Sigmundur Davíð tekur sporið í Kosningapartýi Ungra Miðflokksmanna
Á fimmta hundrað ungra kjósenda löggðu leið sína í Grósku laugardagskvöldið 23. nóvember í „Kosningapartýið 2024“, viðburð Ungra Miðflokksmanna.
Tilefnið var að eiga gott kvöld saman og keyra af stað lokaviku kosningabaráttunnar. Anton Sveinn McKee og Sigmundur Davíð fluttu ræður og héldu Séra Bjössi, Húbba Búbba og DJ Ökull stemningunni uppi á meðan viðburðinum stóð, Marinó Máni Mabazza var kynnir.
Sigmundur Davíð lét sér ekki nægja að flytja ræðu heldur tók hann sporið með gestum við mikinn fögnuð og komst hann varla út vegna biðraða af ungmennum sem vildu myndir með fyrrum forsætisráðherranum. Í samantekt ungra Miðflokksmana á TikTok má sjá frá kvöldinu.
Anton Sveinn McKee, formaður Freyfaxa og frambjóðandi í 4. sæti í Suðvesturkjördæmi segir eftir viðburðinn: „Maður er hálf orðlaus yfir þeim fjölda sem mætti hérna í kvöld. Við vissum ekkert við hverju við áttum að búast, enda nýbúin að stofna ungliðahreyfinguna, en okkur tekst greinilega vel að ná til yngri kjósenda. Þegar mest var voru um 300 inni í salnum á sama tíma og geggjuð stemning, síðan voru margir sem voru að flakka á milli og held ég það það megi segja að hátt upp í 500 einstaklingar hafi lagt leið sína hingað í kvöld.“
Oddvitar og aðrir frambjóðendur á höfuðborgarsvæðinu voru á staðnum og ræddu við gesti, sem margir höfðu margar spurningar um pólitíkina.
Ungir Miðflokksmenn vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum í aðdraganda viðburðarins sem dró marga að. Einar Jóhannes Guðnason er sá sem birtist oftast í myndböndunum og var mjög ánægður með mætinguna.
„Ég fór náttúrulega í einhver 10 pallborð í vikunni í skólum um allt höfuðborgarsvæðið og var mjög ánægjulegt að sjá marga sem ég hitti þar. Við höfum fundið mikla vöntun frá yngri kjósendum að fólk tali um pólitík bara á mannamáli. Maður er kannski smá gamall að byrja þrítugur á TikTok en viðbrögðin sem ég hef fengið hafa verið mjög góð. Margir komu hingað í kvöld eingöngu vegna þess að þau hafa verið að fylgjast með mér taka á hinum ýmsu málum og fara yfir stefnumál Miðflokksins á mannamáli.“ Þegar þetta er ritað hafa auglýsingarnar 3 á TikTok fengið yfir 40 þúsund áhorf, sú vinsælasta yfir 22 þúsund.
Aðspurður hvað sé næst á dagskrá segir Anton Sveinn McKee: „Það er bara kosningavakan 30. nóvember. Við verðum í fjölda pallborða í vikunni, munum halda áfram að búa til efni fyrir samfélagsmiðlana og svo stefnum við bara á stórsigur næsta laugardag, það þýðir ekkert annað.“