Ályktanir Landsþings 28. til 29. október 2023
xM – Frá orðum til athafna
Fjármál og efnahagsmál
- Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum.
- Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín.
- Miðflokkurinn geldur varhug við svokölluðum „grænum sköttum“ sem bitna á fólki og fyrirtækjum og draga úr framtaki og framförum.
Stefnumið:
Miðflokkurinn leggur áherslu á að ríkissjóður sé rekinn án halla og því hafnar flokkurinn hugmyndum um þjóðarsjóð á meðan skuldir ríkissjóðs eru eins háar og nú er. Vænkist hagur ríkissjóðs þá verði sá ávinningur fyrst nýttur til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, sem hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum, áður en stofnun sérstakra varasjóða verður skoðuð. Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs, eins og hann er reiknaður í dag, skal endurmetinn og ekki nýttur til verðtryggingar á húsnæðisskuldbindingum íslenskra heimila.
Stefnt skal að því að lækka skatta en skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD-ríkja þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp.
Aðgerðir:
- Endurskoðun skattkerfisins með það fyrir augum að einfalda það er nauðsynleg og mun það ná fram heilbrigðara jafnvægi hvað útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga varðar.
- Sérstök áhersla á að lækka jaðarskatta, sem eru vinnuletjandi og ósanngjarnir séu þeir háir.
- Áfram verði heimilt að nýta séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán.
Útfærslur:
- Lækka skal tryggingagjald. Tryggingagjald fyrir tíu fyrstu starfsmenn skal lækka sérstaklega. Með því er komið til móts við minni og fámennari fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaði.
- Lækka skal erfðafjárskatt, verði hann ekki afnuminn með öllu. Skatturinn er ósanngjörn tvísköttun.
- Álagning fasteignaskatta þarf að endurskoða. Núverandi fyrirkomulag er tilviljunarkennt og mætir ekki sjónarmiðum um að horft sé til þess að verið sé að greiða raunverð fyrir þjónustu.
Heilbrigðis- og velferðarmál
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunum sjúklinga sé best borgið í blönduðu kerfi undir forsjá hins opinbera. Ekki skal breyta þeirri grundvallarstefnu.
- Miðflokkurinn hafnar tvöföldu heilbrigðiskerfi.
- Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að aldraðir og öryrkjar fái viðeigandi stuðning og þjónustu sem miðar að þörfum hvers og eins.
Stefnumið:
Miðflokkurinn vill setja málefni aldraðra og öryrkja í forgang.
Áhersla skal lögð á endurhæfingu hvers einstaklings sama hvar sem hann kýs að búa, á eigin heimili eða á dvalar- og öldrunarheimilum, forvarnir verði lykilatriði þegar tryggja á aðgengi að innihaldsríku lífi á efri árum.
Leggja skal áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit verði stóraukið, meðal annars með skimun fyrir krabbameinum
Krabbameinsleit sem í boði er hérlendis á að samræmast bestu gagnreyndu læknisfræðiþekkingu.
Horft verði til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í innlendri lagaumgjörð.
Aðgerðir:
- Leiðarljós breytinga verður að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar þar sem þessi mikilvæga heilbrigðisþjónusta krefst vandaðri undirbúnings og eftirfylgni í náinni samvinnu við alla þá sem eiga í hlut.
- Eyða skal biðlistum.
- Mikilvægt er að standa vörð um réttindi íbúa landsins til þess að sækja þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem skimun fyrir krabbameinum er, í heimabyggð.
- Ganga skal til samninga við sérfræðinga.
- Taka þarf frá pláss í skipulagi þannig að ekki verði þrengt að framtíðar uppbyggingarmöguleikum framtíðarsjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu.
- Hafist verði handa við undirbúning að framtíðaruppbyggingu sjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu.
- Sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði efld verulega með nútíma tækjabúnaði, læknum og hjúkrunarfólki ásamt því að standa vörð um aðgengi íbúa landsins að góðri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.
