Sá á kvölina sem á völina

Nú er liðin rétt vika síðan for­menn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins hófu stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður að lokn­um kosn­ing­um. Vel geng­ur sam­kvæmt þeim viðtöl­um sem fjöl­miðlar hafa tekið, þó að flest þeirra séu að vísu enn sem komið er við Ingu Sæ­land; efn­is­lega seg­ir hún að á milli aðila ríki ofboðslega mikið traust og kær­leik­ur.

Hvaða stefnu­mál­um Flokks fólks­ins kær­leik­ur­inn skil­ar í stjórn­arsátt­mál­ann verður for­vitni­legt að sjá. Verða það fyr­ir­fram­inn­heimt­ir skatt­ar af inn­greiðslum í líf­eyr­is­sjóði? Eða skatt­leysi launa­tekna und­ir 450 þúsund­um? Eða fá ör­yrkj­ar og eldri borg­ar­ar 450 þúsund á mánuði í ráðstöf­un­ar­tekj­ur, skatta- og skerðinga­laust? Nú, eða tekst að út­rýma fá­tækt?

Það væri margra hluta vegna áhuga­vert ef ný­kjörið þing væri nú að störf­um með það verk­efni að klára fjár­lög fyr­ir næsta ár, þá væri komið í ljós hversu vilj­ug­ir sum­ir þeirra sem nú segja sig ridd­ara mála­miðlan­anna eru þegar á reyn­ir. Við hin áhuga­sömu fáum vafa­laust að sjá hversu auðvelt sum­um reyn­ist að kyngja þegar vinna við fjár­lög fyr­ir árið 2026 fer af stað. Við för­um yfir þá brú þegar við kom­um að henni. Og þing­menn­irn­ir horf­ast þá í augu við kjós­end­ur sína.

En það þurfti jú að ryðja úr vegi hindr­un­um sem gerðu fjár­málaráðherra og fv. innviðaráðherra erfitt um vik að taka fyrstu skóflu­stung­una að nýrri Ölfusár­brú, sem að vísu er ekki búið að hanna. Þeim hindr­un­um ruddu þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins úr vegi for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins í ný­samþykkt­um fjár­lög­um. Í því sam­hengi kem­ur upp í hug­ann að sjald­an laun­ar kálf­ur­inn ofeldið.

Fjár­málaráðuneytið birti í gær af­komu­horf­ur sem meðal ann­ars fela í sér mat á ár­inu 2025, þar er af­koma rík­is­sjóðs met­in tölu­vert verri en áður var og gert ráð fyr­ir 50% meiri halla hlut­falls­lega en reiknað var með.

Ef ein­hvern tíma hef­ur verið til­efni til að mynda stjórn um aukna verðmæta­sköp­un er það núna. Þess í stað er hætt við að við fáum hærri skatta og gjöld.

Það má ekki skilja þenn­an pist­il sem svo að ég sé svekkt­ur gagn­vart þeirri stjórn sem nú virðist vera að mynd­ast. Ég hef raun­ar lengi haft lúmskt gam­an af þeirri hug­mynd að flokk­ar leidd­ir af Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni ann­ars veg­ar og Bjarna Bene­dikts­syni hins veg­ar væru sam­an í stjórn­ar­and­stöðu. Síðast þegar sú staða var uppi settu flokk­arn­ir sem þá sátu í stjórn Íslands­met í fylg­istapi.

Það eru miklu frek­ar tæki­fær­in sem nú blasa við sem svekk­ir mig að renni lands­mönn­um mögu­lega úr greip­um. Það er borg­ara­leg sveifla, bæði hér heima og víðast hvar í ná­granna­lönd­un­um, en það er eins og svo oft að sá á kvöl­ina sem á völ­ina.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is