Ögurstund í 1150 ára sögu þjóðar
Þegar þessi örlitla þjóð öðlaðist fullveldi og gat tekið ákvarðanir á eigin forsendum skilaði það meiri og hraðari framförum en aðrar þjóðir hafa upplifað.
Í dag fara fram kosningar sem snúast ekki aðeins um hvert samfélagið skuli stefna heldur hvort við séum reiðubúin að gera það sem þarf til að vernda þetta samfélag til framtíðar.
Hér höfum við búið í 1150 ár í fallegu en harðbýlu landi. Um aldir háði þjóðin baráttu fyrir að lifa af og skila landinu til næstu kynslóða í þeirri von að líf þeirra yrði betra. Sögurnar minntu svo á að Íslendingar hefðu verið sjálfstæð og merkileg þjóð og því gætum við orðið það aftur.
Það tókst. Þegar þessi örlitla þjóð með mikið sjálfstraust öðlaðist fullveldi og gat tekið ákvarðanir út frá sínum aðstæðum og á eigin forsendum skilaði það meiri og hraðari framförum en aðrar þjóðir hafa upplifað.
Við þurfum að vernda landamærin sem afmarka fullveldið. Án þeirra verndum við ekki velferðarkerfið, án þeirra getum við ekki aukið velmegun allra sem mynda þá stóru fjölskyldu sem þjóðin er, allt frá yngstu meðlimunum til þeirra elstu. Án stjórnar á landamærunum missum við þá samkennd sem einkennt hefur Ísland.
Höfum við enn trú á fullveldinu? Er sannfæring okkar enn eins sterk og fátæk tugþúsunda þjóð hafði á tímum þegar fáein stórveldi stjórnuðu nánast öllum heiminum?
Þessa sannfæringu hef ég. Enda hef ég sjálfur upplifað hversu miklu máli það skiptir að geta beitt fullveldisréttinum til að leysa stór mál í þágu þjóðarinnar.
Þrátt fyrir að vera stoltur af ýmsum árangri í gegnum tíðina hef ég ætíð talið stærsta áfangann þann að hafa slitið aðlögunarviðræðum fyrri ríkisstjórnar við Evrópusambandið.
Nú bið ég um stuðning ykkar við að verja og efla samfélagið og vernda fullveldið og spyr: Hverjum treystið þið best til að standa við fyrirheit? Þeim sem lofa sömu hlutunum fyrir hverjar kosningar en gera svo eitthvað allt annað, eða þeim sem hafa talað um það sem þeir hafa sannfæringu fyrir, hvort sem það var vinsælt eða erfitt þann daginn, og svo framkvæmt í samræmi við fyrirheitin?
Í dag ræðst hvort við tekur ríkisstjórn sem hefur trú á Íslandi, sjálfstæði landsins og mikilvægi þess að vernda þessa þjóð fyrir komandi kynslóðir eða ný kerfisstjórn skattahækkana, pólitísks „rétttrúnaðar“ og aðlögunar að Evrópusambandinu.
Stuðningur við Miðflokkinn er leiðin til að tryggja fyrri kostinn.
Áfram Ísland.
Höfundur er formaður Miðflokksins.