- Snúið verði við þeirri þróun að minnka styrk landsbyggðarsjúkrahúsa og þau verði aftur efld ásamt heilsugæslunni með nútíma tækjabúnaði og mönnun á sérhæfðari þjónustu.
Útfærslur:
- Mikilvægt er að ganga sem fyrst frá sanngjörnum samningum við sérfræðinga utan sjúkrahúsa.
- Staðið vörð um aðgengi allra íbúa landsins að góðri þjónustu í heimabyggð.
- Nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd skimun fyrir krabbameinum í ristli, enda hefur þetta verkefni verið í undirbúningi í um 20 ár.
- Tryggja þarf samfellda þjónustu í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini og tryggja öryggi hennar og gæði.
- Samningar Sjúkratrygginga Íslands við alla þá sem sinna sérfræðiþjónustu þarf því að tryggja, s.s. sérfræðilækna, talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og sálfræðinga.
- Við framtíðaruppbyggingu sjúkrahúss verði horft til Keldnalandsins og Vífilsstaða.
- Hækka þarf bótagreiðslur þeirra sem eru á endurhæfingar- eða örorkulífeyri.
- Grunnbætur öryrkja verði hækkaðar og um leið settir inn hvatar svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist.
- Tryggja þarf möguleika allra til þátttöku á vinnumarkaði í samræmi við getu.
Húsnæðismál og staða á lánamarkaði
- Miðflokkurinn styður séreignarstefnu í húsnæðismálum en leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður þannig að fjölskyldur geti valið sér það búsetuform sem best hentar.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja þessa þörf.
- Miðflokkurinn telur að of mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði hafi leitt til síhækkandi húsnæðisverðs.
- Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auka framboð lóða og auðvelda byggingaframkvæmdir.
Stefnumið:
Það þarf að ráðast í aðgerðir svo allir geti eignast þak yfir höfuðið.
Ástandið nú stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþörfum kröfum hins opinbera sem endurspeglast í óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og óþjálum byggingareglugerðum.
Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda ýti undir framboð hentugra byggingarlóða af hendi sveitarfélaga og vinni gegn þeim alvarlega lóðaskorti sem hér hefur ríkt.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á að ungt fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum, með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs.
Heimatilbúinn vandi stjórnvalda er nú að ýta almenningi til baka í verðtryggð lán, eftir að mikil aukning hefur orðið um árabil á vinsældum óverðtryggðra lána. Stjórnvöld þurfa með ábyrgum aðgerðum að sigla samfélaginu aftur í átt til lágra vaxta og stöðugleika í efnahagslífinu.
Aðgerðir:
- Einföldun regluverks, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og einfaldara og skilvirkara leyfisveitingakerfi er frumforsenda fyrir því að árangur náist hvað varðar framboð á hagkvæmu húsnæði.
- Há verðbólga og háir vextir eru helsta vandamál þeirra sem hafa nýlega fest kaup á fasteign eða stækkað við sig. Ábyrgðarleysi stjórnlausra ríkisútgjalda hefur, með öðru, kallað fram hærri stýrivexti Seðlabanka Íslands en annars hefði verið þörf á.
- Til skemmri tíma þarf að ná utan um þá hópa sem standa höllum fæti vegna þróunar vaxta og verðbólgu undanfarin misseri, meðal annars með því að tryggja að heimili ráði við afborganir.
- Skoðað verði að auka heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til greiðslu inn á lán, hagkvæm breyting á lánaformum, samstarf banka og stjórnvalda hvað lausnir varðar og það sem skiptir mestu máli, að ná niður verðbólguvæntingum.
Útfærslur:
- Til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingakostnaður er hærri en markaðsverð skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%.
- Almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði 60%.
- Breytt útfærsla hlutdeildarlána kemur til greina í til að tryggja fólki innkomu inn á húsnæðismarkaðinn.
