
Þegar lagasetning fer út af sporinu
Lagasetningu er stundum líkt við pylsugerð. Í báðum tilvikum getur framleiðslan einkennst af samtíningi af alls kyns uppsópi sem fáir myndu vilja þekkjast ef stæði til boða eitt og sér. Í bland við annað og stundum kyrfilega falið er þó hægt að framkalla áferðafallega afurð og selja hrekklausum. En líkt og léleg pylsa getur valdið kveisu getur lagasetning haft óvæntar afleiðingar og stundum neikvæðar.
Óbærilegur þrýstingur
Því miður taka flestir þingmenn, og ráðherrar, lagasetningarhlutverk sitt bókstaflega. Menn hafa talið sér trú um að á þeim hvíli skylda að setja lög. Öðruvísi teljist þeir ekki sinna starfi sínu. Þannig þurfi að festa öll hugsanleg hugðarefni þingmanns og óskalista úr kjördæminu hans í löggjöf. Að afnema lög reynist hins vegar mörgum þingmanninum erfitt. Jafnvel þótt löggjöfin sé löngu úrelt bæði hvað tíðaranda og tækni varðar eða ef mistök hafa verið gerð. Fyrsta hugsun þingmanna er gjarnan að „bæta“ löggjöfina fremur en að kveðja hana fyrir fullt og allt.
Úrelt löggjöf
Það á hins vegar að vera ríkur þáttur í starfi þingmanns að beita sér fyrir afnámi úreltra laga. Þannig er það til dæmis nauðsynlegt að fella brott löggjöf ef sýnt þykir að þorri manna telur hana úrelta. Löggjöf sem bannar mönnum að versla með áfengi er dæmi um slíka löggjöf. Stór hluti þjóðarinnar kaupir nú þegar eða selur áfengi hérlendis eða erlendis. Heykist löggjafinn á að afnema lög sem menn eru hættir að fara eftir, eins og lög um einkarétt ríkisins á áfengissölu, er hætt við að virðing fyrir lögum almennt fari þverrandi.
Alþjóðalöggjöf
Svo er það öll löggjöfin sem streymir frá ESB sem sum kveður á um skyldur manna sem útilokað er að uppfylla án þess að skerða hér lífskjör. Dæmi um þetta er víða í löggjöf á sviði umhverfismála og svokallaðra loftslagsmála þar sem markmiðið hefur verið það eitt að gera og vera eins og nágrannaríki okkar, umfram alla skyldu og að nauðsynjalausu.
Parísarsáttmálinn og síðar Grænstefna Evrópusambandsins hefur markað mjög íslenska lagasetningu þrátt fyrir aðstæður á Íslandi séu í engu sambærilegar við aðstæður annarra landa. Ísland er heimsmeistari þegar kemur að nýtingu sjálfbærrar orku og stendur langflestum ríkjum framar í vernd náttúruauðlinda. Samt sitjum við uppi með löggjöf sem á lítið erindi við íslenskan veruleika en leggur miklar fjárhagslegar byrðar á heimili og fyrirtæki í landinu. Lítið hefur farið fyrir mati á raunverulegum áhrifum löggjafar á þessu sviði en þegar að er gáð er ljóst að í sumum tilvikum eru áhrifin þveröfug á við það sem að var stefnt. Dæmi um þetta eru kolefnisgjöldin sem hrekja framleiðslu til landa þar sem framleiðslan mengar meira. Tilgangurinn er látinn helga meðalið og hagsmunir Íslendinga látnir lönd og leið.
Áhrif vókisma á löggjöf
Vókismi hefur að mörgu leyti borið tilætlaðan árangur og þannig vakið menn til umhugsunar um margvísleg mál. Margt jákvætt hefur komið út úr umfjöllun undanfarna öld sem rekja má til vóksins. Margt hefur hins vegar miður farið. Dæmi um það er ákvæði almennra hegningarlaga um það sem nú er kallað hatursorðræða en var upphaflega, árið 1975, lýst sem ákvæði sem ætlað var að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsisréttindum allra án tillits til sérkenna þeirra. Þannig var gert refsivert að ráðast opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Með breytingum árið 1996 og 2014 var gildissvið 233. gr. a hgl. víkkað út m.a. þannig að ákvæðinu er ekki einungis ætlað að vernda hóp manna heldur einnig einstaka menn innan hópsins. Þá var kynhneigð bætt inn í ákvæðið. Nýlega var svo enn bætt við sérkennum sem eiga að njóta verndar. Sýnist flestar mannverur þá komnar undir verndarvæng hegningarlagaákvæðisins.
Löggjafanum hefur hér mistekist. Lagaákvæði sem beint var gegn andstyggilegri mismunun og aðskilnaði tiltekinna hópa snýst nú um að skerða tjáningarfrelsi allra gagnvart öllum. Á þessu græðir enginn, allra síst þeir sem verndin var ætluð. Frjáls skoðanaskipti eru nefnilega besta leiðin þegar vinna þarf málum fylgis. Og nú, þegar óheflaðir menn hafa verið dæmdir til refsinga fyrir dónaskap sem aðallega var þeim sjálfum til vansa, er tími til kominn að þrengja gildissvið 233 gr. a alm. hgl. Ég mun beita mér fyrir því á Alþingi.
Sigríður Andersen, þingmaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Hátíðarrit Orators, félags laganema við Háskóla Íslands 16. febrúar 2025.