Stjórnmálaályktun Flokksráðsfundar Miðflokksins, 29. október, 2022

Samþykkt á Hótel Valaskjálf þann 29. október 2022.

Flokksráðsfundur Miðflokksins haldinn á Hótel Valaskjálf Egilsstöðum ályktar:

Flokksráðsfundur  Miðflokksins þann 29. okt. telur núverandi aðstæður kalla á ríkisstjórn sem bregst við stórum og aðkallandi úrlausnarefnum fremur en að hafa að markmiði að viðhalda völdum.  Aðstæður nú kalla á pólitíska stefnu og forystu.  Ákvarðanir skulu teknar af kjörnum fulltrúum með tilliti til gefinna loforða og þarfa samfélagsins í stað þess að embættismenn eða aðrir taki þær ákvarðanir.

Flokkráðsfundur Miðflokksins ályktar:

  • Um málefni hælisleitenda og öryggi á landamærum. – Miðflokkurinn hefur einn flokka varað við afleiðingum þess að Ísland sé nánast auglýst í útlöndum sem besti ákvörðunarstaður hælisleitenda. Afleiðingar stefnuleysis í málaflokknum blasa nú við. Fjöldahjálparstöðvum, sem í raun eru flóttamannabúðir, hefur verið komið upp og opinberar stofnanir eru í samkeppni um húsnæði við borgara í húsnæðisleit. Nú þegar þarf að afnema öll séríslensk ákvæði úr regluverki útlendingalaga. Þau ákvæða virka sem segull á fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi og gera okkur erfiðara fyrir að gera vel við þá sem eru í mestri neyð. Ísland má ekki verða andlag sölustarfsemi glæpagengja sem gera sér neyð fólks að féþúfu.
  • Um löggæslu – Miðflokkurinn leggur sem fyrr mikla áherslu á eflingu löggæslu. Skipulögð glæpastarfsemi hefur haslað sér völl á Íslandi, ofbeldisbrotum fjölgar og þau verða sífellt alvarlegri. Stórfelld fíkniefnabrot eru fleiri og stærri en verið hefur. Miðflokkurinn vill bæta úrræði lögreglu og tryggja að um leið og rannsóknarheimildir séu efldar sé eftirlit með aðgerðum lögreglu með þeim hætti að gagn sé af.
  • Um heilbrigðismál. – Miðflokkurinn telur að forvarnir séu grundvöllur að öflugu heilbrigði þjóðarinnar. Eitt af höfuðbaráttumálum flokksins er gjaldfrjáls skimun fyrir alla. Miðflokkurinn telur ríkjandi biðlistaómenningu óþolandi. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gengið til samninga við einkareknar sjúkrastofnanir þar sem það á við til þess að vinna bug á biðlistum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá samþjöppun þjónustu og hún færð nær notendum þjónustunnar.
  • Um aldraða – Miðflokkurinn vekur athygli á stefnu sinni í öldrunarmálum – ,,Frá starfslokum til æviloka.” Þar er lögð til samfelld einstaklingsmiðuð þjónusta við aldraða. Þar er einnig kveðið á um aukna heimaþjónustu og búsetuúrræði sem brúi bilið milli heimilils og hjúkrunarheimila. Jafnframt minnir Miðflokkurinn á stefnu flokksins sem gengur lengra en nokkur önnur við að draga úr skerðingum vegna annarra tekna lífeyrisþega.
  • Um öryrkja – Miðflokkurinn vill að nú þegar verði staðið við fyrirheit til öryrkja, meðal annars varðandi skerðingar á bótum. Jafnframt verði núverandi örorkumat endurskoðað með tilliti til mismunandi þarfa öryrkja.
  • Um landbúnaðarmál og fæðuöryggi – Miðflokkurinn vísar til framkominnar þingsályktunartillögu flokksins um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Mikilvægara er nú en nokkru sinni fyrr að tryggja fæðuöryggi og aðgengi landsmanna að heilnæmum afurðum. Neysla heilnæmrar fæðu bætir heilsu, eykur lífsgæði og er öflug forvörn. Miðflokkurinn hafnar öllum áætlunum Matvælaráðherra um samdrátt í innlendri kjötframleiðslu og takmörkunum á notkun áburðar til ræktunar lands.
  • Um byggðamál – Miðflokkurinn vísar til stefnu sinnar ,,Ísland allt.” Þar er á skýran hátt lýst hvernig efla megi byggð hvarvetna á Íslandi og tryggja að tækifæri landsmanna verði hin sömu óháð búsetu. Nauðsynlegt er að landsbyggðin komist í arðbæra sókn úr þeirri langvarandi kostnaðarsömu vörn sem hún hefur verið í.
  • Um fjármál ríkisins – Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín. Miðflokkurinn geldur enn varhug við svokölluðum ,,grænum sköttum” sem bitna á fólki og fyrirtækjum og draga úr framtaki og framförum.
  • Um nýtingu orkuauðlinda. Á tímum þegar orkuskortur ríkir í heiminum og orkuverð er í hæstu hæðum er ekki rétt að hafna vinnslu á auðlindum í efnahagslögsögu Íslands. Miðflokkurinn vill að þegar verði gefin út rannsóknar- og vinnsluleyfi til öflunar á gasi og olíu sem líkindi eru til að finnist í lögsögu Íslands. Einnig þarf að nýta allar orkulindir til lands og sjávar til atvinnuuppbyggingar ásamt orkuskiptum. Miðflokkurinn áréttar þá skoðun að Landsvirkjun verði í eigu ríkisins og að orkupakkar Evrópusambandsins henti ekki íslenskum aðstæðum.
  • Um einföldun regluverks – Núverandi ríkisstjórn er eins og flestum er kunnugt kerfisstjórn sem þvælist fyrir fólki og fyrirtækjum og gerir þeim erfiðara fyrir við að vaxa og dafna. Óþolandi flækjustig fylgir því að hefja atvinnurekstur og þróa hann áfram. Afgreiðslutími erinda eftirlitsstofnana er iðulega of langur sem verður ítrekað til tafa og tjóns. Miðflokkurinn vísar til þingsályktunartillögu sinnar um einföldun regluverks.
  • Um menntamál – Ríkisstjórnin skilar auðu í menntamálum eins og víðar. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gerðar alvöru ráðstafanir til að efla iðn- og tækninám. Hundruð hafa ekki fengið inni í iðnnámi meðan skortur er á iðnmenntuðu fólki í nánast öllum greinum. Miðflokkurinn vill að lestrar- og móðurmálskennsla verði stórefld nú þegar. Miðflokkurinn leggur áherslu á gæði námsgagna fyrir öll börn og að þeim séu tryggð jöfn tækifæri í stafrænni þróun, fjölbreytni námsgagna og aðgang að þeim. Miðflokkurinn vill tryggja menntun fyrir alla og að skólinn sé öruggur staður fyrir öll börn.