- Samstarf ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til að ýta undir framleiðslu íbúða, bæði hvað varðar framboð lóða og tímasetningu kostnaðar vegna grunninnviða tengdum nýbyggingum. Hár fjármögnunarkostnaður og mikill upphafskostnaður vegna lóða- og gatnagerðargjalda er verktökum fjötur um fót þegar kemur að því að halda samfellu í verkefnum sínum, sem dregur úr hagkvæmni.
- Á höfuðborgarsvæðinu er nærtækt að nefnda hið mikla byggingarland sem mun opnast með lagningu Sundabrautar.
- Útvíkka þarf vaxtamörk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
- Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð gagnvart viðskiptum einstaklinga og lækkuðu um helming hvað lögaðila varðar.
Sjávarútvegsmál / Sjávarútvegsstefna
- Miðflokkurinn styður beitingu aflamarkskerfis við stjórn fiskveiða á Íslandi með sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og stöðugleika að leiðarljósi.
- Miðflokkurinn telur mikilvægt að kveðið sé á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá, þar með talið sjávarauðlindinni.
Stefnumið:
Miðflokkurinn vill að komið sé í veg fyrir fákeppni í sjávarútvegi með lögum. Litið verði þar til hámarksaflahlutdeildar einstakra útgerða og tengdra aðila í því samhengi.
Miðflokkurinn vill að veiðigjöld séu gagnsæ, einföld og að við útreikning þeirra sé gætt jafnræðis.
Aðgerðir:
- Miðflokkurinn vill efla hafrannsóknir við Ísland og telur að aukin þekking á stærð fiskistofna, ástandi sjávar og lífríkis muni hámarka mögulega nýtingu fiskistofna. Þannig nyti þjóðarbúið aukinna tekna af sjálfbærri nýtingu fiskistofna í gegnum veiðigjaldið.
- Sjálfstæðum rannsakendum öðrum en Hafrannsóknastofnun verði auðveldað að framkvæma sínar rannsóknir, byggðar á gögnum Hafrannsóknastofnunar.
- Miðflokkurinn telur að tryggja megi betur öryggi sjófarenda.
- Miðflokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Mikilvægt er að regluverk vaxandi atvinnugreinar taki mið af aðstæðum og tryggi að umhverfið beri ekki skaða af.
Útfærslur:
- Miðflokkurinn vill að þjónustuhöfnum fiskeldisfyrirtækja verði tryggðar tekjur í samræmi við umsvif fyrirtækjanna og að nærsamfélagið njóti góðs af.
- Miðflokkurinn áréttar mikilvægi strandveiða fyrir byggðir landsins og að kerfið sé í stöðugri endurskoðun meðal annars til að tryggja sanngirni milli svæða.
- Auka þarf viðveru björgunarþyrla víðar um landið til að tryggja öryggi sjófarenda.
- Miðflokkurinn styður áframhaldandi hvalveiðar byggðar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
Landbúnaður og matvælaframleiðsla
- Miðflokkurinn vill standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu og bregðast þegar í stað við þeim ógnunum sem steðja að greininni.
- Miðflokkurinn telur rétt að stofnað verði nýtt ráðuneyti utan um málaflokkinn.
Stefnumið:
Miðflokkurinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og þau stóru tækifæri þjóðarinnar til framtíðar sem felast í heilnæmi matvæla, fæðuöryggi og vaxandi möguleikum til nýtingar vistvænnar orku til matvælaframleiðslu. Skapa þarf möguleika á stóraukinni ræktun grænmetis sem byggir á hagkvæmri orku og hreinleika íslenskrar náttúru.
Núgildandi tollasamningar hafa skapað mikið ójafnvægi á markaði þar sem innlend framleiðsla þarf að keppa við innflutning á vörum sem ekki eru gerðar sömu kröfur til. Vörur sem framleiddar eru í löndum þar sem verðlag er annað, laun lægri, notkun vaxtarhvetjandi hormóna og sýklalyfja er til staðar í miklum mæli og allt aðrar og minni kröfur gerðar um dýravelferð.
Verulegt ójafnvægi ríkir í tollasamningum Íslands. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta.
