
Staða þjóðar
Við, hinir fáu Íslendingar, höfum yfirleitt prísað okkur sæla að hafa fæðst hér. Enda höfum við haft fulla ástæðu til, a.m.k. í seinni tíð.
Velmegun hefur aukist jafnt og þétt. Þrátt fyrir skakkaföll hefur okkur gengið mun betur en flestum öðrum en nú þurfum við að hafa áhyggjur. Áhyggjur af því að árangur um langt skeið hafi gert okkur værukæra. Áhyggjur af því að stjórnvöld séu farin að telja árangurinn sjálfgefinn og að þróunin hljóti að halda áfram í sömu átt, óháð því hvað við gerum.
Á hverjum degi fáum við áminningar um að verið sé að vanrækja allt það sem best hefur reynst og gera meira af því sem allt skynsamt fólk getur sagt sér að stefni samfélaginu í óefni. Þróun samfélagsins undanfarin ár og misseri er óhugnanleg. Við erum að missa tökin og þegar það gerist í svo litlu samfélagi gerist það mjög hratt og skaðinn getur orðið óbætanlegur.
Þróun samfélagsins
Innflytjendamál urðu stjórnlaus. Í tíð einnar ríkisstjórnar meira en tvöfaldaðist hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi. Í þeim málum eins og mörgum öðrum mátti ekki ræða innihald og staðreyndirnar. Sama hvað kom á daginn, haldið var áfram á braut réttlætingar með innihaldslausum og þversagnakenndum frösum.
Í landi sem lengi hefur talist hið friðsælasta í heimi vex skipulögð glæpastarfsemi viðstöðulaust. Erlend gengi sem virða engar af grundvallarreglum samfélagsins ryðja öðrum úr vegi.
Það er þó ekki aðeins skipulögð beiting ofbeldis sem hefur færst í aukana. Ríkisútvarpið sagði frá því í vikunni að hnífum væri nú beitt í átökum á Íslandi annan hvern dag. Stunguárásir eiga sér stað um allt, í heimahúsum, á skemmtistöðum, á götum úti í úthverfum Reykjavíkur eða á Austurvelli.
Á Íslandi má nú finna hverfi sem engir Íslendingar flytja inn í. Hverfi þar sem fá börn í skólum eiga íslensku að móðurmáli. Hversu langt er þess að bíða að til verði hverfi sem lögreglan forðast eins og gerst hefur í Svíþjóð og öðrum nágrannalöndum?
Þegar hefur komið í ljós að það sem fyrir fáeinum árum var stimplað sem hræðsluáróður og fordómar hefur raungerst eitt af öðru og það jafnvel hraðar en hinir „fordómafullu“ spámenn gerðu ráð fyrir. Íslenskir íbúar höfuðborgarinnar eru nú færri en þeir voru fyrir meira en áratug. Samt er húsnæðisskortur.
Menntun
Íslendingar verja hlutfallslega meiri peningum í grunnnám en nær allar aðrar þjóðir. Árangurinn er einn sá allra lakasti sem mælist í þróuðum ríkjum. Viðbrögðin eru ný menntastefna sem virðist byggjast á því að þetta hafi gengið illa, þ.a. nauðsynlegt sé að gera meira af því sama.
Þrjú börn héldu heilu skólahverfi í heljargreipum á meðan viðbrögð stjórnenda hjá borginni virtust aðallega snúast um að koma í veg fyrir umræðu um málið. Ef þrjú börn úr ólíkum menningarheimi geta haft slík áhrif gagnvart ráðvilltum og hræddum stjórnvöldum á Íslandi getum við rétt ímyndað okkur hvað er í vændum.
Samfélagið hefur ekki brugðist við þessu eins og tilefni er til. Áherslan hefur verið á dellukenningar um það sem nú er kallað „inngilding“, þ.e. að samfélagið þurfi bara að aðlagast öllum sem hingað koma, sama hvaðan þeir koma og hvert hugarfar þeirra er.
Áfram er haldið að nálgast þróunina á grundvelli draumóra sem urðu til í einsleitu og samheldnu samfélagi. T.d. þá óraunhæfu hugmynd að allir eigi rétt á kennslu á sínu tungumáli. Það skal gilda þótt tungumálin séu orðin 100.
Réttindi ekki skyldur
Skyldur samfélagsins við eldri borgara sem hafa lagt sitt af mörkum við að byggja upp samfélagið eru vanræktar á meðan réttindi hælisleitenda eiga að vera þau sömu fyrir þúsundir á ári eins og þau voru þá áratugi þegar við tókum á móti 24 á ári að jafnaði.
Heilbrigðismál
Flestar mikilvægustu stoðir samfélagsins hafa verið vanræktar. Nú er verið að reisa nýjan Landspítala á versta stað. Byggingu sem er ekki beint aðlaðandi, við gamla miðbæ Reykjavíkur og gamla Landspítalann sem nú er falinn. Allir gátu gefið sér að staðsetningin væri óheppileg og að framkvæmdin myndi ekki standast kostnaðaráætlun. Á þetta reyndu ég og margir aðrir að benda með öllum tiltækum ráðum. En eins og svo oft í þessu samfélagi okkar er ekki brugðist við fyrr en skaðinn er skeður. Hvernig gat þetta gerst?, spyrja menn þá forviða.
Þrátt fyrir síaukin útgjöld er heilbrigðiskerfið í stöðugri nauðvörn og landsmenn virðast ekki telja það betra en það var fyrir 30 árum. Álagið eykst með stórum eldri kynslóðum en ekki síður með mikilli þjónustuþörf þeirra sem hingað hafa komið, með hvatningu stjórnvalda, í þeirri trú að Ísland sé sjúkrahús heimsins.
Tjáningarfrelsi og rökræða
Meginástæðan fyrir því að vandamál vaxa á mörgum sviðum samfélagsins er sú að leitast er við að fela vandann og stjórna í krafti umbúðamennsku fremur en að skoða raunveruleikann og bregðast við í samræmi við hann. Síðasta ríkisstjórn reyndi að koma í gegn lögum um leyfilega orðræðu og námskeið fyrir nánast alla í samfélaginu (þ.m.t. lögreglu og dómstóla) um hvað mætti segja og gera.
Nýja ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram slíkt frumvarp en starfar engu að síður á sömu forsendum. Að þeirra mati skiptir ekki máli hvað gerist, það skiptir máli hvað er sagt.
Það er áhyggjuefni ef lögreglunni er ætlað að temja sér sömu nálgun eins og gerðist í Bretlandi með skelfilegum afleiðingum. Það hefur enginn áhuga á að sjá yfirmenn lögreglunnar útskýra að aðalatriðið sé „inngilding“ og umburðarlyndi fremur en að segja að nú þurfi aldeilis að taka á þeim sem sýni samfélaginu ekkert umburðarlyndi og brjóti öll grundvallargildi þess.
Peningar út um gluggann
Á meðan afturför er ýmist hafin eða undirbúin hefur ríkinu tekist að auka útgjöld stórkostlega. Meira og hraðar en nokkru sinni áður.
Hvað fá skattgreiðendur fyrir þessa frjálslegu meðferð peninganna sem þeir hafa aflað sér annað en aukna verðbólgu?
Þeir sem hafa ferðast um vegi landsins þessa verslunarmannahelgi sjá ástand þeirra innviða. Á því sviði er áherslan á að búa til eilífðarpeningahít í formi Borgarlínu sem á auk þess að þrengja að annarri umferð.
Fyrirtækjum og frumkvöðlum landsins er refsað með nýjum álögum og kröfum sem eru til þess fallnar að draga úr þeirri verðmætasköpun sem við þurfum til að standa undir hinum miklu útgjöldum.
Almenningur fer sannarlega ekki varhluta af stöðugum gjaldahækkunum sem margar eru tilkomnar vegna einlægs áhuga stjórnvalda á að koma til móts við ESB með því að refsa Íslendingum jafnmikið og sambandið gerir gagnvart sínum borgurum og fyrirtækjum. Þetta á við hvort sem EES-samningurinn kallar á það eða ekki. Eins og þegar síðasta ríkisstjórn ákvað að íbúar þessarar eyjar norður í hafi ættu að „leggja sitt af mörkum“ með því að greiða miklu meira fyrir flugferðir og flutninga en þörf er á.
Um leið er búið að kerfisvæða samfélagið að því marki að það virðist orðið ófært um að afla sér orku, jafnvel þótt sú orka sé sú umhverfisvænasta í heimi. Vísbendingar um gríðarlegar olíu- og gasauðlindir leiddu svo til þess að lagt var fram frumvarp um að banna leit og rannsóknir á því sviði!
Landbúnaði er haldið í stöðugri nauðvörn og lítið gert úr menningu og sögu landsins, þeim þáttum sem hafa haldið íslensku þjóðinni gangandi og sameinaðri í gegnum þykkt og þunnt.
Þetta sumarið sjáum við svo að megináhersla ríkisstjórnarinnar er, og verður næstu misseri, á að troða Íslendingum inn í Evrópusambandið með góðu eða illu. Festa okkur í sambandi sem er að ganga í gegnum fullkomið niðurlægingarskeið sem það skapaði sjálft.
Næst mun ég fjalla um lausnirnar á vanda þjóðarinnar.
Til að gera langa sögu stutta snúast þær um að gera meira af því sem vel hefur reynst og minna af hinu. Trúa á gildi fullveldis og verja landamærin. Það er að segja, verja Ísland og nýta tækifæri þess með heilbrigða skynsemi að vopni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. ágúst



