Fögur fyrirheit og fjármögnun í lausu lofti

Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2040 er umfangsmikið plagg en ekki vegna raunverulegra framkvæmda í náinni framtíð eða skýrrar sýnar. Hún birtist fyrst og fremst sem fögur fyrirheit núverandi samgönguráðherra fyrir hönd komandi ríkisstjórna. Það vekur furðu að fylgjast með stjórnvöldum segjast óbundin af fyrri áætlunum en kynna svo loforðasúpu sem á að gilda langt fram í tímann. Er þess raunverulega vænst að eftirmenn í brúnni sýni þessu meira traust en núverandi stjórnvöld sýndu forverum sínum?

Mikið hefur verið gert úr því að áætlunin sé „fullfjármögnuð“ en þegar rýnt er í málið kemur í ljós að þar er á ferðinni hreinn orðaleikur. Þessi meinta fjármögnun á að fara fram í gegnum innviðafélag sem er ekki enn til, hvað þá að því finnist staður í fjárlögum. Eins og kunnugt er, þá eru það fjárlögin sem ráða en ekki glansmyndir í fjölmiðlum eða flottar fyrirsagnir. Rauði þráðurinn er áframhaldandi hækkun skatta og nýir skattar á vegfarendur til að fjármagna loftkastala sem eiga að rísa í tíð ríkisstjórna framtíðarinnar.

Það bar vott um ákveðinn barnaskap þegar talið var að veiðigjöld, vörugjöld og kílómetragjald væru þess búin að leysa allan vanda. Enda var ítrekað á það bent að þær hækkanir væru ofmetnar sem tekjur þar sem þær tækju ekki tillit til mannlegrar hegðunar. Raunveruleikinn knýr dyra; tekjur af þessum gjöldum eru ofmetnar.

Svo er það hið nýja „samráð“ sem samgönguráðherra hreykir sér af. Það felst í því að keyra um landið og hitta menn á óformlegum fundum í stað þess að nýta viðurkenndar leiðir, svo sem samráðsgátt stjórnvalda sjálfra eða formlega fundi með hagsmunaaðilum. En hvað skyldi samgönguráðherra hafa heyrt í þessum samtölum á Austurlandi? Þar hafa menn eðlilega þungar áhyggjur. Hönnun nýs vegar yfir Öxi er fullgerð og ekkert því til fyrirstöðu að auglýsa eftir tilboðum í verkið án frekari tafa. Fá verkefni á Íslandi bjóða upp á jafn mikla vegstyttingu og sparnað en samt er framkvæmdinni frestað enn og aftur. Suðurfjarðavegur þarf enn að bíða þrátt fyrir að vera metinn einn hættulegasti vegur landsins. Vegbótum á þjóðvegi 1 frá Þelamörk til Akureyrar er líka frestað, á hættulegum kafla sem þolir illa frekari bið.

Það er nöturlegt að horfa upp á hvernig Austurland er hunsað, landshluti sem aflar tæps fjórðungs af útflutningstekjum þjóðarinnar. Lítið er gert úr þeim verðmætum sem þar verða til. Stjórnvöld staglast á því að 84% þjóðarinnar búi á suðvesturhorninu, en gleyma því að það er skattspor landsbyggðarinnar sem ber uppi marga okkar mikilvægustu innviða og ekki síst á Norður- og Austurlandi.

Reiðskjóti ráðherra sér illa til norðurs og ekkert til austurs. Í stað nauðsynlegra samgöngubóta, sem fallið hefur verið frá eða frestað, s.s. Suðurfjarðavegar eða Öxi, á að bjóða Austfirðingum hringtorg fyrir 800 milljónir! Hringtorg sem var sett inn á áætlun vegna framkvæmda sem ráðherra hefur strikað út. Það þarf engan „heimafræðing“ til að sjá að hér vantar allan metnað og skynsemi. Þegar áherslurnar eru skoðaðar frá sjónarhóli þeirra sem búa fjarri höfuðborginni blasir við algert skilningsleysi á þörfum landsbyggðarinnar.

Þorgrímur Sigmundsson, alþingismaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar, 2026.