Mikilvægt er að endurskoða samninginn, forsendur hafi breyst og ójafnvægi ríki á milli samningsaðila.
Aðgerðir:
- Grípa þarf strax til aðgerða til að leiðrétta og tryggja rekstrarumhverfi bænda og matvælaframleiðenda.
- Auka þarf þegar í stað tollvernd innlendrar framleiðslu með uppsögn og endurskoðun tollasamninga.
- Koma þarf í veg fyrir óheftan innflutning á ófrosnu kjöti sem er um leið afar mikilvægt lýðheilsumál fyrir þjóðina.
- Tryggja þarf að tilgangur og markmið með setningu búvörulaganna haldi þannig að bændur geti með hagkvæmum hætti unnið og afsett sínar vörur.
- Stutt verði við nýsköpun, uppbyggingu og markaðsstarf sem mætir þörfum samtímans.
Útfærslur:
- Hefja þarf þegar í stað undirbúning að endurskoðun búvörusamninga sem hafi það að markmiði að tryggja hag bænda, hagsmuni neytenda og öryggi og stöðugleika innlendrar matvælaframleiðslu til langrar framtíðar.
- Stuðningur við landbúnað verði aukinn í takt við aukna framleiðslu og fyrirkomulag hans einfaldað.
- Stutt verði við nýliðun í greininni svo sem með sérstökum lánaflokkum hjá Byggðastofnun og skattaívilnunum við flutning bújarða milli kynslóða.
- Tryggja þarf að eftirlit með landbúnaðarstarfsemi og matvælaframleiðslu sé samræmt á landsvísu og að eftirlitskostnaður sé ekki íþyngjandi.
- Þjónusta dýralækna sé tryggð.
- Tryggja þarf með lagasetningu að afurðastöðvar í kjötgeiranum geti tekið upp samvinnu í meiri mæli og/eða sameinast til að ná fram hagræðingu líkt og gilt hefur um árabil fyrir mjólkuriðnaðinn.
- Koma þarf á betra eftirliti með innflutningi og að settar verði skýrar kröfur um upprunamerkingu matvæla þar sem fram komi einnig upplýsingar um notkun hormóna og sýklalyfja við framleiðsluna.
- Um leið þarf að koma í veg fyrir að hingað til lands séu fluttar kjötvörur frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun er útbreidd.
Umhverfis – og loftslagsmál
- Miðflokkurinn hafnar öllu ofstæki og hræðsluáróðri í tengslum við umræðu um loftslagsmál.
- Miðflokkurinn vill nálgast loftslagsmál eins og önnur, með skynsemina að vopni og leggja til lausnir sem stuðla að bættu umhverfi fólks og fyrirtækja án íþyngjandi gjalda.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á hreint og heilbrigt umhverfi sem er forsenda fyrir matvælaframleiðslu í landinu.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á umhverfisvæna orkunýtingu sorps
Stefnumið
Miðflokkurinn vill endurskoða aðild Íslands að samfloti með Evrópusambandinu í tengslum við loftslagsmarkmið.
Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti.
Aðgerðir:
- Skoða þarf aðkomu Íslands að ETS-losunarkerfinu sem er landinu mótdrægt, enda ekki tekið tillit til stöðu landsins sem eyju sem er algjörlega háð flug- og skipaflutningum.
- Skoða þarf og bregðast við því hvernig núverandi fyrirkomulag bitnar á Íslandi þar sem vöruverð mun hækka og ferðakostnaður landsmanna sömuleiðis.
- Hreinsun og meðhöndlun úrgangs og skólps verði sett í forgang enda mikilvægt upp á stöðu Íslands sem matvælaframleiðsluland.
- Kanna þarf þegar í stað hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð eða stöðvar sem meðhöndli það sorp sem nú fer til urðunar eða er flutt úr landi en slíkum brennslustöðvum fylgja fjölmargir kostir.
