Litla rauða hagræðingarhænan

Einu sinni var lítil rauð hæna með stórt plan. Hún hafði nýlega tekið við völdum í ríki sínu og óskaði eftir aðstoð til þess að hagræða í ríkisrekstrinum:

„Hver vill koma með hagræðingartillögur fyrir ríkisreksturinn?“ Hún fékk hugmyndir úr öllum áttum enda ríkisútgjöldin gífurleg og sóunin mikil. Hugmyndirnar voru af ýmsum toga, misgáfulegar. „Takk fyrir, þetta er mjög gagnlegt!„ sagði litla rauða hænan og skipaði nefnd af vinum sínum til þess að vinna úr tillögunum.

Stuttu síðar hafði nefndin lokið við yfirferð á hagræðingartillögunum og blés til fundar til þess að kynna niðurstöðurnar. Kynningin var glæsileg en sparnaðurinn virtist takmarkaður. Úr öllum 10.000 hugmyndunum lagði nefndin fram tillögur til þess að spara um 7 milljarða á næsta ári til samanburðar við 60 milljarða halla á yfirstandandi ári. Í kjölfar fundarins sagði litla rauða hænan: „Þetta voru tillögur hagræðingarnefndarinnar en ég er ekki búin að kanna hver vill spara í ríkisstjórninni.“

Því næst fór litla rauða hænan og spurði „Hver vill hagræða?“ „Ekki ég!“ sagði dómsmálakisan. „Ekki ég!“ sagði fjármálahundurinn. „Þetta eru bara tillögur til ríkisstjórnarinnar.“ „Ekki ég!“ sagði menningargölturinn. „Fálkinn hagræddi ekkert þegar hann stjórnaði svo ég ætla ekki að gera það.“ „Ekki ég!“ sagði borgarstjórakanínan. „En ég er búin að lofa launahækkunum sem ég veit ekki hvernig á að fjármagna.“ „Ég er svo mikilvæg, nei, ég meina stofnunin mín er svo mikilvæg að það er ekki hægt að hagræða hér,“ sagði músin sem var forstjóri ríkisstofnunar.

Loks stóð utanríkisöndin upp og sló þögn á hópinn. Utanríkisöndin var mesti reynsluboltinn í forystunni og nýmætt aftur heim úr vinnuferð. „Ekki ég,“ sagði hún, „en ég ætla að senda meiri pening í næsta ríki, stofna nýja nefnd og bæta við fleiri aðstoðarmönnum.“

Og hvert ráðherradýrið og embættisdýrið á fætur öðru neitaði að hagræða en vildi öllu heldur meira fjármagn fyrir sig og sína. Litla rauða hagræðingarhænan stóð eftir, hugsi. „Þurfum við ekki að gera betur?“ spurði hún. Enginn svaraði. Litla rauða hagræðingarhænan vissi þá að valkostirnir voru tveir: að hækka skatta eða auka skuldsetningu ríkisins. Hún horfði á skjal sitt, full af hagræðingartillögum sem enginn vildi nota og andvarpaði: „Kannski á næsta kjörtímabili.“ Og þannig lauk sögunni um litlu rauðu hagræðingarhænuna.

Bessí Þóra Jónsdóttir, atferlishagfræðingur og varaþingmaður Miðflokksins í Reykjavík

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2025.