Koma þarf í veg fyrir gengisfellingu iðnnáms með því að verja löggildingu og koma í veg fyrir að einstaklingar án réttinda gangi í störf fagmanna.

  • Ferðamál

Síaukinn ferðamannastraumur veldur miklu álagi á viðkvæma náttúru Íslands.  Miðflokkurinn leggur til að gjald verði lagt á alla farmiða til Íslands með það að markmiði að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu  og verndaraðgerðum.

  • Um samgöngumál. Miðflokkurinn leggst gegn veggjöldum sem munu stuðla að mismunun milli landsmanna. Miðflokkurinn styður áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sem er hvorttveggja í senn nauðsynleg tenging landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Miðflokkurinn minnir á að hlutverk flugvallarins er mikilvægara nú en áður vegna óheppilegrar samþjöppunar sjúkrastofnana og sérfræðiþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu.

Þau mál sem Miðflokkurinn hefur frá stofnun sett á oddinn eru nú flest í miðju umræðunnar. Hvort sem horft er til útlendingamála, orkumála, fæðuöryggis eða tjáningarfrelsis einstaklingsins,  hafa sjónarmið og stefna Miðflokksins aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Það munar um Miðflokkinn.

Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að styðja við og efla þau velferðarkerfi sem eru landsmönnum svo mikilvæg. Án öflugrar verðmætasköpunar verður okkur sniðinn þrengri stakkur en annars væri hvað útgjöld til velferðarmála varðar. Skynsamleg nýting auðlinda landsins verður að vera í forgangi til að íslenskt samfélag vaxi, dafni og eflist. Ísland allt!