð. Austfirðingar hafa mátt þola ítrekuð svikin loforð um flesta hluti sem hefur átt að færa til betri vegar fyrir Austurland. Þar toppaði formaður Framsóknarflokksins alla hina þegar hann reið sperrtur um héruð sem innviðaráðherra (samgönguráðherra) á Austurlandi veifandi gúmmítékka framan í alla og lofaði Axarvegi, endurbótum á Egilsstaðaflugvelli og Fjarðarheiðargöngum, svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar þrengt var að innviðarráðherranum um efndir vísaði hann snarlega á fjármálaráðherrann, en sá vildi ekki viðurkenna gúmmítékkann. Engar breytingar urðu þó við að sami ráðherrann færi í stólaleikfimi við aðra ráðherra og lenti sjálfur í stól fjármálaráðherra. Þá brast hins vegar á æpandi aðgerðaleysi og öll loforð fuku út um gluggann.
Nú er hins vegar tækifæri að snúa málum Austurlands á betri veg, vinna eftir stefnu stjórnvalda, færa ríkisstofnun á landsbyggðina og reisa veglegar höfuðstöðvar Landsvirkjunar á Fljótsdalshéraði. Þar er næg orka til að lýsa og hita upp slíkt stórhýsi, ódýrar lóðir eru í boði, góðar samgöngur, fínar tengingar við netkerfin og frábær staður veðurfarslega, þar sem starfsfólki mun líða vel og rúsínan í pylsuendanum – það sparast miklir fjármunir.
Því er krafan að flytja höfuðstöðvar Landsvirkjunar á Fljótsdalshérað.
Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins í NA-kjördæmi.