Samhengisleysi skattamálaráðherra

Hún er skyndilega að súrna hratt staðan sem ríkisstjórnin finnur sig í.

Tilboð í gerð Fossvogsbrúar voru 33% yfir kostnaðaráætlun Betri samgangna ohf.

Áhrif veiðigjaldamálsins eru byrjuð að koma fram, með aukinni samþjöppun, uppsögnum og minni fjárfestingu í rannsóknum og þróun, eins og bent var á að raunin yrði.

Flugfélagið PLAY fellur, degi áður en kolefnisskattaskuld upp á vel á annan milljarð var á eindaga.

Á sama tíma berast fréttir af því að atvinnuvegaráðherra, sem fer með ferðamál, hafi ekki séð ástæðu til að mæta á Vestnorden ferðakaupstefnuna, fyrst ferðamálaráðherra á þessari öld.

Og áfram mætti tiltaka dæmin, allt ber þetta að sama brunni.

Ber þá svo við að fjármálaráðherra mætir staffírugur og segir fall flugfélagsins ekki gefa tilefni til að staldra við í fyrirhugaðri skattheimtu á ferðaþjónustuna.

Ég hef stundum velt fyrir mér í hvaða hagfræðimódeli Viðreisn býr. Í öllu falli er ekki tekið tillit til samhengis hlutanna og afleiddra áhrifa ákvarðana.

Við munum öll sönginn um að tvöföldun veiðigjalda ætti ekki að hafa áhrif á sjávarútvegssveitarfélög þar sem þau væru ekki beinn greiðandi þeirra.

Það er álíka vitlaus staðhæfing og að halda því fram að barnabætur hafi ekki áhrif á hag barns, þar sem barnið fái þær ekki greiddar inn á eigin reikning.

En aftur að ferðaþjónustunni.

Flugfélag fellur, gjaldmiðillinn er talinn sterkari en stenst til lengdar (sem er mótdrægt útflutningsatvinnugreinum og þar með ferðaþjónustunni), hækkuð gjöld og skattar sem skellt er á með litlum fyrirvara hafa alvarleg áhrif, bæði á rekstur fyrirtækja og ákvarðanir þeirra sem hingað sækja, má þar nefna aukna gjalttöku skemmtiferðaskip, sem hefur dregið mjög úr bókunum, sérstaklega hjá minni höfnum.

Allt er þetta heldur mótdrægt ferðaþjónustunni nú um stundir. Og hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar? Jú, að það sé engin ástæða til að breyta áformum um enn aukna skattheimtu af greininni.

Það er búið að taka fyrsta snúning á sjávarútveginum, ferðaþjónustan er næst.

Það sem blasir við er að hin aukna skattheimta er markmið í sjálfu sér. Það er í engu tekið tillit til stöðunnar í raunheimum.

Nú ættu stjórnvöld auðvitað að segja: við ætlum að sníða ríkisútgjöldin að raunveruleikanum. Spara, hagræða, reyna að fá meira fyrir minni skattpeninga.

En nei skilaboðin eru að draga enn úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar.

Hvað sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan hefur gert ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur til að verðskulda þessar trakteringar veit ég ekki, en maður spyr sig: hvað næst, þegar búið verður að vinda ferðaþjónustuna?

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 2. október, 2025