Útfærslur:
- Með því að brenna sorpi í hátæknibrennslustöðvum er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Þá skila nýjustu hátæknisorpbrennslustöðvarnar tiltölulega lítilli loftmengun, langt innan þeirra marka sem leyfileg eru.
- Aðgerðin á að tryggja að minna land fari til spillis og grunnvatn mengist síður.
Meðferðar- og fíknimál
- Miðflokkurinn vill að viðeigandi forvarnir og meðferðarúrræði séu tiltæk á öllum stigum fyrir alla aldurshópa.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að viðeigandi eftirmeðferð og meðferðarúrræði skuli einnig vera tiltæk.
Stefnumið:
Einstaklingum sem hljóta refsivistardóma vegna afbrota sem sannarlega eru neyslutengd skal bjóðast lokað meðferðarúrræði í stað refsivistar.
Aðgerðir:
- Einstaklingur sem lokið hefur meðferð og er reiðubúinn til að hefja nýtt líf skal eiga rétt á stuðningi og eftirmeðferð.
Útfærslur:
- Að sakavottorð verði hreinsuð af brotum sem tengjast neyslu.
- Að opinberar sektir verði felldar niður skilorðsbundið.
- Ráðgjöf og viðeigandi stuðning til allt að fimm ára að lokinni meðferð.
Gæsla landamæra og málefni hælisleitenda og flóttamanna
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að litið sé til reynslu Norðurlandanna varðandi málefni hælisleitenda.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að styðja fólk á heimaslóð þar sem fé nýtist sem best og taka við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á eflingu löggæslu og landamæravörslu.
Stefnumið:
Hælisumsóknum fjölgar hratt á Íslandi á meðan þeim fækkar í nágrannalöndum. Þessa þróun verður að stöðva.
Aukning skipulagðra glæpa og vísbendingar um aukna starfsemi erlendra afbrotahópa hérlendis kalla á öflug viðbrögð í löggæslu.
Aðgerðir:
- Útgjöld ríkissjóðs til málefna hælisleitenda og flóttamanna verði hamin og skilvirkni í málsmeðferð aukin.
Útfærslur:
- Leggja skal áherslu á að Dublinar-samkomulagið verði virt og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar eru aðilar að.
- Stórefla þarf því lögregluna í landinu og bregðast við bráðavanda með auknu fjármagni til að takast á við þessa ógn og vegna fjölmargra nýrra áskorana.
- Efla þarf landamæraeftirlit, meðal annars þarf að skýra ábyrgð þeirra sem flytja fólk til landsins.
- Nauðsynlegt er að taka Schengen-samkomulagið til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi reynslunnar.
Málefni aldraðra – Frá starfslokum til æviloka
- Miðflokkurinn vill standa við gefin fyrirheit til eldri borgara um bætt kjör.
- Miðflokkurinn vill að ráðist verði þegar í stað í löngu tímabærar endurbætur á málefnum eldri borgara.
Stefnumið
Leggja þarf áherslu á heildstæða stefnu í málefnum aldraðra sem tekur tillit til mismunandi aldursskeiða, mismunandi aðstæðna, fjárhagslegra og heilsufarslegra.
Koma þarf í veg fyrir að atvinnutekjur rýri lífeyristekjur. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það hefur áhuga á og heilsu til. Lykilatriði í lífi allra er félagsleg virkni og hreyfing, það á einnig við um þá sem eldri eru.
Mismunur á lífeyrisréttindum þeirra sem eru í „opinbera kerfinu“ og þeirra sem greitt hafa í hið ,,almenna“ er sláandi. Niðurstöður nefndar sem skilaði af sér árið 2016 hnigu í þá átt að jafna þennan mun með því að skilgreina bætur Tryggingastofnunar sem öryggisnet þeirra sem njóta ekki neinna greiðslna úr lífeyrissjóðum.
Vitað er að góð heilsa er forsenda fyrir virkni aldraðra á vinnumarkaði og í samfélaginu, því er mikilvægt að vinna gegn aldursmismunun í atvinnulífinu.
