

Gamla góða Ísland
Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði í viðtali milli jóla og nýárs að rétt væri að passa upp á „gamla góða Ísland“, verja það sem gott er og horfa til framtíðar með það í huga að gera „gamla góða Ísland – enn betra.“
Furðumargir hrukku af hjörunum, þótti þetta til marks um forneskjulega nálgun og þaðan af forpokaðri sýn á lífið.
Þetta fékk mig til að hugsa: viljum við ekki einmitt gamla góða Ísland, bara enn betra?
Hvers vegna eru sumir svona hvefsnir gagnvart því að haldið sé fram að margt hafi tekist vel á fyrri stigum?
Af hverju eru heilu stjórnmálaflokkarnir stofnaðir með þá grunnstefnu að kollvarpa því sem vel hefur reynst? Hvernig lendum við á þeim stað að hluti landsmanna telur fullveldið lítils vert? Hvernig varð rofið á milli skilnings á verðmætasköpun og hluta hins pólitíska litrófs svo afgerandi að nú er lagt til atlögu við grunnatvinnuvegi landsins, hvern af öðrum?
Bara á þessu fyrsta ári ríkisstjórnarinnar varð sjávarútveginn fyrir barðinu á hinum nýju herrum, svo kom ferðaþjónustan, næst verður það orkan og svo sennilega bændurnir, varðmenn landsins. Öll enda þessi högg svo á almenningi með verri lífskjörum.
Getur verið að hluti þessa sé vegna skilningsleysis á því sem vel hefur reynst í fortíð?
Það gekk nefnilega margt vel „í gamla daga“ þegar fólk gat fengið úthlutað lóð, byggt sér hús og flutt inn í það án þess að allt væri fullklárað.
Það var öryggi sem fylgdi því að búa í landi þar sem skipulagðir glæpahópar höfuð ekki tekið sér bólfestu.
Það var gott fyrir börn að alast upp í samfélagi þar sem það virtist ekki markmiði að hræða úr þeim líftóruna vegna lofslagsmála, sem þau hafa engin áhrif á. Og áfram mætti telja.
Og maður spyr sig; hafa kerfin okkar batnað á síðustu árum og áratugum?
Sum hafa sannarlega gert það. Verðmætasköpun og afkoma í sjávarútvegi er til dæmis með allt öðrum hætti í dag en var fyrir tíma aflamarkskerfisins, en því miður hafa mörg stuðningskerfanna gefið eftir.
Þrátt fyrir gríðarlega aukningu ríkisútgjalda skynja fáir að stuðningskerfi, eins og heilbrigðis- og menntakerfið, standi sterkari í dag en þau gerðu fyrir tíma þessa mikla útgjaldavaxtar.
Útgjaldavöxtur án viðhlítandi verðmætasköpunar kallar nefnilega fram hærri skatta, hærri verðbólgu og hærri vexti.
Við eigum ótrúleg tækifæri til að vernda það sem vel hefur reynst og um leið bæta það sem þarf að bæta, en pössum okkur á að breytingar þurfa að vera til bóta en ekki bara breytinganna vegna.
Við getum og eigum að varðveita það sem best var við gamla góða Ísland – en gera það enn betra.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. janúar, 2025.



