Meira af því sama
Miðvikudagur, 16. október 2024
Bergþór Ólason
Gengið verður til kosninga 30. nóvember næstkomandi og gefst þá kærkomið tækifæri til að gera loksins eitthvað í málunum – eftir sjö ár af stöðnun og vinstristefnu í boði Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
Það þarf að taka til hendinni í efnahagsmálum, útlendingamálum og orkumálum. Málum sem Miðflokkurinn hefur barist í um árabil af sannfæringu, vopnaður raunsæi og lausnum. Við höfum sömuleiðis reynt að hrista doðann af ríkisstjórninni áður en það yrði of seint og afleiðingarnar yrðu óafturkræfar að sumu eða öllu leyti.
Nú er svo komið að verulegur orkuskortur blasir við landsmönnum í landi sem er fullt af grænni orku, velferðarkerfin bogna undan þungum og óheftum straumi hælisleitenda til landsins og vextir og verðbólga sliga venjulegt fólk sem nær nú ekki endum saman í heimilisrekstrinum. Ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn og börnin koma ólæs út úr grunnskólanum.
Sjö ára raunveruleikarof ríkisstjórnarflokkanna hefur reynst erfitt fyrir hag landsmanna.
En eftir sex vikur getum við breytt þessu. Þá verður hægt að ráðast af krafti í að ná tökum á verðbólgunni með skýrri stefnumörkun um aðhald í ríkisrekstrinum sem skilar sér í verulega lægri vöxtum. Þar skiptir máli að standa fastur í ístaðinu og koma erfiðum hlutum í verk.
Þá verður líka hægt að tryggja fyrirsjáanleika í stjórn efnahagsmála, einfalda regluverk og draga þannig úr byggingarkostnaði til að auðvelda íbúðarkaup. Ríkið þarf að ýta undir lóðaframboð og framkvæmdir í stað þess að vera steinninn í götunni. Áfram þarf að nýta séreignarsparnaðinn skattfrjálst til kaupa á íbúð til eigin nota og færa endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda á íbúðarhúsnæði til fyrra horfs.
Umsvifalaust þarf svo að hefja vinnu við setningu nýrra útlendingalaga og ná tökum á landamærunum. Það gengur ekki að Ísland sé nýtt sem söluvara þeirra sem skipuleggja fólksflutninga. Örðugt verður að bæta húsnæðismarkaðinn, heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða aðra grunnþætti samfélagsins án þess að ná stjórn á landamærunum.
Svo þarf einfaldlega að virkja. Rafmagnið verður ekki til í innstungunni og við þurfum rafmagn til að knýja framleiðslu í landinu.
Það þarf sannfæringu, lausnir og staðfestu til að ná árangri fyrir íslenska þjóð við þessar aðstæður og þar kemur enginn að tómum kofanum hjá Miðflokknum. Á meðan aðrir flokkar rembast við að líkjast Miðflokknum og eigna sér stefnu okkar og staðfestu talar sagan sínu máli og síðustu sjö árum hefur enginn gleymt. Auglýsingastofurnar afmá ekki reynslu fólksins í landinu.
Miðflokkurinn fer bjartsýnn og kátur inn í kosningabaráttu næstu vikna og við hlökkum til að segja meira af því sama – því það hefur sannað sig.
Það munar um Miðflokkinn.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins bergthorola@althingi.is