Aðgerðir:
- Einfalda þarf hið félagslega kerfi svo það nýtist sem best öllum þeim sem á þurfa að halda.
- Áhersla skal vera á að sérstök lagaumgjörð verði um málefni aldraðra.
- Ráðast þarf í uppstokkun Tryggingastofnunar.
- Samhæfa þarf vinnubrögð allra þeirra sem sinna öldruðum, ríkisvalds, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Þannig sé tryggt að þjónustukeðjan rofni ekki heldur fylgi þörfum hvers og eins ævina út.
- Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um leið og tryggt er að önnur búseta sé í boði.
Útfærslur:
- Auka þarf heimaþjónustu aldraðra og tvinna hana saman við önnur virkniúrræði, mikilvægt er hverjum og einum að eiga heimili í tryggu umhverfi óháð því hvort um er að ræða búsetu í eigin húsnæði og/eða leiguhúsnæði til hjúkrunarheimila.
- Koma þarf í veg fyrir hvers konar einangrun með tryggri sálgæslu og að ávallt séu úrræði til staðar sem taka mið að aðstæðum aldraðra á hverju aldursbili.
- Þjónustukeðjan verði skilgreind og gagnsæ og gengið verði út frá því að þeir sem starfa vilja fram yfir sjötugt fái tækifæri til þess.
- Eftir starfslok verði unnið með virkni, lífsleikni, félagslegar athafnir, forvarnir, heilsuvernd og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
- Heimaþjónusta verði stórefld og fleiri og fjölbreyttari búsetuúrræði verði í boði.
- Millistig milli einkaheimilis og hjúkrunarheimilis verði endurskilgreind og í boði eftir þörfum.
- Stóruppbyggingu þarf á því sviði hjúkrunarheimila.
- Það þarf nýja heildarlöggjöf um málefni aldraðra og uppstokkun Tryggingastofnunar.
- Skerðingar og afar óréttlát skattheimta verði afnumin ásamt því að aðskilja beri alveg málefni eldri borgara og öryrkja í orði og æði enda alls óskyldir hópar.
- Auka þarf möguleika á sí- og endurmenntun í samræmi við þá hugsun að menntun sé ævilangt verkefni.
Atvinnustefna
- Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi
Stefnumið:
Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi og útflutning hátæknivara.
Aðgerðir:
- Mikilvægt er að stjórnvöld sinni því hlutverki sínu að tryggja fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi, þannig að verðmætasköpun í samfélaginu geti aukist jafnt og þétt.
Útfærslur:
- Miðflokkurinn styður aukið framlag í Tækniþróunarsjóð.
Atvinnustefna – ferðaþjónusta
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar þróist með farsælum hætti fyrir atvinnugreinina um leið og horft er til hagsmuna umhverfisins.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á aukna uppbyggingu innviða samhliða réttlátri gjaldtöku.
Stefnumið:
Leggja þarf áherslu á að alþjóðaflugvellir á landsbyggðinni séu í stöðu til að sinna þjónustu við alþjóðaflug um leið og þeir geta sinnt varaflugvallahlutverki sínu með tryggari hætti en nú er.
Aðgerðir:
- Mikilvægt er að miða stuðningsaðgerðir að því að jafna dreifingu ferðamanna, sem ýtir undir jafnari nýtingu innviða landsins.
Eignarhald á landi og bújörðum
- Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að koma þegar í stað í veg fyrir stórtæk uppkaup auðmanna, innlendra sem erlendra, á jörðum í landinu.
Stefnumið:
Veruleg bót var gerð með lögum sem sett voru á Alþingi á síðasta ári, en það dugar þó ekki til að taka á vandanum sem þegar er verulegur og getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir búsetu á ákveðnum svæðum.
Aðgerðir:
- Til greina kemur að setja skilyrði um búsetu og fjölda jarða/lögbýla í eigu sama eða tengdra aðila.
