
Talnaleg ringulreið og 101% skattahækkun
Vinna atvinnuveganefndar hefur verið stanslaus óvissuferð síðan frumvarpi til laga um stórhækkaða skatta á grundvelli veiðigjalda var vísað til nefndarinnar 12. maí síðastliðinn.
Gestakomur voru heldur snubbóttari en tilefni var til og talnalegur grundvöllur málsins hefur verið markaður loftkenndu fótfestuleysi.
Fljótlega fórum við fulltrúar í minnihluta nefndarinnar að óska eftir því að Skatturinn, sem einn er í færum til að reikna raunveruleg veiðigjöld miðað við gefnar forsendur frumvarpsins, yrði fenginn til að reikna. Furðu má sæta að hann hafi ekki verið kallaður að borðinu á fyrri stigum undirbúnings málsins.
Þann 12. júní fengum við nefndarmenn í atvinnuveganefnd afhent skjal frá Skattinum, sem innihélt útreikning á því hvert veiðigjaldið yrði á næsta ári, að samþykktu því frumvarpi sem nú liggur fyrir.
Strax varð ljóst að í gögnin sem atvinnuveganefnd fékk afhent frá Skattinum, með millilendingu í fjármálaráðuneytinu, vantaði eitthvað sem hlaut að hafa fylgt með til útskýringar. Enda kom í ljós í gær á fundi atvinnuveganefndar, þegar Skatturinn fékk loksins að koma fyrir nefndina, eftir að okkur fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna hafði verið neitað um það frá 13. júní, að hluti þeirra upplýsinga sem leiða út talnalegar forsendur málsins hafði ekki borist nefndinni.
Og hverju skiptir þetta? Jú, veiðigjöld á hvert kíló af þorski eru í dag 29 krónur (28,68 kr.) og áform frumvarpsins gengu út á að þau færu í 47 krónur, sem er 64% hækkun.
Forsendur frumvarpsins, margumrædd tafla 8, leiddu svo fram að mati Skattsins veiðigjald upp á 64,47 krónur á hvert kíló af þorski, það væri 124,8% hækkun á gjaldinu fyrir þorsk.
Eðlilega rak Skattinn í rogastans þegar slík hækkunaráform birtust og höfðu þeir hjá Skattinum samband við atvinnuvegaráðuneytið.
Í framhaldinu komu nýjar tölur úr Austurbæjarskóla … ég meina atvinnuvegaráðuneytinu.
Skemmst er frá því að segja að niðurstaðan er að veiðigjald á hvert kíló af þorski skal fara úr 26,69 krónum árið 2025 í 57,71 krónu á kíló af þorski árið 2026, miðað við forsendur atvinnuvegaráðuneytis. Það er 101% hækkun áður en tekið er tillit til svokallaðs frítekjumarks (sem er reyndar fullkomið rangnefni).
Svo verða stjórnarliðar hvekktir þegar talað er um tvöföldun veiðigjaldsins, sem er reyndar það sem þeir sjálfir töluðu um áður en skattahækkunarlestin fór út af teinunum.
Í öllu falli, þá er loksins komin talnaleg festa fyrir umræðu í þinginu. Niðurstaðan er að stjórnarliðar eru yfir sig hrifnir af þeirri niðurstöðu að krónutölugjaldið fyrir þorskinn hækki bara um 101%, það er auðvitað skárra en sú 125% hækkun sem frumvarpið leiddi út.
Og loksins er hægt að hefja eiginlega umræðu um málið.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júní 2025