Valkyrjur fá ráðgjöf

Ólafur Þ. Harðarson dregur ekkert af sér í ráðgjöf nú þegar hann er sestur í helgan stein frá prófessorsstöðu í stjórnmálafræði við HÍ.

Til viðbótar við að vera tíður gestur í settinu hjá RÚV þar sem hann „útskýrir málið fyrir okkur“, eins og fréttaþulur orðar það gjarnan, þá hnyklar hann nú vöðvana fyrir ríkisstjórnarflokkana. Í fyrradag var hann mættur í settið, ekki til að ræða þá nánast fordæmalausu stöðu sem verkstjórn valkyrjanna er komin í nú þegar henni virðist fyrirmunað að ljúka þingstörfum heldur til þess að leggja upp hótanir í garð stjórnarandstöðunnar.

Prófessorinn fyrrverandi telur ekki tilefni á þessum tímapunkti til að beita 71. gr. þingskapalaga, sem kveður á um möguleika fyrir þingmeirihluta til að stöðva umræðu. Heimildin sé neyðarhemill sem ekki hefur verið beitt síðan 1959. Hins vegar leggur prófessorinn upp nýtt plan fyrir ríkisstjórnina, sem hefur þó lítið annað sagst eiga en einmitt plön: „Leikjafræðin sem liggur beint við fyrir ríkisstjórnina … er að segja bara „elskurnar mínar, taliði bara eins lengi og þið viljið“ og svo einhvern tímann í byrjun ágúst að fara að velta því fyrir sér að beita þessum neyðarhemli.“

Prófessorinn lítur hér fram hjá þeirri lýðræðislegu meginreglu sem störf þingsins lúta og felst í aðkomu allra þingmanna að störfum þingsins. Störf þingsins byggjast á samvinnu þeirra sem þangað eru kjörnir, óháð þátttöku í ríkisstjórn. Allir flokkar sem þar sitja hafa bæði rétt og skyldu til að taka þátt í þingstörfum, nefndarstörfum jafnt sem málstofunni sem Alþingi er umfram annað. Framkvæmdavaldið situr í skjóli þingsins og ráðherrum er skylt að eiga orðastað við þingmenn á vettvangi þingsins. Þá situr forseti þingsins í skjóli þingmeirihlutans og stýrir fundum þingsins.

Fram hjá öllu þessu lítur prófessorinn fyrrverandi þegar hann lætur að því liggja að ríkisstjórnarmeirihlutinn geti þvegið hendur sínar af þingstörfum í júlí og skilið minnihluta þingsins eftir í þingsalnum, lokað á eftir sér og mætt svo endurnærð í ágúst og eftir atvikum klippt á umræðuna. Í besta falli er þetta barnaleg einföldun á störfum þingsins. Í versta falli tillaga um stórfellda valdníðslu.

Sigríður Andersen, þingmaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júlí