
Sá sem valdið hefur og sá sem hefur það ekki
Ágætu lesendur!
Það er mjög líklegt að almenningur sé hissa vegna þess að ekki hefur tekist að ljúka Alþingi Íslendinga á tilsettum tíma. Þó er allt eins líklegt að fólk átti sig ekki fullkomlega á gangi mála.
Það er t.d. lýðræðislegur réttur hvers minnihluta að fá að ræða mál sem hann með einhverjum hætti er ósáttur við og það þarf ekki að vera málið sjálft heldur einstakir þættir þess. Þetta hefur komið fram í umræðu á hinu háa Alþingi. Minnihlutinn vill t.d. hækka veiðigjöld og styður strandveiðar, svo fátt eitt sé nefnt, en er ekki sammála ríkistjórninni um aðferðir og þann hraða sem málin eiga að fá.
Í stuttu máli þá telur minnihlutinn fjölmörg mál ríkisstjórnarflokkanna hroðvirknislega unnin, eins og komið hefur á daginn. Of mikil hækkun veiðigjalda og það í einum rykk geti haft slæmar afleiðingar fyrir fólk og fyrirtæki vítt og breytt um landið og óráðlegt geti verið að fylgja ekki niðurstöðum rannsókna vísindamanna um fjölda fiskanna í sjónum.
Nokkur önnur mál hafa einnig komið svo að segja fljúgandi inn í þingið, án þess að um þau hafi verið opið samráð, í samráðsgátt. Þá hafa þeir verið hundsaðir sem hafa viljað tjáð sig um frumvörpin og þeim ekki gefin tími fyrir þingnefnd og þannig lokað á raddir þeirra.
Nú er júlímánuður langt kominn og enn mörg mál ríkisstjórnarinnar sem bíða þess að verða samþykkt og þar á meðal eru lögbundin mál, eins og fjármálaáætlun.
Og það að haga dagskrávaldinu með þeim hætti að láta þingmenn tala daga og nætur og miklu lengur en sem nemur 8 klukkustunda vinnudegi er alls ekki í samræmi við lýðheilsumarkmið. Er ekki ráðlegra að setja þau mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða og samþykkja eitthvað sem minnihlutinn vill í stað þess að reyna að þreyta laxinn þannig að hann verði lífvana? Er þetta fyrirmynd um góða verkstjórn?
Þessar staðreyndir tala sínu máli og benda til þess að þessi verkstjórn gangi ekkert sérstaklega vel.
Almennar reglur um samskipti og samningatækni við þinglokasamninga virðast ekki á færi ríkisstjórnarinnar og aðstoðarmanna hennar. Það er forsætisráðherra og ríkisstjórnin sem hefur valdið.
Sá sem valdið hefur ætti að hafa frumkvæði að því að koma með tillögu um málamiðlun. Það ætti ekki að vera hlutverk þess sem er í minnihluta og hefur ekki valdið að koma með tillögu um hvernig leysa beri hnútinn.
Þau sem með völdin fara virðast ekki ætla að gefa neitt eftir heldur ætla þau, eins og að keyra málin í gegn eins og þau ein vilja. Það eru ekki samningar um þinglok.
Ef minnihlutinn, sem hefur ekki valdið kemur með tillögu þá er það meginregla að sá sem valdið hefur hlusti og taki tillit til einhverra af óskum minnihlutans og leysi málið þannig. Að öðrum kosti eru sterkar líkur til þess að málið leysist ekki.
Þetta verklag ríkisstjórnarflokkanna er kallað skilyrðislaus hlýðni og er aldrei heillavænleg, hvorki á heimilum né á vinnustöðum þar sem verkstjórninn hefur valdið, en óbreyttur minnihluti fær ekkert að koma að niðurstöðu málsins.
Ef þetta er raunin, sem ég vona sannarlega ekki þá er ekki nema von að samningar um þinglok takist ekki.
Una María Óskarsdóttir, uppeldis- menntunar og lýðheilsufræðingur.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí