Skaðræðis skattastjórn

Þegar nú­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Kristrún Frosta­dótt­ir, hafði farið landið um kring og sagt af­stöðu sína þá að veiðigjald væri raun­hæft að tvö­falda á tíu ára tíma­bili í góðu sam­ráði við hagaðila, og nú­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, hafði sagt: „Við ætl­um ekki að hækka tekju­skatt á fólk, við ætl­um ekki að hækka skatta á lögaðila, við ætl­um ekki að hækka fjár­magn­s­tekju­skatta og við ætl­um ekki að hækka virðis­auka­skatt á ferðaþjón­ustu,“ önduðu þeir sem skiln­ing hafa á mik­il­vægi verðmæta­sköp­un­ar létt­ar.

Kannski væri kom­in rík­is­stjórn sem hefði góðan skiln­ing á áhrif­um of hárra skatta og mik­il­vægi verðmæta­sköp­un­ar.

Allt reynd­ist það því miður á mis­skiln­ingi byggt.

Kveður nú svo fast að skatta­hækk­un­arþörf val­kyrj­anna að þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, lýsti því þannig í ræðu um jöfn­un­ar­sjóð sveit­ar­fé­laga að þar væri á ferðinni „til­raun til að binda sósí­al­isma í lög.

Eng­inn stjórn­ar­liði and­mælti þeirri staðhæf­ingu, enda geng­ur þing­málið meðal ann­ars út á að lög­binda í raun að öll sveit­ar­fé­lög lands­ins séu með út­svars­pró­sentu sína í hæsta lög­leyfða marki.

Það á sem sagt að refsa sveit­ar­fé­lög­um, krónu fyr­ir krónu, full­nýti þau ekki út­svars­heim­ild sína, með breytt­um regl­um um jöfn­un­ar­sjóð sveit­ar­fé­laga.

Til að sýna að stjórn­ar­liðar hafa ekki al­veg misst húm­or­inn var því skotið inn í grein­ar­gerð frum­varps­ins að „vannýt­ing­ar­á­kvæðið“ eins og það er kallað „skerði ekki rétt sveit­ar­fé­laga til að ráða […] mál­efn­um sín­um“ þar sem sveit­ar­fé­lög­in taka jú hina þvinguðu ákvörðun tækni­lega sjálf.

Stríð er friður. Frelsi er ánauð. Fá­fræði er styrk­ur“ eins og Orwell orðaði það svo ágæt­lega forðum.

Það skulu sem sagt öll sveit­ar­fé­lög lands­ins vera með út­svars­pró­sentu sína í hæstu lög­leyfðu mörk­um, ann­ars skuli þau hljóta verra af. Þetta er að mati stjórn­ar­liða ekki skatta­hækk­un.

En þetta er ekki það eina sem kallað er öðru nafni en raun­in er nú um stund­ir.

Tvö­föld­un á veiðigjaldi er kölluð leiðrétt­ing. Því til viðbót­ar seg­ir for­sæt­is­ráðherra að sú tvö­föld­un sé bara „fyrsta skrefið“ í veg­ferð enn frek­ari hækk­ana … ég meina leiðrétt­inga.

Breyt­ing­ar á regl­um um sam­skött­un hjóna og sam­búðarfólks, sem hækka greidda skatta þess hóps um 2,7 millj­arða. Tvö þúsund og sjö hundruð millj­ón­ir. Er sett í það sam­hengi að það sé verið að loka glufu. Loka glufu? Þarna var eng­in glufa, bara gild­andi skatta­regl­ur eins og þær hafa verið um ára­bil.

Álög­ur skal auka um­tals­vert á akst­ur og öku­tæki – kíló­metra­gjaldið og hækkað kol­efn­is­gjald eiga þar að skila mestu.

Allt ber þetta að sama brunni. Það skal hækka alla skatta og gjöld sem mest. Bara kalla það eitt­hvað annað. Það er ný­lensk­an í sinni tær­ustu mynd.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. apríl 2025