Uppsprettan á Austurlandi en sóað í Reykjavík

Bene­dikt V. Warén

Nú stend­ur fyr­ir dyr­um að Lands­virkj­un byggi stór­hýsi yfir stjórn­stöðvar sín­ar í bæj­ar­fé­lagi þar sem eng­in raf­orku­fram­leiðsla er á veg­um fyr­ir­tæk­is­ins. Það þætti nokkuð gal­in for­gangs­röðun ef Lands­banki Íslands hefði valið að flytja höfuðstöðvar sín­ar í bæj­ar­fé­lag og vera ekki með neina aðra starf­semi á staðnum.

Sam­kvæmt frétt­um RÚV eru lóðirn­ar þrjár sem Lands­virkj­un er að helga sér við Bú­staðaveg á um 1,3 millj­arða króna og þá á eft­ir að byggja húsið. Alltaf ber rök­semda­færsl­una að sama brunni þegar fjár­mun­ir eru ann­ars veg­ar, ekk­ert er hægt að skilja eft­ir á upp­runastað en millj­örðum sóað í glæsi­hall­ir á dýr­asta stað lands­ins. Á Fljóts­dals­héraði er um helm­ing­ur allr­ar orku Íslands fram­leidd­ur og ork­una fær Lands­virkj­un á spott­prís.

Á sama tíma er verið að „gelda“ Aust­ur­land stjórn­sýslu­lega séð og eng­in op­in­ber stofn­un verður þar starf­andi. Það rím­ar hins veg­ar ótrú­lega illa við fög­ur fyr­ir­heit stjórn­valda síðustu ára um að færa op­in­ber störf á lands­byggðina. Ekki það að nokk­ur hrökkvi við það leng­ur en fús­lega skal viður­kennt að und­an svíður.

Eitt verk­efni er upp­fyllt svika­laust af stjórn­völd­um. Það er að soga allt fjár­magn úr fjórðungn­um og síðan þarf að sækja með betlistaf í lífs­nauðsyn­leg bjargráð. Aust­f­irðing­ar hafa mátt þola ít­rekuð svik­in lof­orð um flesta hluti sem hef­ur átt að færa til betri veg­ar fyr­ir Aust­ur­land. Þar toppaði formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins alla hina þegar hann reið sperrt­ur um héruð sem innviðaráðherra (sam­gönguráðherra) á Aust­ur­landi veif­andi gúmmítékka fram­an í alla og lofaði Ax­ar­vegi, end­ur­bót­um á Eg­ilsstaðaflug­velli og Fjarðar­heiðargöng­um, svo fátt eitt sé nefnt.

Þegar þrengt var að innviðarráðherr­an­um um efnd­ir vísaði hann snar­lega á fjár­málaráðherr­ann, en sá vildi ekki viður­kenna gúmmítékk­ann. Eng­ar breyt­ing­ar urðu þó við að sami ráðherr­ann færi í stóla­leik­fimi við aðra ráðherra og lenti sjálf­ur í stól fjár­málaráðherra. Þá brast hins veg­ar á æp­andi aðgerðal­eysi og öll lof­orð fuku út um glugg­ann.

Nú er hins veg­ar tæki­færi að snúa mál­um Aust­ur­lands á betri veg, vinna eft­ir stefnu stjórn­valda, færa rík­is­stofn­un á lands­byggðina og reisa veg­leg­ar höfuðstöðvar Lands­virkj­un­ar á Fljóts­dals­héraði. Þar er næg orka til að lýsa og hita upp slíkt stór­hýsi, ódýr­ar lóðir eru í boði, góðar sam­göng­ur, fín­ar teng­ing­ar við net­kerf­in og frá­bær staður veðurfars­lega, þar sem starfs­fólki mun líða vel og rús­ín­an í pylsu­end­an­um – það spar­ast mikl­ir fjár­mun­ir.

Því er kraf­an að flytja höfuðstöðvar Lands­virkj­un­ar á Fljóts­dals­hérað.

Höf­und­ur er varaþingmaður Miðflokks­ins í NA-kjör­dæmi.