Ísland allt
Við ætlum að hugsa um landið sem eina heild, eitt samfélag. Í því felst að gera þarf heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins og þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir landið. Við ætlum að samstilla ólíkar aðgerðir svo eitt styðji á sem bestan hátt við annað. Samhæfing aðgerða þarf að eiga sér stað frá einum stað. Mikilvægt er að þannig sé á málum haldið og tækifærin nýtt um allt land. Þannig verður komast hjá því að hver vinni í sínu horni án yfirsýnar. Við ætlum að fjárfesta í landinu öllu, snúa vörn í sókn.
Við ætlum að kalla til sveitarfélög, landshlutasamtök, stofnanir, atvinnurekendur, ráðgjafafyrirtæki, fjármálafyrirtæki, verkfræðistofur og menntastofnanir o.fl. Kalla til þá aðila sem tilbúnir verða til þess að fara í þessa heildaráætlun með okkur þannig að í stað tvíverknaðar og samkeppni um fjármagn vinni allir að sama stóra markmiðinu, Ísland allt, en í því felst heildarnálgun og sterk liðsheild.
Við ætlum að treysta samgöngur, tengja byggðalög, setja fram rétt viðbrögð við fjölgun ferðamanna sem meðal annars kallar á aukinn öryggisviðbúnað og innviðauppbyggingu.
Við ætlum að tryggja góð fjarskipti um landið allt, breyta samkeppnislögum svo samnýting og samkeppni fari saman. Eins þarf að samræma skipulagsmál og styðja við menningarstarf og -arf. Samofið þessum áætlunum þarf að styðja við þróun ferðaþjónustu á svokölluðum kaldari svæðum.
Við ætlum að halda áfram áætlun um þróun nýrra fluggátta á landsbyggðinni, og tryggja uppbyggingu innviða í innanlandsflugi þar sem Isavia gegni lykilhlutverki. Við ætlum að beina fjárfestingum með viðeigandi hvötum að efnahagslega kaldari svæðum og létta álagi af þenslusvæðum.
Við ætlum menntastofnunum að verða leiðandi í að nýta nýjustu tækni á sviði menntamála og þróunar náms. Nám framtíðarinnar er án staðsetningar. Rannsóknar- og þróunarsjóðir verði að hluta merktir sókn í ákveðnum landshlutum þannig að tryggt sé að þeir gagnist landinu öllu. Opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins fjölgi, m.a. með flutningi opinberra stofnana, útibúum og bakvinnslu ásamt því að starfsöryggi undirstöðuatvinnugreina verði tryggt og heildarframlag þeirra metið að verðleikum. Störf verði einnig í auknari mæli án staðsetningar í hvikum heimi.
Við ætlum að endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af vinnu á verkstað við byggingu íbúðarhúsnæðis á kaldari svæðum, jafna flutningskostnað ásamt því að tryggja raforkuflutning.
Við ætlum að tryggja heilbrigðisþjónustu um allt land og viljum að ríkinu verði gert að uppfylla tiltekið þjónustustig alls staðar á landinu. Hefja verður byggingu hjúkrunarheimila af fullum krafti til að taka á viðvarandi og fyrirsjáanlegri þörf, en einnig skal gera fólki kleift að búa lengur á heimilum sínum og draga þannig úr þörf fyrir ný hjúkrunarrými.
Við ætlum að styrkja sjúkrahúsið á Akureyri til þess að veita sérfræðiþjónustu sem hefur glatast á mörgum stöðum enda er það annað af tveimur hátæknisjúkrahúsum landsins, það dregur úr álagi og kostnaði, t.d. með minni ferðakostnaði sjúklinga og fjölskyldna þeirra.