Orðaleppafabrikkan

Fólk í fasteignahugleiðingum, sem hefur átt erfitt með að komast í gegnum nálarauga greiðslumats, eða verið fast í endalausum keðjum sem svo slitna, létti nokkuð við nýja opinbera skilgreiningu á að hlutir séu „fullfjármagnaðir“.

Innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, fullyrti í umræðu um samgönguáætlun, að fyrsti hluti samgönguáætlunar hans væri fullfjármagnaður, það er fyrstu fimm árin af fimmtán. Forsætis- og fjármálaráðherra höfðu þá þegar haldið slíku fram.

Innviðaráðherra bætti svo við: Það er með fjármálaáætlun plús innviðafélagi.

Plús innviðafélag!? Það er semsagt ekki búið að fullfjármagna fyrstu fimm árin spurðu menn í forundran og ekki stóð á svari: Jú, það er búið að fjármagna áætlunina að fullu með peningum úr fjármálaáætlun til fimm ára og svo borgar innviðafélagið rest!

En með hvaða peningum ætlar innviðafélagið (sem ekki er búið að stofna) að borga það sem upp á vantar, spurðu þingmenn þá?

Ekki stóð á svarinu: í fyrsta lagi með eiginfjárframlagi úr ríkissjóði, í öðru lagi með lánsfjármögnun, í þriðja lagi með gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og í fjórða lagi með því að selja fjárfestum skuldabréf.

Sló þá þögn á salinn á meðan menn klóruðu sér í kollinum.

Þarna var semsagt að renna upp fyrir þingheimi að nýjasti orðaleppur ríkisstjórnarinnar er að eitthvað sé „fullfjármagnað“ ef það eru bara uppi áform um að hækka skatta og gjöld, taka lán eða setja seðla eða eignir úr ríkissjóði inn í enn eitt ohf-félagið, bara seinna.

Til að gleðja fjármálaráðherra tók innviðaráðherra reyndar sérstaklega fram að „varðandi flýtigjöldin sem er gert ráð fyrir í samgöngusáttmálanum þá [hafi] ekki verið tekin nein ákvörðun um að taka þau upp eða kveða á um þau.“ Það er einmitt það.

Það verður þá væntanlega leyst með hærri lánum, sem skattgreiðendur borga, með hærra framlagi ríkissjóðs, sem skattgreiðendur borga, nú eða með nýrri kanínu úr hatti orðaleppafabrikkunnar. Hver veit.

Stjórnarliðar hafa auðvitað lært eitt og annað af samflokksmönnum sínum sem stjórnað hafa Reykjavíkurborg um árabil, til dæmis bókhaldsbrellur Félagsbústaða, þar sem rúmlega 100 milljarðar af froðu halda reikningum Reykjavíkurborgar á floti. Af hverju ekki að nota sum trikkin fyrir ríkissjóð?

En þegar staðan er orðiðn sú að áform um framtíðar lántöku eða hærri skatta og gjöld í framtíðinni teljast „full fjármögnun“ þá fer að fækka kanínunum í hattinum.

Það sem blasir við landsmönnum eru enn hækkaða álögur á akstur og ökutæki, þykir þó flestum nóg um.

Þið munið þetta með venjulega fólkið og skattana.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. janúar, 2026.