Ekkert þjóðaröryggi án fæðuöryggis

Virðulegur forseti. Það er engin tilviljun að orðið kúltúr, sem í mörgum erlendum málum er notað yfir siðmenningu, er dregið af latneska orðinu „cultura“ í merkingunni ræktun.

Það vakti athygli mína að hæstv. forsætisráðherra vék hvergi að mikilvægi fæðuöryggis þjóðarinnar í stefnuræðu sinni á dögunum. Ekki var heldur vikið einu orði að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu með m.a. allri þeirri verðmæta- og atvinnusköpun sem fylgir.

Virðulegur forseti. Staðreyndin er sú að innflutningur matvæla hefur aukist gríðarlega á kostnað innlendrar matvælaframleiðslu, á kostnað bænda og landsbyggðarinnar, á kostnað innlendrar verðmætasköpunar, á kostnað byggðafestu, á kostnað öryggis. Þetta er öfugþróun.

Getur það verið, forseti, að hagsmunaöfl innflutningsgeirans með vöruhús sín á höfuðborgarsvæðinu mörg hver, hafi of mikil ítök í sitjandi ríkisstjórnarflokkum? Er það mögulegt?

Auðvitað eru ýmis aðföng sem nauðsynlegt er að flytja til landsins en slíkt gildir ekki um verksmiðjuframleidd matvæli erlendis frá, stútfull af sýklalyfjum, sem nú eru flutt inn í mun meira mæli en áður.

Það er nú bara þannig að fæðuöryggi verður ekki tryggt með auknum innflutningi matvæla líkt og þessi ríkisstjórn virðist stefna að leynt og ljóst, t.d. með niðurfellingu tolla eða tilfæringum innan tollflokka.

Virðulegur forseti. Það er ekkert þjóðaröryggi án fæðuöryggis. Fæðuöryggi verður einungis tryggt með aukinni innlendri matvælaframleiðslu. Getum við ekki bara verið sammála um það?

Ingibjörg Davíðsdóttir

Jómfrúarræða flutt á Alþingi 18. febrúar 2025