Samkomulag um Stjórnarráð Íslands

Ég spurði forsætisráðherra í vikunni út í fordæmalaust „samkomulag“ milli Ragnars Þórs Ingólfssonar sem er nýr félags- og húsnæðismálaráðherra og Ingu Sæland sem er nýr mennta- og barnamálaráðherra en gegndi áður fyrrnefnda embættinu. Samkomulagið gengur út á það að Inga „fari með“ stjórnarmálefni um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk. Ábyrgðin á málinu mun þó eftir sem áður liggja hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og þar með Ragnari Þór. Forsætisráðherra kvittaði upp á þetta samkomulag og svaraði hún mér því til að þetta væri vissulega óvenjulegt en að hennar mati lögum samkvæmt. Það vakti undrun mína að forsætisráðherra vísaði til, sem fordæmis um svona samkomulag, þegar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti voru skipaðir tveir ráðherrar í skamman tíma árið 2017. Þá skiptu Þórdís Kolbrún Gylfadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir með sér málefnum sem heyrðu undir það ráðuneyti sem þá hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Í forsetaúrskurði var skýrt kveðið á um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðherranna tveggja. Hvor þeirra bar fulla ábyrgð á tilteknum málaflokkum sem allir heyrðu undir ráðuneytið sem var þeirra beggja. Það sama var uppi á teningnum þegar við Jón Gunnarsson deildum í skamman tíma innviðaráðuneytinu. Hann fór óskorað með þau stjórnarmálefni sem síðar heyrðu til samgönguráðuneytis og ég með fulla ábyrgð og umsjón með málum sem síðar heyrðu undir dómsmálaráðuneyti. Dæmin er fleiri og í tíð fjögurra ríkisstjórna frá árinu 2011 þegar ný lög um Stjórnarráðið tóku gildi. Þau gera ráð fyrir að ráðuneyti séu stærri einingar en áður þekktist og að heimilt sé að skipa tvo ráðherra yfir mismunandi málaflokka innan sama ráðuneytis. Með lagabreytingunni var hins vegar ekki gert ráð fyrir að hægt væri að fela einhverja tiltekna málaflokka ráðherrum sem sætu í öðrum ráðuneytum, hvað þá að eitt stjórnarmálefni væri sett undir fleiri en einn ráðherra.

                Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki heppilegt að ráðherrar séu fleiri en einn í sama ráðuneyti jafnvel þótt það spari einhvern pening með því að ráðuneytisstjóri sé bara einn. Þegar þetta hefur verið gert til skamms tíma, lögum samkvæmt hefur það hins vegar verið gert með skýrri skiptingu ábyrgða á málaflokkum og þannig að framkvæmd og ábyrgð fylgist að. Þessi dæmi sem hér eru rakin, og forsætisráðherra vísaði til í svari sínu til mín, eru algerlega eðlisólík því „samkomulagi“ sem forsætisráðherra vill telja grundvöll að skipan stjórnarmálaefna í Stjórnarráðinu.

                Með „samkomulagi“ ráðherra Flokks fólksins er lagaleg ábyrgð málaflokksins skilin eftir hjá félags- og húsnæðismálaráðherra en um leið er framkvæmd málaflokksins færð þaðan og þannig skilin frá hinni lagalegu ábyrgð. Furðulegust af öllu er staðan sem félags- og húsnæðismálaráðherra er skilinn eftir í. Lögum samkvæmt er ótvírætt að hann sem ráðherra ber ábyrgð á félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Nú er látið að því liggja að hann hafi ekki fullt forræði á málefnum sem undir ráðuneyti hans heyra.

                Ráðuneyti eru ekki annað en skrifstofur ráðherra og þannig bara framlenging á ráðherra sjálfum. Umrætt „samkomulag“ gengur beinlínis gegn 1. gr. laga um Stjórnarráð Íslands sem kveður á um að ráðherrar fari með og beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, „hver á sínu málefnasviði“. Önnur ákvæði laganna mæla einnig gegn þessari uppfinningu Flokks fólksins

                Ég tel það sjálfstætt áhyggjuefni ef lögfræðileg ráðgjöf forsætisráðherra er á þessa vegu. Hitt ber hins vegar vott um pólitíska ringulreið að forsætisráðherra láti draga sig inn í það leikhús fáránleikans sem metnaður samstarfsflokks hennar í ríkisstjórn virðist helst standa til. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vék einnig að þessu máli í sama fyrirspurnartíma og gat ekki dregið aðra ályktun af þessu „samkomulagi“ en að það væri til þess að gera barna- og menntamálaráðherra áfram kleift að láta mynda sig við að klippa borða við opnun heimila fyrir aldraða. Það væri nýr lágpunktur í þessu margnefnda „fallega“ ríkisstjórnarsambandi ef það er raunin og heilbrigðisþjónustu eldri borgara ekki til framdráttar.

Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar, 2026.