

Stjórnlaus útgjöld til loftslagsmála
Á árunum 2017-24 runnu 144 milljarðar til verkefna á sviði loftslagsmála og áætlað er að á árunum 2025-29 nemi þessi útgjöld 113,5 milljörðum. Samtals eru því útgjöld til þessara verkefna 257,8 milljarðar á þessu tímabili.
Til þess að setja þessar fjárhæðir í samhengi þá væri unnt að reisa þrjú háskólasjúkrahús fyrir það miðað við nýlegar áætlanir um kostnað við það sem nú er í byggingu.
Þessi svör fékk ég í haust við fyrirspurn minni til loftslagsráðherra, en ég spurði einnig um til hvaða verkefni hafi verið ráðist í, hverjir væru viðtakendurnir fjárins og hvaða mælingar lægu fyrir um árangur af ráðstöfun þessa fjár.
Í svarinu kom fram að verkefnisstjórn loftslagsmála hefur ekki skilað skýrslu til ráðherra síðan 2022 eða í bráðum 4 ár, en á meðan má ætla að yfir 70 milljarðar hafi runnið til loftslagsmála. Að öðru leyti voru svörin rýr og því borið við að útgjöld falli til með ýmsum hætti og ekki unnt að skoða einn fjárlagalið til að kalla fram heildstætt yfirlit yfir þessa fjármuni. Nefndar voru nokkrar stofnanir sem koma að loftslagsmálum og fá fjármuni, bæði með beinum og óbeinum hætti, allt með það að markmiði að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda, auk aðila sem fá fjármuni í gegnum millifærslur og styrki.
Hér verður að fá skýrari svör. Ég hef sent fyrirspurn til allra ráðherra til að komast að því hvernig þessu fé hefur verið varið. Er ekki eðlilegt að þjóðin fái að vita nákvæmlega hvert þetta fé hefur runnið? Liggur ekki í hlutarins eðli að upplýst verði um hverjir hafa verið viðtakendur þessa fjár? Þegar opinberu fé er varið í tiltekin verkefni er sjálfsagt að gera kröfu til þess að árangur af slíkri ráðstöfun sé mælanlegur, hver hann hefur verið hingað til og hvers sé vænst í framhaldinu.
Það er ekki boðlegt að skattfé virðast hafa sogast niður í hyldjúpt ginnungagap hulið sjónum skattgreiðenda.
Með þessu er ekki öll sagan sögð því við Íslendingar virðumst komnir í eina allsherjar úlfakreppu vegna loftslagsskuldbindinga, en nýlega áætlaði loftlagsráðherra í viðtali að við þurfum að greiða allt að 11 milljarða til kaupa á losunarheimildum fyrir árið 2030.
Í samhengi við þessi útgjöld öll má hafa það í huga að íslendingar fá nærfellt alla sína orku úr vatnsafls- og jarðvarmaverum og hitar 90% af húsnæði í landinu með heitu vatni úr iðrum jarðar.
Þessum tilgangslausa fjáraustri til loftslagsmála verður að linna. Fénu er betur varið til að byggja upp innviði og efla íslenskt samfélag.
Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 28. janúar, 2026.



