Stóra plasttappamálið

Það var svolítið sætt, jafnvel krúttlegt, að fylgjast með vanlíðan stjórnarliða síðastliðinn fimmtudag þegar dagskrá forseta þingsins mælti svo fyrir að fyrst skyldi ræða lögfestingu reglna um að tappar skuli hér eftir vera fastir á drykkjarílátum upp að þremur lítrum að umfangi.

Hvað gerist við þriggja lítra markið, sem gerir það óhætt að tappinn sé frjáls ferða sinna veit enginn, enda er þar á ferðinni ílát sem þarf nær örugglega að skrúfa tappann á aftur sökum magns vökva sem í því er. Látum þá rannsókn bíða betri tíma.

Umræðan um áföstu plasttappana er ekki ný af nálinni, síðasta vinstri stjórn reyndi að koma þessari dellu í gegn vorið 2020 en þá var þetta stoppað í umhverfis- og samgöngunefnd.

Rökin fyrir því að hafna þessu fyrir fimm árum voru meðal annars þau að ekki væri til staðar raunverulegt vandamál í þessum efnum, rúm 90% af flöskum sem skiluðu sér til endurvinnslu kæmu þangað með tappann áskrúfaðan.

Þeir tappar sem ekki voru á flöskunum fóru auðvitað í öllum meginatriðum í ruslatunnuna á hverjum stað til hefðbundinnar meðhöndlunar heimilissorps. Sem sagt, það er verið að eyða tíma og peningum í að leysa vandamál sem er í raun ekki til staðar.

En það sem var svo sætt, í miðri umræðu um þetta mál á dögunum sem virðist hafa það að meginmarkmiði að gera Ísland aðeins leiðinlegra, alveg að óþörfu, var hversu illa stjórnarliðum, sérstaklega þingmönnum Samfylkingar og Viðreisnar, leið undir umræðunni.

Vanlíðanin var ekki tilkomin vegna umræðunnar um áföstu plasttappana, sem mér heyrist þingmenn þessara flokka, Evrópuflokkanna, elska – heldur vegna þess að umræðan hverfðist að miklu leyti um færiband regluverksins sem hingað berst frá Brussel, gagnsleysi þess sem af því fellur og oft skaðsemi.

Hvernig dirfast þessir stjórnarandstæðingar að tala illa um kerfisbandalagið, Evrópusambandið? hafa þau væntanlega hugsað.

Svarið er auðvitað að forseti Alþingis, sem fer með dagskrárvaldið, setti málið fyrst á dagskrá dagsins, á undan rammaáætlun um orkunýtingu og öðrum talsvert veigameiri málum.

Ríkisstjórnin setur þetta á dagskrá – stjórnarandstaðan mætir með skoðun. Það er reglan.

En skilaboðin frá ríkisstjórninni eru skýr. Allt ber þetta að sama brunni – skilyrðislausri ást þeirra á Evrópusambandinu og öllu sem þaðan kemur, óháð hagsmunum Íslands og raunverulegri stöðu hér. Aldrei gleyma að fyrsta mál þingvetrarins á dagskrá þingsins frá ríkisstjórninni var bókun 35! Málið sem tryggir að íslensk lög lúti í lægra haldi, stangist þau á við þau sem koma frá Evrópu.

Skilaboðin gætu ekki verið skýrari. Evrópa fyrst!

Í slagnum sem fram undan er fyrir fullveldi landsins munar um Miðflokkinn – hér eftir sem hingað til.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2025