
Sigmundur Davíð í hálfa öld
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er fimmtugur í dag, 12. mars.
Hann gerir upp ferilinn til dagsins í dag í einlægu viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins. Hægt er að nálgast viðtalið á vef Morgunblaðsins.

En við svo stór tímamót er vert að spyrja hvað sé framundan og svaraði Sigmundur því vígreifur í lok viðtalsins í Dagmálum:
„Það eru svo risastór mál sem væri svo vel hægt að leysa ef menn sýndu einhverja festu og leyfðu sér smá heilbrigða skynsemi – ég get ekki hætt í pólitík fyrr en að það er aftur búið að koma heilbrigðri skynsemi í gang við úrlausn vandamála. Tækifæri Íslands eru gríðarleg en ógnirnar sem að steðja að samfélaginu eru líka mjög miklar. Þannig að ég sé ekki alveg á næstunni að ég geti hætt í pólitík og langar það heldur ekki.“
Miðflokkurinn fagnar því.
Til hamingju með afmælið og áfram Ísland!
Stutt æviágrip
Sigmundur Davíð fæddist í Reykjavík 12. mars 1975. Foreldrar hans eru Gunnlaugur M. Sigmundsson og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir. Sigmundur er giftur Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur og þau eiga eina dóttur, Sigríði Elínu.
Sigmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og BS-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ 2005 auk hlutanáms í fjölmiðlafræði. Þá fór hann í skiptinám við Plekhanov-háskóla í Moskvu og sótti nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu. Framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála.
Hann hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum tíðina, m.a. þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu 2000–2007. Forseti Nordiska Ekonomie Studerandes Union 2000–2002. Fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008–2010
Sigmundur settist á Alþingi árið 2009, fyrst fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður til ársins 2013 en svo sem alþingismaður Norðausturkjördæmis frá 2013 til dagsins í dag. Hann var formaður Framsóknarflokksins á árunum 2009-2017.
Sigmundur Davíð stofnaði Miðflokkinn árið 2017 og hefur verið formaður flokksins frá stofnun hans.
Sigmundur var forsætisráðherra Íslands á árunum 2013-2016 og dómsmálaráðherra árið 2014. Þá sat Sigmundur í utanríkismálanefnd árin 2009–2013, 2017, 2021–2024 og 2025–, efnahags- og viðskiptanefnd 2017–2021 og framtíðarnefnd 2021–2024. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2009–2011, Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2011–2013, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 2017–2021 og 2021–2023, þingmannanefnd Íslands og ESB 2010–2013 og2025–, Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2023–2024, Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 2025 til dagsins í dag.