

Var þetta virkilega planið?
Margir velta nú fyrir sér hvernig forsætisráðherra ætlar að klóra sig fram úr eigin vandræðum, eftir að hafa lýst því yfir framan af desember, að „planið væri að virka“. Hún fann kjarkinn til þess eftir að verðbólgumæling undangengins mánaðar sýndi fram á lækkun 12 mánaða verðbólgu.
Svo kom „bakslagið“ nokkrum dögum síðar, verðbólga hækkaði umtalsvert á milli mánaða og spárnar teikna ekki upp bjarta mynd.
Flestir voru orðnir orðnir úrkula vonar um að það væri nokkurt plan yfir höfuð, svolítið eins og kom á daginn hjá systurflokki Samfylkingarinnar í Bretlandi, eftir fjórtán ár í minnihluta.
Keir Starmer hafði á endanum ekkert plan, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað og nú hefur Samfylkingin, í forystu ríkisstjórnarinnar sýnt fram á að svo var ekki heldur hér heima.
Forsætisráðherra lagði mikla áherslu á að Samfylkingin gæti og ætti að læra af félögum sínum og systurflokki í Bretlandi. Staðan á þeim bæ er nú sú að Verkamannaflokkurinn stendur frami fyrir nær fordæmalausu fylgistapi, sem kom fram með ógnarhraða eftir að landsmönnum varð ljóst að planið hefði ekki bara klikkað, heldur hafi það aldrei verið til staðar.
Ef plan Kristrúnar Frostadóttur, sem forsætisráðherra, var að ársverðbólga væri nú nær því hin sama og þegar stjórnin tók við, að atvinnuleysi hefði aukist verulega á þessu fyrsta ári, að gjaldeyrisskapandi greinar væru flestar komnar í nauðvörn vegna árása ríkisstjórnarinnar, að málefnum mennta héldi áfram að hraka, að þrátt fyrir yfirlýstan vilja dómsmálaráðherra væru mál ráðherranns ekki sett á dagskrá til afgreiðslu, nema í kjölfar dagskrártillagna stjórnarandstöðu; ef þetta var planið, þá er planið að ganga upp.
Og var það planið að vöxtur ríkisútgjalda á milli ára yrði 143 milljarðar, í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar Viðreisnar og Kristrúnar Frostadóttur, sem er rúmlega tvöföldun á milli ára?
Var planið að útfæra stöðugleikregluna þannig að hún virkaði eins og tjakkur á skatta- og gjaldahækkanir?
Og ætli það hafi verið planið að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins yrði allsherjarráðherra málaflokka þess flokks?
Nei, sennilega ekki, en þetta er staðan.
Ef þetta var planið. Megi þá góður Guð forða okkur landsmönnum frá frekari plönum Samfylkingarinnar. Og við megum ekki við öðru verðmætasköpunarhausti, bara alls ekki.
Svo minni ég ykkur á að hlusta á ársuppgjör Sjónvarpslausra fimmtudaga, sem fer í loftið á þrettándanum, venju samkvæmt.
Að endingu segi ég gleðilegt nýtt ár, sendi þakkir fyrir það sem nú er að líða og vonir um hagfellda niðurstöðu fyrir land og þjóð í kosningum næsta árs. Ætli þær verið ekki tvennar?
Bergþór Ólason, alþingismaður
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember, 2025.


