44 snúnir dagar Viðreisnar – 1.391 eftir?
Fyrstu 44 dagar ríkisstjórnarinnar hafa í raun verið ævintýri líkastir. Þeir sem veðjuðu skynsamlega í vinnustaðapottinum og settu rauðvínsflöskuna á að samstarfið liðaðist í sundur við aðra fjárlagagerðina, haustið 2026, hafa nú snarlega þurft að hugsa sinn gang og útfæra varnir.
Ef félag Ingu Sæland sleppur undan endurkröfu fjármálaráðherra verður pólitíska byrðin af því lausnargjaldi borin af Viðreisn. Fjármálaráðherrann stendur frammi fyrir tveimur valkostum; endurkrefja eins og gert er gagnvart þeim sem fá ofgreitt úr ríkissjóði hvort sem það eru aldraðir, öryrkjar eða aðrir. Nú eða finna leið til að sleppa því og sitja uppi með svartapétur út kjörtímabilið.
Það hefur verið áhugavert að sjá hversu hratt og af mikilli elju talsmenn Viðreisnar hafa komið Ingu Sæland og Flokki fólksins til varnar í þeirri ágjöf sem flokkurinn og formaðurinn hafa fengið á sig. Minna hefur farið fyrir varnarmönnum Samfylkingarinnar. Það bendir til að báðir samstarfsflokkar Flokks fólksins átti sig á hver situr uppi með svartapétur í styrkjamálinu.
Á föstudaginn síðasta brá svo við að skyndilega mætti Sigurjón Þórðarson þingmaður FF til leiks og tók sér varnarstöðu með nýjum atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínu Friðriksson, þetta þótti mér drengilega gert hjá verðandi formanni atvinnuveganefndar, þar til í ljós kom (þegar Spursmál fóru í loftið) að hann var ekki að verja ráðherrann heldur sjálfan sig.
Hann hafði þá gleymt að nefna við ráðherrann sína eigin hagsmuni varðandi strandveiðar, sem er heldur óheppilegt þar sem ráðherrann situr uppi með það verkefni að útfæra loforð Flokks fólksins um verulega aukið umfang strandveiða, sem fjármálaráðherra Viðreisnar hefur kallað sóun.
Ráðherrann svaraði af skynsemi í setti Spursmála undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar en það er ekki víst að verðandi formaður atvinnuveganefndar hafi verið lukkulegur með svörin.
Til gamans má nefna að Stefán Einar var útnefndur „Grimmasti Íslendingurinn“ í ársuppgjöri Sjónvarpslausra fimmtudaga og er hann vel að þeirri viðurkenningu kominn.
En nú fer gamanið að byrja. Alþingi kemur saman á morgun.
Stjórnarsáttmálinn, eða stefnuyfirlýsingin eins og þetta heitir hjá valkyrjunum, var á endanum óttalegt þunnildi. Nú bíða menn spenntir eftir þingmálaskránni, enda hefur Inga Sæland lýst því sem þar er að vænta þannig að seðlabankamenn og áhugafólk um lækkun vaxta súpa hveljur.
Fyrstu 44 dagarnir hafa verið áhugaverðir, en endist valkyrjunum þrek til að þrauka út kjörtímabilið, þá eru hvorki fleiri né færri en 1.391 dagur eftir til síðasta mögulega kjördags. Þetta verður eitthvað.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is