Takk fyrir okkur – Áfram Ísland!
Margt áhugavert kom upp úr kjörkössunum um helgina. Vinstrið kom heldur krambúlerað út úr kosningunum. Vinstri grænir og Píratar fara í hvíldarinnlögn. Sósíalistarnir komust ekki inn, en munu að vísu njóta verulegra tekna úr ríkissjóði næstu fjögur árin að óbreyttum lögum. Framsóknarflokkurinn missti 55% stuðningsmanna sinna á milli kosninga og obbann af forystu sinni fyrir borð.
Taparar kosninganna eru vinstrið sem annaðhvort lenti utan þings, þeir hörðustu, eða úti í mýri eins og Framsókn eftir skarpa vinstri beygju.
Af ellefu flokkum sem buðu fram á landsvísu náðu fimm ekki manni inn á þing. Þá eru eftir sex.
Fyrir okkur í Miðflokknum var ánægjulegt að vera sá flokkur sem mest bætti við sig á milli kosninga, en hlutfallsaukningin var 122%. Samfylkingin var þar aðeins á eftir en hún bætti við sig 109% í atkvæðahlutfalli á milli kosninga.
Eftir að hafa verið í tveggja manna þingflokki í þrjú ár verð ég að viðurkenna að ég hlakka til að vera hluti af öflugum átta manna þingflokki Miðflokksins á kjörtímabilinu sem nú er að hefjast. Þar fer fjölbreyttur, reynslumikill hópur sem mun láta að sér kveða, enda munar um Miðflokkinn þegar á reynir.
Það verður áhugavert að sjá hvernig næstu dagar verða gagnvart þreifingum um stjórnarmyndun. Undanfarin misseri hefur verið vont fyrir heilsu stjórnmálaafla að velja til vinstri þegar annað hefur staðið til boða. Þar má nefna Framsóknarflokkinn í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkinn með VG í landsmálunum.
Nú ríður á að forma ríkisstjórn sem einhendir sér í þau verk sem mest brenna á; að ná tökum á ríkisfjármálunum, að framleiða hér meiri raforku, að ná tökum á landamærunum, koma skikki á húsnæðismarkaðinn og lækka skatta.
Það verður ekki gert með því að forma hér stjórn sem á löngum stundum hefur það sem meginmarkmið að skemma mál fyrir samstarfsaðila sínum í ríkisstjórn, eins og við höfum orðið vitni að árum saman. Það þarf stjórn sem gengur í verkin og gerir það sem hún segist ætla að gera.
Framtíðin er björt fyrir Miðflokkinn. Þó að formlegheitin séu ekki í forgrunni, þá var ánægjulegt að fá 25% stuðning í krakka-kosningum RÚV, mestan stuðning allra flokka, þar sem 6.000 börn kusu, og 19% stuðning í atkvæðagreiðslu á meðal 3.500 framhaldsskólanema.
Ég vil þakka öllum sem studdu Miðflokkinn í kosningunum og lofa því að þeir sem það gerðu verða stoltir af því þegar kemur að næstu kosningum til Alþingis.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is