Slitni Nike skórinn og meðferð valds

Mér var venju fremur mikill vandi á höndum þegar ég settist niður á fimmtudagseftirmiðdegi til að skrifa þennan pistil.

Ég hafði ætlað mér að skrifa um áherslupunkta sem tengjast fjárlagaumræðunni sem nú er í gangi og vandræðagangi ríkisstjórnarinnar vegna hennar.

Ég ætlaði líka að ræða bandormana tvo, sem ramma inn tekjuöflunarhluta ríkisfjármálanna.

Já þau þurftu tvo jafnlanga þetta árið. Skatta- og gjaldasýkin er svo langt gengin. Þetta eru eiginlega orðnir hringormar, svo mikið ætlar vinstri stjórnin að taka til sín af sjálfsaflafé fjölskyldna og fyrirtækja.

En þá mætti Flokkur fólksins og fylgitungl þeirra og rugluðu mig í rýminu.

Týndi Nike skórinn flaut aftur upp, orðinn vel slitinn, eftir að hann fannst í næstu hillu við þá sem leitað var í forðum.

Þegar forsætisráðherra kallaði til forseta Alþingis að stöðva umræðu, sem ég man ekki eftir að hafi gerst á þingferli mínum, blasti við að þráðurinn er stuttur hjá þeim á ráðherrabekknum.

Í umræðunni var rætt um meðferð valds ráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, með áherslu á nýjustu fréttir af stóra skómálinu og voru ákvarðanir og framganga Guðmundar Inga Kristinssonar og Ingu Sæland undir.

Áður en forsætisráðherra hvatti til þessa að umræðan yrði stöðvuð hafði hún sagt: „Ég er hér til að svara fyrirspurnum, hæstv. innviðaráðherra (sem gegnir fyrir GIK) er hér til að svara fyrirspurnum og við getum vel rætt þetta mál…“ og vísaði þar til þess að hún yrði til svara í fyrirspurnatíma sem átti að hefjast í beinu framhaldi.

Í fyrirspurnatíma fá fimm stjórnarandstæðingar hverju sinni að spyrja ráðherrana spjörunum úr.

Þrjár fyrirspurnir vörðuðu ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um að losa sig við skólameistara Borgarholtsskóla og hlutverk svarta Nike skósins í þessu öllu, það er Ingu Sæland formanns Flokks fólksins.

Það er skemmst frá því að segja að þarna, nokkrum mínútum eftir að forsætisráðherra benti þingmönnum sem ræddu málið undir liðnum „fundarstjórn forseta“ á að þeir gætu bara spurt sig í fyrirspurnartímanum sem var að hefjast, gat forsætisráðherra með engu móti svarað neinu efnislega.

Forsætisráðherra staðfesti þó að hún hefði verið upplýst um þetta fyrir fram, jafn undarlegt og það nú er, á sama tíma og Inga Sæland segist ekki hafa verið upplýst.

En það vakti athygli að þegar forsætisráðherra svaraði fyrirspurnum þeirra þriggja þingmanna sem spurðu út í atburðarásina í Borgarholtsskóla, þá sá hún ástæðu til að tilgreina 11 sinnum að ákvörðun menntamálaráðherra, að losa sig við skólameistarann, væri fagleg – þ.e. tekin á faglegum forsendum.

Þegar þú telur þig, sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar, knúinn til að segja 11 sinnum að eitthvað sé faglegt, þá er það sennilega ekki raunin.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember, 2025.