Gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir
Una María Óskarsdóttir skrifar:
Frá örófi alda hefur það verið ein grunnforsenda betra lífs að búa við gott heilbrigði. Það vilja án efa allir búa við góða heilsu, en hvað er góð heilsa? Segja mætti að góð heilsa geti falið það í sér að hægt sé að horfast í augu við líkamlegar, andlegar og félagslegar áskoranir á jákvæðan hátt þrátt fyrir sjúkdóma eða hamlanir. Þetta þýðir að sá sem haldinn er sjúkdómi eða örorku þarf ekki endilega að búa við slæma heilsu, sé hann í góðri umsjón heilbrigðisstarfsfólks og njóti viðeigandi meðferðar. Til þess að fólk geti búið við góða heilsu þarf að bjóða upp á góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla um allt land og það er líka mikilvægt að tileinka sér jákvætt viðhorf til heilsu sinnar.
Því miður hefur uppbygging innviða í heilbrigðisþjónustu ekki verið sem skyldi, ekki síst úti á landi, og hefur það bitnað á heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum. Úthlutun fjármagns þarf að endurskipuleggja og ráðstafa því með markvissari hætti en gert hefur verið. Sjúklingum hefur oftar en ekki verið gert að fara um langan veg til Reykjavíkur til að sækja þá þjónustu sem þeir þurfa. Uppbygging vega hefur lengi verið í lamasessi og er beinlínis hættulegt að fara þá suma, sér í lagi þar sem stór hluti þungaflutninga fer fram á landi eftir að sjóflutningar lögðust að mestu af. Í höfuðborginni er svo þrengt að flugvellinum að mikilvægar flugbrautir fyrir sjúkraflug nýtast illa. Samgöngur í Reykjavík eru ekki til fyrirmyndar og mikil þrengsli eru við nýja þjóðarsjúkrahúsið sem sett var niður í miðbæ Reykjavíkur, í stað þess að finna því stað í fallegra og heilbrigðara umhverfi þar sem vítt er til veggja og yrði þá fremur til hagsbóta fyrir starfsmenn og sjúklinga.
Þetta er sú vegferð sem núverandi stjórnvöld hafa því miður verið á, en hvað er til ráða? Það þarf að snúa þessari þróun við, efla heilbrigðisþjónustu, líka úti á landi, bæta vegakerfið, byggja brýr og göng og skapa landsbyggðarfólki viðeigandi aðstöðu til að búa þar sem það kýs og fá þá þjónustu sem það á rétt á.
Við þurfum stjórnvöld sem hafa raunverulegan áhuga á úrbótum svo að það flytji ekki allir á höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld sem finnst fólkið sem byggir sveitir landsins, kaupstaði, bæi og þorp jafn mikils virði og fólkið í þéttbýlinu fyrir sunnan.
Og hvernig gerum við þetta? Svarið er: Með því að skipta um stjórnvöld, núna!
- Það þarf að gera fólki auðveldara að sækja læknisþjónustu, efla sjúkrahúsin sem fyrir eru, bæta samgöngur og bæta einnig fjarþjónustu þar sem það á við. Efla upplýsingastreymi til fólks um hvert það getur leitað og hvernig þjónustan virkar best, þannig að árangur náist til að bæta heilsu og líðan allra Íslendinga.
- Setja upp kerfi þar sem aðstaða sérfræðilækna og hjúkrunarfólks er bætt til að auka áhuga þeirra á starfi meðal annars á landsbyggðinni, til dæmis í ákveðinn tíma í senn. Skipulagið þarf að vera þannig að hvert hérað hafi á hverjum tíma ákveðinn fjölda sérfræðilækna og sérhæfðs starfsfólks svo að landsbyggðarfólk þurfi ekki stöðugt að ferðast alla leið til Reykjavíkur með ærnum tilkostnaði.
- Fjölga þarf hjúkrunarheimilum sem eiga að vera heimili fólks, þar sem fólki á að líða vel og það á að fá heilbrigðisþjónustu við hæfi hvers og eins. Hjálpa á fólki að búa heima eins lengi og kostur er. Efla og styrkja þarf fagmenntun þess mikilvæga starfsfólks sem vinnur við hjúkrun og umönnun okkar allra besta fólks.
- Miðflokkurinn hefur í þrígang lagt fram þingsályktun um heilbrigðisskimanir og vill tryggja öllum aðgengi að gjaldfrjálsum skimunum þannig að fólk geti sjálft fylgst með eigin heilsufari og þannig unnið gegn því að sjúkdómar nái sér á strik og leiði fólk til dauða.
Markmiðið er að bæta líðan og lengja líf. Spara má mikla fjármuni ef hægt er að koma í veg fyrir sjúkdóma, vanlíðan, atvinnumissi og allt sem því fylgir þegar fólk missir heilsuna. Með skimunum, aðstoð og upplýsingum til hvers og eins væri hægt að vinna bót á meinum sem annars gætu dregið fólk til dauða mun fyrr en ella.
Með heilbrigðisskimunum má ætla að einstaklingar verði meðvitaðri um heilsu sína, upplýstari um einkenni sjúkdóma og líklegri til að leita fyrr til læknis þar sem sjúkdómar yrðu greindir á byrjunarstigi.
Miðflokkurinn vill stuðla að bættri heilsu allrar þjóðarinnar og jafnframt hvetja fólk sjálft til þess að fylgjast með heilsufari sínu og bregðast við ef merki um heilsubresti koma fram. Komist Miðflokkurinn í þá stöðu mun hann innleiða gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir fyrir alla landsmenn.
Ríkisvaldið á að fjárfesta í forvörnum, þ.e. bættri heilsu og líðan fólks, og stuðla um leið að auknum jöfnuði meðal landsmanna og spara þjóðarbúinu mikla fjármuni.
Höfundur er uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur og aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.