Útfærslur:
- Þannig þarf að skoða betur þau stærðarmörk sem eru í núverandi lögum, en samkvæmt þeim er einstaklingi heimilt að eiga allt að 10.000 hektara lands, sem getur samsvarað um 50 góðum bújörðum miðað við meðalstærð bújarða á góðum landbúnaðarsvæðum.
Menntamál
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenska sé í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og að samfélagið taki saman höndum um eflingu íslensku meðal fólks í framlínustörfum.
- Standa þarf vörð um tjáningarfrelsið sem er hornsteinn lýðræðisins.
Aðgerðir:
- Íslenskukennsla barna og unglinga verði efld.
- Umfang RÚV á auglýsingamarkaði verði takmarkað.
Menntamál – skólarnir
- Miðflokkurinn telur að tryggja þurfi að allir í skólakerfinu líti á skólastarf sem grundvöll gæðamenntunar fyrir alla nemendur.
Stefnumið:
Áhersla skal lögð á að nauðsynleg stoðþjónusta verði aðgengileg bæði kennurum, foreldrum og nemendum. Styrkja þarf samvinnu milli allra skólastiga.
Aðgerðir:
- Styrkja þarf stöðu allra einstaklinga í skólaumhverfinu, svo að sérstaða hvers og eins fái notið sín.
- Sérstaklega þarf að horfa til stöðu drengja í skólakerfinu.
Útfærslur:
- Stórefla ber verknám.
- Skólum ber að tryggja öllum nemendum félagslegt, andlegt og líkamlegt öryggi á skólatíma.
- Tryggja þarf öguð vinnubrögð í skólastarfi.
Menntamál – Íþróttastefna
- Miðflokkurinn vill að öllum sé gert kleift að stunda íþróttir óháð efnahag.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög styðji vel við skipulagða starfsemi íþróttahreyfingarinnar svo hún geti betur gegnt sínu mikilvæga samfélagslega hlutverki.
Stefnumið:
Heilsueflandi forvarnir í samstarfi við íþróttahreyfinguna.
Aðgerðir:
- Ráðist verði í uppbyggingu þjóðarleikvangs og þjóðarhallar sem byggist á sjálfbærum rekstri.
- Settur verði á stofn sérstakur ferðasjóður unglingalandsliða til að styðja við keppnisferðir unglingalandsliða okkar og íþróttahópa svo Íslendingar eigi afreksíþróttafólk og landslið í fremstu röð.
- Ráðist verði í beinan fjárhagslegan stuðning við afreksíþróttafólk með stofnun á Launasjóði afreksíþróttamanna.
Útfærslur:
- Ferðasjóður íþróttahreyfingarinnar verði efldur.
- Íþróttafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja.
- Miðflokkurinn hvetur íþróttafélög til að stofna deildir um rafíþróttir og rafleiki með tilheyrandi líkamsþjálfun iðkenda og almennu félagsstarfi.
Orkumál
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að rjúfa kyrrstöðu í orkuvinnslu og koma í veg fyrir yfirvofandi orkuskort.
- Miðflokkurinn telur að breytingar þurfi að gera á regluverki orkuframleiðslu þannig að orkukostir sem hafa verið samþykktir í nýtingarflokki rammaáætlunar komist til framkvæmda.
Stefnumið:
Vinna þarf gegn yfirvofandi orkuskorti sem er heimatilbúið vandamál sem skrifast á andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeirri stöðu sem birtist okkur nú.
Evrópusambandið hefur þegar kynnt fjórða orkupakkann til leiks og sá fimmti er einnig á teikniborðinu. Verði þeir samþykktir er ekki aftur snúið og því mikilvægt að taka málið föstum tökum.
Aðgerðir:
- Tryggja þarf með óyggjandi hætti að nýtingarréttur og umráðaréttur yfir orkuauðlindunum verði hjá þjóðinni til allrar framtíðar.
- Um leið þarf að tryggja að þjóðin geti áfram átt Landsvirkjun sem og þannig nýtt arðinn af nýtingu auðlindanna til samfélagslegra verkefna og um leið haft ákvörðunarrétt um verðlagningu á raforku bæði til heimila og fyrirtækja.
Útfærslur:
- Óska þarf endurskoðunar á þegar gerðum samningum sem tengjast orkustefnu Evrópusambandsins og tryggja að ekki verði gengið lengra á þeirri braut að afsala valdi til erlendra stofnana.
- Óska þarf þegar í stað eftir endurskoðun á þegar gerðum samningum, þar með talið orkupakka þrjú.
Samgöngumál – Sundabraut og Borgarlína
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að öllum hindrunum fyrir lagningu Sundabrautar verði rutt úr vegi með það fyrir augum að umferð verði komin á nýja Sundabraut; frá Sæbraut og upp á Kjalarnes innan sex ára. Vilji er allt sem þarf.
- Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um Borgarlínu eins og þær liggja fyrir.
Stefnumið:
Það er óumdeilt að Sundabraut verður mikil samgöngubót fyrir stóran hluta landsins. Hún léttir á umferð í gegnum Mosfellsbæ, styttir vegalengdir landsmanna inn í höfuðborgina, skapar gott byggingarland meðfram allri leiðinni, meðal annars mörg hundruð hektara í Geldinganesi og dregur úr umferð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þá skiptir ekki síður máli að tryggja örugga flóttaleið frá höfuðborgarsvæðinu.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði bættar, en það verður að gerast með skynsamlegum hætti, bæði hvað varðar fjárhagslega þætti, sem og skipulagslega.
Ekki má þrengja að einkabílnum meira en orðið hefur.
Aðgerðir:
- Koma þarf Sundabrautinni á framkvæmdastig.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að horft sé heildstætt, með raunsæjum augum, á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
- Leitast þarf við að nýta fjármuni með skynsamlegum hætti.
Útfærslur:
- Horfa verður til lausna sem bæta flæði umferðar, bæði með framkvæmdum á stofnbrautakerfinu og bættri ljósastýringu.
- Almenningssamgöngur þarf að bæta.
- Áfram verður að núverandi kerfi almenningssamgangna.
- Meðal annars þarf að skoða með hvaða hætti gjaldtöku verður best fyrir komið til að ýta undir notkun.
Byggðastefna – Ísland allt
- Miðflokkurinn mun áfram fylgja fast eftir stefnunni sem fyrst var kynnt fyrir kosningar 2017 undir nafninu „Ísland allt“.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á heildstæða stefnu á öllum sviðum samfélagsins með það að markmiði að nýta kosti landsins alls og renna traustum stoðum undir byggðirnar hringinn í kringum landið. Þar skipta m.a. samgöngumálin gríðarlega miklu máli eins og vegir, brýr, jarðgöng, hafnir og flugvellir auk fjarskipta
Stefnumið:
Tímabært er að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öllum nauðsynlegum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls.
Lausnir sem miða að því að jafna aðstöðumun fólks verða að vera í stöðugri endurskoðun, hvatar þurfa að vera jákvæðir og útfærslur þannig að lausnirnar séu aðgengilegar og einfaldar.
Aðgerðir:
- Áfram skal standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og þrýsta á nauðsynlegar úrbætur sem og aðra flugvelli landsins og tryggja greiðar flugsamgöngur landsmanna.
- Flug verði skilgreint sem almenningssamgöngur.
- Standa þarf vörð um skipulagsvald sveitarfélaga og landbúnaðarland. Varað er við þeirri þróun að landskipulag taki fram fyrir hendur sveitarfélaganna í skipulagsmálum.
Útfærslur:
- Stórátak í uppbyggingu samgönguinnviða en betri vegir, öruggir flugvellir og öflugar hafnir eru forsenda þess að verðmætasköpun geti aukist.
- Efla heilbrigðisþjónustu og sjúkrahús á landsbyggðinni.
- Íslenska sé í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og samfélagið taki saman höndum um eflingu íslensku meðal fólks í framlínustörfum.
- Standa þarf vörð um tjáningarfrelsið sem er hornsteinn lýðræðisins.