Sá á kvölina sem á völina
Nú er liðin rétt vika síðan formenn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hófu stjórnarmyndunarviðræður að loknum kosningum. Vel gengur samkvæmt þeim viðtölum sem fjölmiðlar hafa tekið, þó að flest þeirra séu að vísu enn sem komið er við Ingu Sæland; efnislega segir hún að á milli aðila ríki ofboðslega mikið traust og kærleikur.
Hvaða stefnumálum Flokks fólksins kærleikurinn skilar í stjórnarsáttmálann verður forvitnilegt að sjá. Verða það fyrirframinnheimtir skattar af inngreiðslum í lífeyrissjóði? Eða skattleysi launatekna undir 450 þúsundum? Eða fá öryrkjar og eldri borgarar 450 þúsund á mánuði í ráðstöfunartekjur, skatta- og skerðingalaust? Nú, eða tekst að útrýma fátækt?
Það væri margra hluta vegna áhugavert ef nýkjörið þing væri nú að störfum með það verkefni að klára fjárlög fyrir næsta ár, þá væri komið í ljós hversu viljugir sumir þeirra sem nú segja sig riddara málamiðlananna eru þegar á reynir. Við hin áhugasömu fáum vafalaust að sjá hversu auðvelt sumum reynist að kyngja þegar vinna við fjárlög fyrir árið 2026 fer af stað. Við förum yfir þá brú þegar við komum að henni. Og þingmennirnir horfast þá í augu við kjósendur sína.
En það þurfti jú að ryðja úr vegi hindrunum sem gerðu fjármálaráðherra og fv. innviðaráðherra erfitt um vik að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri Ölfusárbrú, sem að vísu er ekki búið að hanna. Þeim hindrunum ruddu þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr vegi formanns Framsóknarflokksins í nýsamþykktum fjárlögum. Í því samhengi kemur upp í hugann að sjaldan launar kálfurinn ofeldið.
Fjármálaráðuneytið birti í gær afkomuhorfur sem meðal annars fela í sér mat á árinu 2025, þar er afkoma ríkissjóðs metin töluvert verri en áður var og gert ráð fyrir 50% meiri halla hlutfallslega en reiknað var með.
Ef einhvern tíma hefur verið tilefni til að mynda stjórn um aukna verðmætasköpun er það núna. Þess í stað er hætt við að við fáum hærri skatta og gjöld.
Það má ekki skilja þennan pistil sem svo að ég sé svekktur gagnvart þeirri stjórn sem nú virðist vera að myndast. Ég hef raunar lengi haft lúmskt gaman af þeirri hugmynd að flokkar leiddir af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni annars vegar og Bjarna Benediktssyni hins vegar væru saman í stjórnarandstöðu. Síðast þegar sú staða var uppi settu flokkarnir sem þá sátu í stjórn Íslandsmet í fylgistapi.
Það eru miklu frekar tækifærin sem nú blasa við sem svekkir mig að renni landsmönnum mögulega úr greipum. Það er borgaraleg sveifla, bæði hér heima og víðast hvar í nágrannalöndunum, en það er eins og svo oft að sá á kvölina sem á völina.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is