„Það er bannað að plata!“

Þessi orð forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, sem hún lét falla í viðtali síðasta haust rifjast upp fyrir mér nú þegar ljóst er orðið að þingflokkar Samfylkingar og Viðreisnar ætla sér, með þungvopnuðu baklandi sínu, að marsera með Ísland inn í Evrópusambandið, hvað sem tautar og raular. Með Flokk fólksins í eftirdragi.

Myndin sem teiknast upp eftir að valkyrjunum svelgdist á eigin þinglokum og felldu meirihluta mála sinna til að losna frá þinginu er hreinlega með ólíkindum.

Atvinnuvegaráðherra skrifar undir samkomulag við ESB um sjávarútvegsmál. Markmiðið er augljóslega að liðka fyrir því að opna þann kafla aðlögunarviðræðna og endurstilla „samningsmarkmiðin“. Utanríkisráðherra skrifar sömuleiðis undir samkomulag við ESB, þar sem Ísland er skuldbundið til að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu sambandsins. Miðað við viðbrögð utanríkisráðherra þá virðist hún annaðhvort ekki hafa skilið plaggið, eða það sem verra er, treyst á að enginn áttaði sig á efnisatriðum þess, svona yfir hásumarið.

Svo eru það tollarnir á járnblendið. Utanríkisráðherra fékk upplýsingar um fyrirhugaða tolla á íslenska framleiðslu þann 10. júlí, þing er þá enn að störfum og var ekki frestað fyrr en 14. júlí en ekkert heyrðist frá utanríkisráðherra um málið. Þegar loks var upplýst um áformin í norskum fjölmiðlum bar hún við trúnaði við embættismann hjá ESB. Trúnaðurinn var sem sagt ekki við Íslendinga og íslenska hagsmuni heldur við einhvern embættismann hjá ESB.

Allt bendir þetta til þess að ríkisstjórnin sé komin á fullt í aðlögunarviðræður, án þess að þjóðin hafi fengið að segja skoðun sína á því. Ferðalagið í ESB er komið á fulla ferð. Án þjóðaratkvæðagreiðslu. Án samráðs við utanríkismálanefnd og án umræðu á Alþingi.

Allt ber þetta að sama brunni, kjósendur voru plataðir. Eitt er sagt og annað gert – lög, reglur, hefðir og íslenskir hagsmunir virtir algerlega að vettugi, með brosi á vör.

Er það þá formaður Viðreisnar sem á endanum ræður för? Það er ljóst eftir síðustu þinglok að ekki er það formaður Flokks fólksins, sem segist reyndar enn andsnúin inngöngu í ESB.

Ekki virðist það vera formaður Samfylkingarinnar og núverandi forsætisráðherra sem sagði orðrétt síðasta haust: „Í Evrópumálunum hef ég verið mjög skýr á því að ég tel að þetta sé ekki rétti tíminn til að fara í þá vegferð“ og áfram hélt núverandi forsætisráðherra og sagði „ég ætla ekki að ganga á bak orða minna.“

Það er nú samt það sem ríkisstjórnin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur er að gera. Vinnur að því leynt og ljóst að keyra Ísland inn í Evrópusambandið.

Þá er því kannski rétt að minna Kristrúnu á sín eigin orð: Það er bannað að plata!

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. júlí