
Helmingurinn búinn og áskoranir framundan
Með fyrirvara um að Guð lofi, hefur stefnt um nokkra hríð í að ég verði fimmtugur í dag. Það er að hafast.
Þegar ég horfi yfir öxl hafa áratugirnir heilt yfir verið heilladrjúgir og gæfuríkir. Auðvitað með lægðum og hæðum eins og hjá öllum. Annars væri ekki gaman að þessu.
Ég skellti mér í heilsufarsmælingu hjá Lukku og hennar fólki í Greenfit nýlega. Ég er í fínu standi á nokkra mælikvarða, en það er sannarlega svigrúm til bóta á mörgum öðrum.
Ég nefni þetta fyrirtæki í samhengi við þær áskoranir sem við stöndum frami fyrir á næstu áratugum.
Öldrun þjóðar. Betri lyf, sem kosta. Færri verða starfandi á vinnumarkaði fyrir hvern þann sem sestur er í helgan stein eða nýtur bóta vegna heilsubrests og áfram mætti telja.
Allt mun þetta setja aukinn þrýsting á samfélagsgerðina. Þess vegna þurfum við að horfa meira til forvarna og fyrirbyggjandi nálgunar um leið og við nýtum auðlyndir okkar til hagsbóta fyrir samfélagið, þannig að við getum staðið undir þeim byrðum sem eru handan við hornið.
Hluti af lausninni, hvað öldrun þjóðarinnar og kostnað við heilbrigðiskerfið varðar, hlýtur að vera nýsköpun. Nýsköpun sem dregur úr kostnaði, bætir þjónustu eða eykur virkni þeirra sem eldast.
Staðreyndin er því miður sú að í engum geira nýsköpunar upplifa fyrirtæki sig jafn hornreka og í þróun heilbrigðislausna. Hvað veldur er ekki ljóst. Að hluta til eru það vafalaust pólitískar kreddur. Virðing fyrir skattfé er það örugglega ekki og sennilega ekki heldur virðing fyrir hagsmunum og heilsu þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.
Kröfur samfélagsins aukast og fótfestulausir stjórnmálamenn hleypa linnulaust í gegn íþyngjandi regluverki sem gerir fólki og fyrirtækjum erfiðara um vik í daglegu lífi.
Sem dæmi má nefna að þegar EES samningurinn var samþykktur á Alþingi, í janúar 1993, þá var ég 17 ára og nýkominn með bílpróf, var hann rúmar 3 þúsund blaðsíður með öllu. Nú er hann sennilega orðinn fimmtánfaldur að umfangi.
Rétt eins og ég þarf sjálfur að taka mér tak hvað heilsufar mitt varðar. Þá blasir við nauðsyn þess að við sem þjóð förum að sníða okkur stakk eftir vexti. Hafna því að regluverk sem á ekki við hér á landi, eða er beinlínis mótdrægt íslenskum hagsmunum sé innleitt, lítt skoðað, af færibandinu frá Brussel.
Við þurfum að fara í hressilega tiltekt á útgjaldahlið ríkissjóðs, þar sem óþarfi er skorinn burt. Nauðsynleg verkefni þarf að kryfja með það í huga að fá meira fyrir minni skattpeninga. Fara betur með.
Það á nefnilega það sama við um ríkisreksturinn og líkamann. Ef agaleysið er algert safnast aukakílóin upp rétt eins og ríkisskuldirnar vaxa, það er ekki sjálfbært til lengdar.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 25. september, 2025.



