
Vanhæfar valkyrjur
Æði sérstökum fyrsta þingvetri kjörtímabils er nú lokið. Viðlíka sláturtíð þingmála ríkisstjórnar hefur ekki sést í seinni tíma þingsögu.
Af 95 stjórnarmálum náðu 43 fram að ganga. Meirihlutinn, eða 52 þingmál, féll dauður. Meirihluti þeirra mála sem stjórnin þó náði í gegn var endurfluttur frá fyrri ríkisstjórn eða rekstrarmál ríkisins sem lítil pólitík er í.
Í þessu ljósi hefur verið kúnstugt að fylgjast með yfirdrifnum sigurhátíðum stjórnarflokkanna sem enginn hefur farið varhluta af sem hættir sér inn á samfélagsmiðla þessi dægrin. Myndin sem þar er teiknuð upp minnir helst á par sem teppaleggur allt með yfirgengilegum ástaryfirlýsingum þegar raunveruleikinn er annar og eftir fylgja hin óumflýjanlegu sambandsslit.
En eins og áður sagði voru málin mörg sem verkstjórn valkyrjanna náði ekki að klára.
Fyrir okkur í Miðflokknum var sérstaklega ánægjulegt að okkur tókst enn á ný með einurð og málefnalegri umræðu að stoppa bókun 35 og verja þannig fullveldi Íslands. Komi það mál fram á ný á haustþingi mun ekki standa á Miðflokknum að taka slaginn á ný.
Það var líka gott að mál um kílómetragjald náði ekki fram að ganga. Sama á við um illa ígrunduð mál eins og svokallaða víxlverkun og almannatryggingar en óforsvaranlegt hefði verið að klára þau óbreytt.
Þvinguð sameining sýslumannsembætta í eitt hugnaðist okkur í Miðflokknum ekki og það náði ekki fram að ganga. Rammaáætlun þar sem áformað var að setja Héraðsvötn með góðum virkjunarkostum í vernd kláraðist ekki heldur og kemur vonandi betur útfærð til þingsins í haust.
Strandveiðimálið náði heldur ekki fram að ganga en þar getur ríkisstjórnin litið í eigin barm. Þau settu málið bara einu sinni á dagskrá, 25 dögum eftir að þing hefði átt að vera búið, og stöðvuðu umræðuna eftir aðeins sjö ræður. Þau settu málið svo aldrei aftur á dagskrá, því þau vildu frekar ræða meira um skattahækkunarmálið sitt. Þetta er ekki flókið.
En þetta varð niðurstaðan, þrátt fyrir ótrúlegar aðfarir ríkisstjórnarinnar þar sem kjarnorkuákvæði þingskapalaga var beitt á umræðu stjórnarandstöðunnar og málfrelsi þingmanna kippt úr sambandi. Slíku ákvæði hefur ekki verið beitt í tæp 70 ár, af ástæðu.
Það má segja að valkyrjunum hafi svelgst á eigin frekjukasti, með þeim afleiðingum að meirihluti þingmála þeirra féll dauður.
Allt var það leikrit með ólíkindum og verður um það fjallað síðar með ítarlegri hætti.
Valkyrjurnar lögðu þarna meirihluta mála sinna í valinn og eitt er víst að ekki munu þau öll vakna upp í Valhöll.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí



