
Sko, ég ætla að breyta lögunum …á næsta ári
Á síðasta þingi þóttu ráðherrar stjórnarflokkanna færa sig upp á skaftið hvað það varðar að gildandi réttur í landinu væri í raun það sem í hugarskotum þeirra leyndist.
Eitt tilvikið var þegar Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, fór á svig við lög hvað skipun stjórnar Tryggingastofnunar varðar, með þeim rökum að hún ætlaði sér við tækifæri að breyta lögunum þannig að lögleysa hennar á þeim tíma yrði til samræmis við lög framtíðarinnar.
Enn standa þau lög reyndar óbreytt. Formaður Flokks fólksins tók sönsum og skipaði stjórn Tryggingastofnunar, lögum samkvæmt.
Nú bregður svo við að innviðaráðherra, sem nýlega tók við málefnum byggðahluta aflamarkskerfisins, 5,3% pottsins, sem í eru aflaheimildir sem nýttar eru í byggðalegum tilgangi og til afhendingar bóta þar sem það á við, fer rakleitt út í skurð og brýtur þær reglur sem um pottinn gilda. Nú með þeim rökum að „í ráðuneytinu [sé] hafin vinna við smíði frumvarps til laga um strandveiðar og ráðstöfun byggðatengdra aflaheimilda og er stefnt að framlagningu þess í upphafi vorþings“, eins og segir í vikugamalli frétt á heimasíðu ráðuneytisins. Upphafi vorþings!? Það er á næsta ári! Og enginn veit um afdrif frumvarpa Flokks fólksins. Fiskveiðiárið sem nú er úthlutað vegna hófst á mánudag!
Vel má vera að einhverjar úrbætur sé rétt að gera varðandi regluverk 5,3% pottsins, en þær þarf þá að vinna í tíma og af yfirvegun. Þau áform ráðherra að skilja sveitarfélög og fyrirtæki sem reiða sig á hluta þessa kvóta eftir úti í vindinum, þar til ákvörðun hefur verið tekin næsta vor „að undangenginni ítarlegri greiningu“, er fruntaskapur af verstu gerð, gagnvart þeim sem fyrir verða.
Fyrir síðasta fiskveiðiár lá reglugerðin fyrir 11. júlí og þeir sem innan þessara reglna starfa gátu gert ráðstafanir varðandi sinn rekstur.
Nú er vika liðin af fiskveiðiárinu og þau skilaboð berast frá ráðherra að frétta sé að vænta á næsta ári. Hvað hefur þetta fólk, þessi fyrirtæki og þessi sveitarfélög gert innviðaráðherra, nú eða Flokki fólksins?
Ég skora á innviðaráðherra að taka á sig rögg. Ramma inn aflaheimildir í 5,3% pottinum með þeim hætti að þeir sem þær nýta geti gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru. Í framhaldinu getur ráðherra farið í alla þá vinnu, ígrundaða eða ekki, sem hann telur nauðsynlega, fyrir næsta fiskveiðiár.
Það blasir við að ráðherra getur ekki frestað afgreiðslu mála með þessum hætti, með þeim rökum að hann ætli eftir dúk og disk að leggja fram regluverk á Alþingi, sem hann í dag hefur ekki hugmynd um hvernig muni líta út.
Okkur er öllum uppálagt að starfa samkvæmt gildandi lögum. Það á líka við um ráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, þótt það sé ekki augljóst af fyrstu skrefunum að dæma.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september.



