Á endanum er aldrei neitt plan

Enn einu sinni finnur ríkisstjórnin sig í þeirri stöðu að hafa haft nægan tíma til að undirbúa sig en vanta svo planið.

Ákvörðun Evrópusambandsins um að brjóta EES samninginn með beitingu refsitolla á íslenska og norska framleiðslu er fráleit og getur ekki haft önnur áhrif en neikvæð á samskipti EES þjóðanna og ESB.

Í gær bárust fréttir af því að forsætisráðherra hafi hringt í Ursulu von der Leyen, vinkonu sína og fengið staðfest að hin fordæmalausa aðgerð Evrópusambandsins væri ekki fordæmisgefandi.

Eins og kallinn sagði; það sem hefur aldrei gerst áður, getur alltaf gerst aftur.

En fordæmið er einmitt það sem menn óttast mest. Hvað næst? Álið? Eða önnur framleiðsla?

En aftur að planinu sem vantar svo sárlega.

Fyrst er það að segja að það er útilokað að Ísland, sem fullvalda sjálfstæð þjóð, leggi sín hagsmunamál undir dómstóla sem önnur ríki reka. Það leggur enginn eigin mál undir dóm sem er stjórnað af gagnaðilanum. Gerðardómsleiðin verður svo varla farin nema í sátt beggja aðila. Ólíklegt er að ESB ætli í slíkan göngutúr.

EES samningurinn gerir ráð fyrir gagnráðstöfunum, meðal annars í 114.grein samningsins, til að draga úr högginu fyrir þá þjóð sem fyrir verður. Til að „halda jafnvægi“ í samningnum, eins og það er kallað, (e.rebalancing measures).

Því verður varla trúað, að slíkar ráðstafanir hafi ekki verið kynntar fyrir ESB.

Íslandi er sem sagt heimilt samkvæmt EES samningnum, að gera gagnráðstafanir sem skila okkur aftur því sem „tekið er af okkur“.

Séu slíkar ráðstafanir rétt útfærðar og tilkynntar sambandinu má leiða líkum að því að ESB muni ekki einu sinni kveinka sér undan slíkum ráðstöfunum, enda beinlínis gert ráð fyrri þeim í samningnum.

Hvort sem leiðin verður sú að loka á innheimtu fráleitra loftslagsskatta, eða til dæmis að ráðstafa greiðslum sem ganga með einum eða öðrum hætti inn í „kerfi“ ESB um hið ýmsa og verja þeim til þess að bæta þeim fyrirtækjum sem nú verða fyrir höggi vegna brota ESB á EES samningnum tjón sitt að hluta eða fullu er útfærsla sem er stjórnvalda að ákvarða.

Allt eru þetta ákvarðanir sem ætti að vera hægt að taka og upplýsa um með hraði. En fréttir síðustu daga benda ekki til þess að nein greining, hugsun eða útfærsla hafi verið unnin í þessa veruna.

Það er ekki eins og ákvörðun ESB hafi fallið af himnum ofan. Aðdragandinn var langur, hagsmunagæslumenn Íslands voru því í fullum færum til að undirbúa þessar útfærslur.

Því miður virðast stjórnvöld annað hvort hafa sofið á verðinum hvað þessar heimildir varðar, nú eða það sem líklegra er, ekki viljað rugga bátunum með því að draga þessi vopn fram.

Stillum upp gagnráðstöfunum. Tilkynnum þær. Komum þeim í framkvæmd. Höldum áfram.

Áfram Ísland!

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember, 2025