Litla hryllingsbúðin og bílaskattarnir

Ríkisstjórnin minnir mig nú um stundir á blómið í Litlu hryllingsbúðinni, söngleik sem margir þekkja, en blómið var þeirri ónáttúru gætt að það fékk aldrei nóg, það fékk aldrei nóg af mannablóði.

Ríkisstjórnin virðist vera á sama stað og blómið forðum, nema nú eru það skattar sem ríkissjóður Kristrúnar Frostadóttur, Daða Más og Þorgerðar Katrínar fær ekki nóg af.

Áætlaðar skattahækkanir halla nú í 30 milljarða á næsta ári, þó óvíst sé um heimtur á sumum þeirra, eins og verða vill þegar stjórnvöld fara fram úr sér í skattlagningu.

Þetta er hjá ríkisstjórninni sem ætlaði ekki að hækka skatta á venjulegt fólk. Allir enda þeir nú samt sem kostnaður hjá venjulegu fólki, þó þeir séu sumir lagðir á fyrirtæki.

Bara lítið dæmi er árásin á þá sem þurfa að fara á milli staða. Á akstur og ökutæki.

Áætluð hækkun skatta og gjalda af akstri og ökutækjum er yfirgengileg. 10,8 milljarðar á næsta ári ef bara er horft til hækkunar á áformuðu kílómetragjaldi frá núverandi kerfi upp á 3,3 milljarða og svo endurskoðun skattlagningar á ökutæki og eldsneyti upp á 7,5 milljarða. Ofan á þessar hækkanir bætist svo samtíningur af hækkuðum krónutölugjöldum.

En hvað þýðir þetta í raun? Um 11 milljarða hækkun á sköttum og gjöldum af akstri og ökutækjum samsvarar rúmlega 100 þúsund krónum á ári, á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Munið þið þegar hækkuðu veiðigjöldin áttu að renna til vegabóta á landsbyggðinni? Allt er það nú gleymt og sú leið valin að herða þumalskrúfurnar hjá þeim sem þurf að komast á milli staða.

Misskildasti maður landsins virðist nú um stundir vera fjármálaráðherrann, Daði Már Kristófersson, sem tókst í gær að halda því fram að breyting á kílómetragjaldi, sem nú er rædd í þingsal, ætti ekki að hafa bein áhrif á ferðaþjónustu.

Á sama tíma færir sá sem hvað best þekkir til við rekstur bílaleiga á Íslandi, Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, rök fyrir því að breytingar fjármálaráðherra er varða vörugjöld á bíla og kílómetragjald leggi viðbótarálögur á bílaleigur landsins upp á 7,5 milljarða, á ári!

Gönuhlaupi ríkisstjórnarinnar í þessu efnum er helst hægt að líkja við vanhugsaða ákvörðun fyrri stjórnar þegar gjöld á skemmtiferðaskip voru hækkuð með þeim hætti að stórskaði varð af.

Nú hefur ríkisstjórnin hætt við vanhugsaða breytingu á álagningu erfðafjárskatts og á hún hrós skilið fyrir.

Ef vel á að takast til við þinglok nú í desember, þá held ég að það væri skynsamlegt hjá stjórnarliðum að leyfa kílómetragjaldinu að sofna, eða í öllu falli að fresta gildistöku um ár. Það er þá hægt að nýta árið til  að sníða vankanta af þessari óþörfu breytingu sem nú er lögð til.

Það væri ákveðinn myndugleiki fólginn í því. Við sjáum hvað setur.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember, 2025.