STJÓRNMÁLAÁLYKTUN MIÐFLOKKSINS

Samþykkt á fimmta landsþingi Miðflokksins, 12. október 2025

Pólitísk vakning er að verða á Íslandi eins og víða um heim og hér á landi gera æ fleiri sér grein fyrir því að það þurfi alvöru breytingar í stjórnmálum og þær breytingar verði ekki nema með sterkum Miðflokki. Við þorum að tala um hlutina, þegar aðrir þegja.

Í stærstu viðfangsefnum nú þarf að huga að þjóðrækni og heilbrigðri skynsemi. Efla þarf og vernda íslenska þjóð, menningu okkar og landið sem við deilum.

Stjórnmál og ákvarðanataka í stjórnmálum hefur í auknum mæli markast af rétttrúnaði og kreddum sem fara ekki saman við raunveruleikann. Afstaða til atburða, skoðana og gjörða byggist á því hver á í hlut, ekki staðreyndum og innihaldi.

Grundvallarreglur réttarríkisins hafa mátt víkja fyrir hinum nýja rétttrúnaði. Á sama tíma hefur þjóðin, samfélagið og fullveldið átt undir högg að sækja. Sagan og þjóðmenning okkar á ekki að vera afgangsstærð, heldur kjarninn sem samfélagið er byggt á. Við verðum sem þjóð að muna hvaðan við komum.

Miðflokkurinn vill ný útlendingalög sem taka mið af raunveruleikanum og stöðva þegar stjórnleysið á landamærunum og í málaflokknum almennt. Ísland er í betri stöðu til þess en nokkur önnur vestræn þjóð sem eyja í N-Atlantshafi. Flóttamönnum ber að sækja um hæli í fyrsta örugga landinu sem þeir koma til og umsvifalaust ætti að senda þá sem hingað koma til að sækja um hæli aftur til landsins sem þeir komu frá. Enginn sem mætir til landsins til að sækja um hæli fái landvistarleyfi. Sækja þurfi um utan landsins með formlegum og eðlilegum hætti.

Framtíð þjóðarinnar er ekki aðeins háð því að við höfum stjórn á landamærunum. Hún byggist á því hvernig til tekst við að undirbúa æsku landsins undir að taka við landinu. Við þurfum stóraukna áherslu á hefðbundið grunnnám og minna af innrætingu á sviði nýjasta rétttrúnaðarins. Semja þarf nýja aðalnámsskrá frá grunni.  Kenna þarf íslenskum börnum tungumál og sögu eigin lands. Sú uppgjafarnálgun sem nú tíðkast má ekki viðgangast. Það er óforsvaranlegt að ungmenni fari í gegnum grunn- og framhaldsskóla án þess að kynnast bókmenntum eigin þjóðar og sögu landsins.

Heilbrigðiskerfið þarf ekki niðurskurð heldur uppskurð. Annars munu útgjöld til málaflokksins aukast án þess að árangurinn batni. Ísland getur ekki verið sjúkrahús heimsins. Það hljóta allir að sjá og hefur ekkert með mannvonsku eða skort á náungakærleik að gera.

Það er ekki hægt að ná niður verðbólgu án þess að draga úr ríkisútgjöldum, nægt ætti svigrúmið að vera eftir stöðugan útgjaldavöxt liðinna ára. Verðmætasköpun fæst ekki með stöðugum skatta og gjaldahækkunum. Skattar búa ekki til verðmæti, þeir verða bara teknir af þeim verðmætum sem verða til og heildarkakan minnkar, þrátt fyrir áform um annað.

Fremur þarf að hætta strax hallarekstri ríkissjóðs, minnka báknið, fara betur með almannafé, lækka hamlandi skatta og einfalda regluverk. Húsnæðismálin verða ekki leyst nema með því að taka á hringrás vaxta og verðbólgu, óskynsamlegra ákvarðana í skipulagsmálum og stjórnleysis í útlendingamálum.

Það er líka skynsamlegt að láta reyna á nýtingu olíu- og gasauðlinda í íslenskri lögsögu. Ef áætlanir reynast réttar myndi það hafa gífurleg áhrif fyrir íslenskt samfélag, stórauka öryggi og velferð allra og leiða til mikillar atvinnusköpunar ekki hvað síst á Norður- og Austurlandi. Bara leitin myndi strax hafa veruleg jákvæð áhrif.

Miðflokkurinn stendur með íslenskum landbúnaði og bændum landsins. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og mikilvægt að nýr búvörusamningur taki mið af því og svari ákalli bænda um fyrirsjáanlegt rekstraröryggi og bætta afkomu.

Það er skynsamlegt að tryggja eldri borgurum og öðrum sem eiga rétt á lífeyri kjör sem eru sæmandi samheldinni velmegunarþjóð. Sú skynsemi byggist á fleiru en sanngirnissjónarmiðum hún byggist líka á því að sýna fólki að það borgi sig að vinna og spara fremur en að refsa fyrir það.

Miðflokkurinn leggst eindregið gegn lagasetningu um bókun 35. Íslandi er best borgið utan Evrópusambandsins og á ekki að vinna eftir óraunhæfum hugmyndum um forystu í öryggis- og varnarmálum. Ísland verði áfram herlaus friðelskandi þjóð, sem nýtur einstaks tvíhliða varnarsamnings við Bandaríkin, öflugasta herveldi heims, og er þar að auki í Atlantshafsbandalaginu.