Fyrirsjáanleiki ferðaþjónustunnar

Í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag birtist viðtal við Daða Má Kristófersson, fjármálaráðherra, þar sem hann sagði að svo virtist sem allir væru orðnir sammála um að því sem næst fyrirvaralaus álagning innviðagjalds á farþega skemmtiferðaskipa hafi verið misráðin.

Það blasti við á sínum tíma og afleiðingarnar sem varað var við hafa allar komið fram.

Í umsögn Cruise Iceland, sem barst Alþingi 31.október 2024, sagði meðal annars: „Cruise Iceland endursendir athugasemdir sínar sem áður voru sendar til fjármálaráðuneytisins þar sem ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra. Cruise Iceland bendir einnig á að nú þegar hefur eitt skipafélag afbókað allar ferðir til Íslands á næsta ári vegna áforma stjórnvalda. Verði áformin að veruleika munu afleiðingar þess raungerast hratt.“ Með þessum inngangsorðum fylgdi svo umsögn sem rammar inn það sem hefur gerst síðan.

Væri ríkisstjórnin ekki svona illa haldin af skattasýki, sem engin lækning virðist vera við, þá væri þetta mál vafalaust talið tækifæri til að slá pólitískar keilur, enda mælti Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi fjármálaráðherra fyrir málinu og við lokaafgreiðslu þess voru það eingöngu 11 þingmenn Framsóknarflokks og 15 þingmenn Sjálfstæðisflokks sem greiddu atkvæði með því. Aðrir flokkar snertu málið ekki með töngum.

En nei, í engu skal sleppa takinu á skatttekjum, sem í þessu tilfelli eru fuglar í skógi, en ekki í hendi.

Sami Daði Már ætlar nú að knýja fram 7,5 milljarða hækkun vörugjalda á ökutæki, með sambærilegum fyrirvara og viðhafður var við innviðagjöldin á skemmtiferðaskipin.

Áhrifin eru nú þegar þau að bílaleigur landsins, sem eru langsamlega stærsti kaupandi nýrra bíla, leita nú dyrum og dyngjum að bílum til að skrá fyrir áramótin, enda hafa þær ekki legið á þeirri skoðun sinni að 100% rafmagnsbílar séu í litlum metum hjá viðskiptavinum þeirra.

En 7,5 milljarða skattahækkunin skal keyrð í gegn. Með breytingatillögum meirihluta efnahags-og viðskiptanefndar, jafn ótrúlegt og það kann að hljóma.

Fjármálaráðherra fer þarna bakdyra megin inn með risa skattahækkun. Lætur Örnu Láru Jónsdóttur, formann nefndarinnar, draga skattahækkunina í gegnum þinglega meðferð í stað þess að gera það sjálfur.

Skattasýki er auðvitað ekki spilling, frekar eðli stjórnmálaafla sem halla sér til vinstri, en þegar flokkarnir tveir sem leiða þessa ríkisstjórn hafa hagað orðum sínum í aðdraganda kosninga og fyrst þar á eftir, á þá þann veg að ekki verði lagðir nýir skattar og gjöld á fjölskyldur landsins og fyrirtæki, þá er stutt í þá tilfinningu að spillingarrót sé til staðar hjá þeim sem dagana langa segjast vinna að almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 24.október 2025.