Tæknitröll í heilbrigðiskerfið
Fjárfesting í tækni í heilbrigðiskerfinu leiðir til betri heilsu, aukinnar skilvirkni og sparnaðar, sem skilar sér í lægri kostnaði og betri nýtingu fjármuna. Miðflokkurinn vill sjá að sjúkrahúsin verði efld verulega meðal annars með nútíma tækjabúnaði, ásamt því að standa vörð um aðgengi íbúa landsins að góðri heilbrigðisþjónustu.
Í því samhengi tel ég mikilvægt að efla til dæmis rafræna miðlæga sjúkraskrá til að tryggja samhæfðar upplýsingar á milli stofnana. Það myndi auðvelda sérfræðingum aðgang að mikilvægum upplýsingum um sjúklinga á skilvirkan og öruggan hátt. Tækni gæti svo einnig hjálpað við að safna greina og mæla heilsufarsgögn.
Ég myndi einnig vilja sjá að gervigreind væri notuð í auknum mæli fyrir myndgreiningu, s.s. í röntgenmyndum, segulómun eða öðrum myndgreiningartækjum, og greina sjúkdóma fyrr og með meiri nákvæmni. Þá væri hægt að skipuleggja með auknum hætti viðveru sjúklinga, reikna út meðferðartíma, og bæta samskipti en ég sé líka fyrir mér að hægt væri að meta betur bæði sjúklinga- og starfsánægju, eitthvað sem aðrar þjóðir hafa gert í áratugi.
Það er mikilvægt að minnast þess að því mikilvægari sem heilbrigðisgögnin eru, því mikilvægara er að tryggja öryggi og friðhelgi gagnanna. Fjárfesting í öflugum öryggiskerfum og tækni til að vernda gögn gegn netárásum er grundvallaratriði þegar við ræðum aukna tækni í heilbrigðiskerfinu.
Aukin samvinna milli einkaaðila og opinberra stofnana
Ég vil sjá aukna samvinnu milli einkaaðila, t.d. hugbúnaðarhúsa, sprotafyrirtækja og heilbrigðisstofnana, þannig að nýjar tæknilausnir séu þróaðar og prófaðar á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar, slíkt gæti nýst innanlands sem og utanlands sem nýsköpun. Samvinna getur stuðlað að hraðari innleiðingu nýrrar tækni og aðlögun að breyttum þörfum í heilbrigðiskerfinu.
Í heildina er mikilvægt að nýta tæknina til að bæta aðgengi, árangur og öryggi í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum fleiri frumkvöðla og tæknitröll í heilbrigðiskerfið.
Setjum x við M á kjördag, við viljum efla heilbrigðiskerfið! Áfram Ísland!
Höfundur er tölvunarfræðingur og frambjóðandi fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi.