Hinn opinberi sannleikur og karlar sem fæða börn

Ef þessu er leyft að viðgang­ast get­ur al­menn­ing­ur ekki dregið aðrar álykt­an­ir en að hat­ursorðræða sé ekk­ert annað en bara orðræða sem stjórn­völd hata.

„Alþingi held­ur að karl­menn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barna­sátt­mála SÞ og í bága við úr­sk­urð Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líf­fræðileg­an upp­runa sinn. Mann­eskj­ur sem fæða börn kall­ast kon­ur. Kon­ur sem fæða börn eru alltaf líf­fræðileg­ar mæður barna sinna. Al­veg óháð hvað van­stillt Alþingi seg­ir.“

Þetta skrifaði maður á Face­book þann 3. apríl 2024. Hann hef­ur í ljósi um­mæl­anna verið kærður til lög­reglu fyr­ir hat­ursorðræðu.

Þótt sann­ar­lega sé til fólk sem er ósam­mála og aðhyll­ist það sjón­ar­mið að karl­menn geti fætt börn er þess­um frjáls­borna manni þó heim­ilt að hafna full­yrðing­unni og lýsa sinni eig­in skoðun. Í því felst tæp­lega refsi­verð hat­ursorðræða held­ur virðist tján­ing­in öllu held­ur var­in af stjórn­ar­skrá. Það sama gild­ir um laga­leg­ar út­legg­ing­ar manns­ins og þá skoðun hans að Alþingi sé „van­stillt“.

Þrátt fyr­ir það sæt­ir maður­inn nú saka­mál­a­rann­sókn, var boðaður í skýrslu­töku til lög­reglu og nú er svo komið að kær­an er orðin að alþjóðlegu fjöl­miðlamáli, sem fjall­ar um tján­ing­ar­frelsi á Íslandi.

Þar skipt­ir máli að sá sem legg­ur fram kær­una eru Sam­tök­in ’78, sem njóta veru­legs fjár­stuðnings rík­is­valds­ins í sam­ræmi við ákvörðun frá­far­andi rík­is­stjórn­ar­flokka. Á sama tíma var maður­inn, þegar kær­an var lögð fram, sjálf­ur kom­inn á gild­an fram­boðslista til Alþing­is.

Glöggt er gests augað. Vita­skuld er það frétt­næmt þegar sam­tök, sem Alþingi fjár­magn­ar, ein­setja sér að sækja fram­bjóðanda til saka sem gagn­rýn­ir hug­mynda­fræði sam­tak­anna og gagn­rýn­ir þingið um leið. Að sönnu eru einnig til­tek­in í kær­unni önn­ur um­mæli manns­ins sem lýsa heift og fyr­ir­litn­ingu og eru alls ekki við hæfi í siðgæddri umræðu. En sam­tök sem njóta eins ríks fjár­stuðnings frá rík­is­vald­inu verða að gæta sér­stak­lega að ábyrgð sinni og blanda ekki sam­an lög­mæt­um viðhorf­um og meintri hat­ursorðræðu. Þar eru stjórn­völd kom­in ískyggi­lega ná­lægt bein­um til­raun­um til að refsa borg­ur­um fyr­ir tján­ingu. Ef því er leyft að viðgang­ast get­ur al­menn­ing­ur ekki dregið aðrar álykt­an­ir en að hin marg­um­talaða hat­ursorðræða sé ekk­ert annað en bara orðræða sem stjórn­völd hata.

Ef fé­laga­sam­tök, sem reiða sig al­farið á rík­is­valdið og eru þar með í viss­um skiln­ingi orðin hluti þess, ger­ast stór­tæk í rit­skoðun á sam­fé­lags­miðlum erum við kom­in á hálar slóðir. Sama hvort mönn­um lík­ar það bet­ur eða verr hef­ur fólk rétt til þess að tjá sig um grund­vall­arþætti í heims­mynd sinni, eins og að karl­ar geti ekki fætt börn. Þar á fólk ekki að venj­ast því að hinn eða þessi arm­ur rík­is­valds­ins sigi á það lög­reglu fyr­ir skoðun, sem hef­ur vel að merkja ekki verið um­deild þar til á allra síðustu árum.

Tján­ing­ar­frelsi er meg­inþátt­ur í frjálsu sam­fé­lagi en nú­tím­inn hef­ur út­vegað nýj­ar og ísmeygi­leg­ar leiðir til að grafa und­an því. Í því ljósi þarf greini­lega að árétta að sann­leik­ur­inn verður ekki til hjá rík­is­vald­inu og það er ekki hlut­verk þess að fram­fylgja hon­um. Það er síðan ann­ar mis­skiln­ing­ur að stuðlað verði að fé­lags­leg­um fram­förum með því að neyða fólk með lög­reglu­valdi til að samþykkja hug­mynd­ir sem mis­bjóða skyn­semi þess og lífs­sýn. Slíkt kerfi hef­ur aldrei gefið góða raun.

Höf­und­ur er þingmaður Miðflokks­ins.